1133 - Málfarslöggur og Villi í Köben

Ekki er ég hræddur við málfarslöggur. Ég er kominn á þann aldur að mér er skítsama þó einhverjir finni að málfari mínu. Ég nota slettur hikstalaust ef mér finnst fara vel á því og það vera réttlætanlegt. Orðalag og annað reyni ég þó að hafa sem íslenskulegast. 

Mér finnst sá siður að ekki megi gagnrýna réttritun og orðalag á Netinu vera eyðileggjandi fyrir tunguna. Mikið vildi ég að einhverjir vildu gagnrýna mig fyrir málfar ef tilefni er til og ég veit að það er oft. Mönnum finnst jafnan að þeir hafi ekki efni á að gagnrýna slíkt ef þeir eru ekkert betri sjálfir en það er misskilningur. Framþróun verður einmitt með skoðanaskiptum.

Villi í Köben er alltaf skemmtilegur. Minnir bloggvini sína ítarlega (fimm sinnum) á síðustu bloggfærslu sína. Verst að geta aldrei vitað hvort honum er alvara eða ekki. Sennilega er þessi islamófóbía hans tómt grín. Nenni samt ekki að ganga úr skugga um það. Villa langar greinilega að gera grín að Vigdísi fyrrum forseta en kemst ekki á almennilegt flug þar. Úr fjölmiðlafarsanum grimmúðlega árið 2004 er mér minnisstæðust ein vísa sem ég get ómögulega munað eftir hvern er.

Vanhæfur kom hann að verkinu.
Vigdís plantaði lerkinu.
Bónus hann á
eins og hvert barn má sjá.
Það er mynd af honum í merkinu.

Svo man ég líka vel eftir því þegar starfsmenn Stöðvar 2 settu þessa fínu banana við Alþingishússhurðina frægu í stað þess að éta þá.

Gísli Baldvinsson (líklega sonur Jóns Baldvins) skrifar blogg-grein á Eyjuna sem hann nefnir „Þumlgefendur Eyjunnar." Mér þykir greinin um margt fróðleg en þó finnst mér mörgum spurningum ósvarað um þetta mál og margt sem Eyjubloggi viðkemur og fréttaflutningi þar.

Margir ágætir bloggarar hafa horfið af Moggablogginu og Eyjan tekið þeim fagnandi. Þessir bloggarar hafa oft haft mörg orð um Davíð Oddsson og blogg-lokanir á Moggablogginu. Hugsanlega hafa einhverjir þeirra skrifað blogg um reynslu sína af skiptunum og breytingunni. Ég hef samt ekki rekist á marktæka úttekt á slíkum flutningum.

Útbreiðsla og vinsældir eyjunnar.is og mbl.is skipta auðvitað máli þarna sem og þróunin í því efni. Margt fleira kemur og við sögu. Kannanir á þessu sviði gætu verið forvitnilegar og vel getur verið að þær hafi verið gerðar.

IMG 3131Mér dettur í hug danska glósan: (eða var það bókartitill?) „Fremtiden er allerede begyndt," þegar ég sé þessa mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Kallar þú mig íslamófób, Sæmundur? Mann sem var fyrstur til að mæla með mosku á Íslandi á undan múslímunum?  Þér er ekki fisjað saman í Villafóbíunni.

En svo þegar hann Villi í Köben bendir á, að ný samtök sem fjárfesta vilja í Íslam á Íslandi, fái fé frá öfgasamtökum sem SÞ eru með á lista yfir hryðjuverkasamtök, þá er hann orðinn Íslamófób.

Sannleikurinn er erfiður, og er því gott að tölvuhiksti moggabloggsins hafi sent þér erindið 5 sinnum. Ég ýtti reyndar aðeins einu sinni á hnappinn. Þjónusta moggabloggsins er greinilega fimmföld og er þakklátur fyrir það.

Öllu gríni fylgir alvara og alvöruna er best að taka með gríni! Reynda að brosa vinur minn

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 8.9.2010 kl. 07:13

2 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

http://postdoc.blog.is/blog/postdoc/entry/1092295/ Lesið íslamófóbíuna í Villa, og endilega fimm sinnum ef þið haldið að það sé grín.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 8.9.2010 kl. 07:14

3 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Hef aldrei gert grín af Vigdísi, enda engin ástæða til þess, en skrifaði um leiðinlega árás á hana nýlega: http://www.postdoc.blog.is/blog/postdoc/entry/1090265/´

Það var ekkert grín!

Ég held, Sæmundur, að þú hafir ekki fæðst með fantasíu. Það er fantagóð sía, sem gerir mönnum það kleift að sjá hlutina í öðru ljósi en með 40W peru.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 8.9.2010 kl. 07:24

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Þrefaldur Villi og það svona snemma morguns. Ég ræð bara ekki við meira. Ég brosi satt að segja sjaldan meira en þegar ég er að munnhöggvast við þig. Gaman að setja nafnið þitt í fyrirsögnina. Þó ekki væri nema til þess að fá viðbrögð.

Sæmundur Bjarnason, 8.9.2010 kl. 07:53

5 Smámynd: Sigurður Grétar Guðmundsson

Sæmundur, þú ræðst ekki í lítið; að gera Jóni Baldvini barn! Ég held að Jón Baldvin gangist seint við faðerninu, að hann sé faðir Gísla Baldvinssonar. En hvað er ég að skipta mér af þessu, best að Jón Baldvin annaðhvort gangist við króganum eða sverji  hann af sér.

Sigurður Grétar Guðmundsson, 8.9.2010 kl. 10:10

6 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Ég er með íslamófóbíu, fékk hana 1967 þegar ég þurfti að dvelja í íslamalandi um hríð. Eftir þá dvöl sagði ég strax: Hættið að ólmast þetta í sovét- og kommahættunni. Hún ber í sér sína eigin sjálfseyðingu. En tökum upp baráttuna gegn íslam. Það er raunveruleg hætta.

Ég er enn sama sinnis og hef eflst ef nokkuð er. Og tek undir með Villa í Köben, sjá hér að ofan, fyrstu athugasemd, sbr. hryðjuverkasamtökin sem vilja koma hingað með bólgna sjóði. Og dómsmálaráðuneytið má ekki setja upp forvarnadeild.

Sigurður Hreiðar, 8.9.2010 kl. 10:55

7 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Sigurður G. Þetta með Jón Baldvin var nú bara ágiskun hjá mér. Held að ég hafi líka skrifað það þannig. Er ekkert sérlega sterkur í ættfræði þó hún geti oft verið forvitnileg.

Sigurður H. Mér finnst íslamófóbían hjá Villa ganga dálítið langt stundum. Þekki ekki þína fóbíu. Er kannski sjálfur með Villafóbíu. Svo eru sumir með Ísraelsfóbíu. Ekki þó Villi.

Sæmundur Bjarnason, 8.9.2010 kl. 13:48

8 identicon

Svona er nú Íslamd í dag

DoctorE 8.9.2010 kl. 21:01

9 identicon

Er limran ekki eftir Hákon Aðalsteinsson?    Mér finnst ég hafa heyrt það og húmorinn og kaldhæðnin er alla vega lík hans handarverkum!

 Ragnar

Ragnar Eiriksson 8.9.2010 kl. 21:34

10 identicon

Ég hélt að Vilhjálmur Örn væri með fóbíu gagnvart þeim sem hafa fóbíu gagnvart gyðingum og Ísrael. Mér finnst ég hafa lesið það út úr blogginu hans. Annars hef ég ekkert vit á þessu og ætti kannski bara að þegja. Er Vilhjálmur Örn gyðingur annars? Geta menn orðið gyðingar sem eru það ekki fyrir? Gæti t.d. islamisti gerst gyðingur?

Hólímólí 8.9.2010 kl. 22:09

11 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ragnar. Nei ég held að vísan sé ekki eftir Hákon. Það var áreiðanlega einhver félagi minn á leirlistanum sem gerði hana á sínum tíma og Hákon var aldrei þar.

Hólímóli. Já, Vilhjálmur tekur oft svari Ísraelsmanna og það eru einmitt islamistar sem anda hvað mest á þá. Villi er Íslendingur í húð og hár. Lærður fornleifafræðingur en vinnur í Danmörku.

Sæmundur Bjarnason, 8.9.2010 kl. 22:49

12 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Fyrst þið eruð jafnuppteknir af mér og heilaga fólkið í Færeyjum er af Jóhönnu og frú, þá er hér smá leiðrétting: Hólímólí spurði hvort ég væri gyðingur, en ekki hvort ég væri Íslendingur. Húð mín og hár eru hvorugt íslenskt nema í vegabréfinu, en ca. helmingurinn af líkamanum er það enda er ég skyldur Thorvaldsen og Jóni Arasyni, ef ég er rétt mæðraður. Ég er ekki úr Árnessýslu eins og Sæmundur heldur, og trú mín, það er auðvitað mitt einkamál. En í genum mínum er góður slatti af sönnunargögnum frá ferðum forfeðra minna í Afríku og ég er húðminni en flestir menn á Íslandi. Hvað get ég sagt: Hallelúja og Amen. En svona upplýsingar frá jafnþekktum manni og mér kosta auðvitað. Ég sendi reikning. Eruð þið borgunarmenn?

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 9.9.2010 kl. 01:35

13 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Upplýsingarnar kosta, ja svei. Þú ert nú þekktari að endemum en öðru Villi minn. Þessi hái hestur fer þér ekkert sérstaklega vel. Ég held ekkert að þú sért ættaður úr Árnessýslu.

Sæmundur Bjarnason, 9.9.2010 kl. 03:47

14 identicon

Geturðu ekki sent reikninginn á íslenska alþýðu? Það er vinsælt núna enda borgum við víst alla reikninga. Annars er ég í því að spyrja misgáfulegra spurninga þessa dagana ... spurninga sem mig hefur lengi langað að fá svör við en ekki þorað að spyrja af ótta við að verða að athlægi vegna þekkingarskorts.

Ég var til dæmis að spyrja þá á Stjörnufræðivefnum hvort allar stjörnur sem við sjáum frá jörðu með berum augum væru ekki örugglega innan okkar eigin vetrarbrautar?

Svo veit ég að kristnir geta tekið upp íslamstrú og orðið íslamistar ef þeir vilja ... og að allir sem vilja geta tekið upp kristna trú og orðið kristnir ... en er líka hægt að taka upp gyðingatrú og gerast gyðingur? Eða er gyðingatrú bara fyrir þá sem eru fæddir gyðingar?

Hólímólí 9.9.2010 kl. 04:53

15 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Hólímólí minn. Það þýðir lítið að spyrja mig um gyðingleg málefni og okkur er kennt að betra sé að játa kristna trú með vörunum en að afneita henni.
Varðandi stjörnurnar held ég þó að svarið sé já eða jú. Næsta spurning er þá væntanlega af hverju við sjáum ekki fleiri. Þá held ég að svarið verði að við sjáum með berum augum bara þær allra skærustu. Svona væri hægt að halda áfram lengi með spurningar og svör.

Sæmundur Bjarnason, 9.9.2010 kl. 07:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband