1114 - Ríka fólkið og stjórnlagaþingið

Ljóst er að af stjórnlagaþinginu verður. Það verður samt talsvert háð stjórnmálaástandinu og varla nema svipur hjá sjón miðað við það sem sumir sáu fyrir sér. Alþingi lætur sitt úrslitavald ekki svo glatt af hendi. Danir létu sitt vald af hendi með góðu. Það mun Alþingi ekki gera. Allra síst svona fyrirfram og án þess að vita hvað kemur í staðinn. Þess vegna meðal annars er reynt að koma í veg fyrir að hver sem er geti boðið sig fram til setu á þessu þingi. Það mundi líka bara leiða til öngþveitis. Þeir sem þar verða í framboði geta varla boðið sig fram með árangri nema þeir hafi stuðning stjórnmálaflokks/flokka og/eða fyrirtækja. Þar hefur valdið alltaf verið og þar mun það halda áfram að vera.

Nú orðið versla ég ekki síður í Krónunni en í Bónusi. Skilst að það sé trendið. Krónumenn spara mikið. Stafi jafnvel . Sá þar um daginn auglýsta tannbusta. Já, errið vantaði alveg. Þegar nánar er að gætt er það líklega horfið úr framburði og þessvegna finnst fólki að ekki þurfi að nota prentsvertu í svoleiðis óþarfa. Annars er það að æra óstöðugan að vera sí og æ að fárast yfir stafsetningu á opinberum vellvangi. Í vefnaðarvörudeild Kaupfélagsins í Borgarnesi voru eitt sinn auglýst pils með ypsiloni. Það þótti réttritunarnördum skrítið. (Jafnvel skrýtið)

Skelfing er tíminn fljótur að bruna frá manni ef maður gætir sín ekki. Stundum ætlar maður bara að sinna einhverju smáviðviki en áður en við er litið er komið kaffi eða eitthvað enn verra. Einu sinni var ég svo slæmur (og grannur) að ég gleymdi stundum að borða heilu dagana.

Svo eru Sigurður og Óli orðnir sáttir. Það eru hrunfréttirnar í dag og allir keppast við að leggja útaf því. Þó ekki ég. Nenni bara ekki að æsa mig yfir því. Nóg er nú samt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Þessvegna ætla ég, bláfátækur, að bjóða mig fram til stjórnlagaþings án þess að þiggja neina styrki og eyða helst engu í auglýsingar.  Kannski ég kaupi samt eina í Sunnlenska.

Axel Þór Kolbeinsson, 20.8.2010 kl. 10:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband