1098 - Veðurfar og Icesave

Öfgakenndur veðurfarsáhugi er einskonar lífsflótti. Alveg eins og of mikill áhugi á hvers kyns íþróttum er það. Stjórnmál eru samt ekki lífið sjálft þó sumir virðist halda það. Atvinnumál ekki heldur. Listasnobb enn síður. Heppilegast er að blanda öllu saman. Hafa áhuga á sem flestu. Heilmiklu er hægt að ráða um það en þó ekki öllu. Allir eru betri en náunginn í einhverju. Bloggi ef ekki vill betur. 

Þessi var nokkuð góður (eða átti a.m.k. að vera það) Ég er búinn að blogga svo lengi að sumir eru farnir að telja mig betri en náungann í því. (Þar á meðal ég sjálfur.) Erfiðast í því stríði öllu er að þegja. Sumt er algjör óþarfi að blogga um og í athugasemdum er auðvelt að glata sjálfum sér og fimbulfamba villt og galið öllum til ama.

Finnur Bárðarson bloggar um handahreyfingar Ögmundar Jónassonar og telur þær benda til þess að hann hugleiði mjög forsetaframboð. Ég hef tekið eftir þessum handahreyfingum Ögmundar, vængjaslætti ÓRG og spenntum greipum Margrétar Tryggvadóttur, en tel að meira felist í forsetaembættinu en handahreyfingarnar einar. Ég kaus ÓRG á sínum tíma og þó mér finnist hann hafa brugðist á sumum sviðum er hann ennþá minn forseti. Tek ekki undir áróður allra þeirra sem telja hann óalandi og óferjandi. Forsetaembættið er heldur ekki óþarft. Allra síst eins og stjórnarfarið er á þessu landi. Stjórnarskrá Íslands er líka fremur lélegt plagg.

Alltaf er gaman að andskotast á blogginu. Er líka að æfa mig í að setja hitt og þetta mismerkilegt á fésbókina. Þá get ég sleppt að blogga um það. Stundum dettur mér of margt í hug til að hægt sé að setja það allt á bloggið. Þá er gott að eiga fésbókina að.

Vissulega er búið að flækja Icesave-málið fram og aftur á allan mögulegan hátt. Eftir stendur þó í mínum huga að Íslenska ríkisstjórnin (studd af nægilegum fjölda þingmanna sem til þingsetu voru kjörnir af þartil bærum aðilum) ábyrgðist (og greiddi, eða tryggði greiðslu á) allar innistæður aðila sem búsettir voru á Íslandi en ekki annarra.

Slík mismunun er ekki liðin hjá samtökum þjóða. Kannski er hægt að komast hjá að greiða Icesave en þá erum við Íslendingar ekki tækir í alþjóðlegt samstarf. Kannski fyrirgerðum við þeim rétti okkar með því að hafa ekki nægilegt eftirlit með vafasömum bankaeigendum.

Og nokkrar myndir:

rau22Rótarhnyðja.

rau33Stigi í skógi.

kjós16Krækiber.

kjós23Komiði sæl.

kjós26Sveitaverslun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ef ég væri noijaður héldi ég að þetta með veðurfarsáhugann væri sneið til mín! En þar sem ég er gjörsamlega laus við hvers kyns öfgar fullyrði ég að enginn skilji lífið nema hann skilji veðrið!

Sigurður Þór Guðjónsson, 2.8.2010 kl. 00:56

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Sigurður, þetta með veðurfarið var ekki nema öðrum þræði meint sem sneið til þín. Mér finnst öfga-allt vera af hinu illa og verður stundum hugsað til þess að kannski sé veðurfarsáhugi þinn þér í rauninni til trafala. (Bloggar líklega ekki nóg hans vegna) Hefði vel getað tekið eitthvað annað dæmi. Finnst samt vel hægt að skilja margt annað (jafnvel lífið sjálft) þó veðurskilningurinn sé mjög takmarkaður.

Sæmundur Bjarnason, 2.8.2010 kl. 08:05

3 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Góður

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 2.8.2010 kl. 09:37

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Maður heyrir fólk stundum segja að hitt og þetta sé lífsflótti. En ég spyr: Hvernig eiga menn að lifa og á hverju eiga menn að hafa áhuga til að hægt sé að segja að þeir lifi lífinu án þess að þeir séu að flýja það? Er það einhver smáborgaraháttur? Skýrðu það nú út fyrir mér. Í mínum huga er fátt eða ekkert til sem heitir lífsflótti. Lífið á óteljandi fleti og mennirnir eru margbreytilegir. Ég held að ekki sé hægt að telja áhuga minn á veðri til öfga, ekki síst vegna þess að hann er bara einn af fjölmörgum áhugamálum mínum sem spanna vítt  svið, frá tónlist, bókmenntum og heimspeki til raunvísinda,  þó ég bloggi meira um veðrið en annað. Bloggið mitt var fyrst og fremst stofnað til að blogga um veðrið. Það er nóg af bloggurum sem blogga um annað. Þetta blogg mitt er hugsað sem upplýsingaveita fyrir þá sem áhuga hafa á veðri en ég veit vel að þeir eru fáir. En þeim er þetta ætlað, þeim sem skilja það og kunna á einhvern hátt að meta það. 

Athugasemd mín um það aö engir skilji lífið nema skilja veðrið er náttúrlega bara djók eins og ætti að sjást á orðalaginu. Ég er mjög meðvitaður um það að fáir hafa einhvern sérstakan áhuga fyrir veðri alveg eins og fáir hafa sérstakan áhuga fyrir jarðfræði. En það gerir áhuga á þessum viðfangsefnum ekki neitt vondan á neinn hátt.

En ég viðurkenni að mér finnst óþægilegt að maður, sem ég veit ekki til að ég hafi nokkurn tíma séð, hvað þá talað við svo hann hafi einhver skilyrði til að meta líf mitt, segi að áhugi minn á veðri sé mér til trafala. Hvernig er hann mér til trafala? Hefur þú einhverja stöðu til að dæma um það hvað er öðru fólki til trafala í lífnu, setja þig í dómarasæti yfir þeim?

Áhugi minn á bloggi minnkar stöðugt. Þetta var skemmtilegt um tíma en mér finnst bloggið hafa að mestu leyti kafnað í æsingi og persónulegu skítkati. Það er ekki heillandi heimur.

Hvernig er annars að hafa öfgafullan áhuga á bloggi og vísnagerð? Er það nokkuð flótti frá lífinu? Getur verið að það standi þeim sem hafa slíkan megaáuga fyrir þrifum eða sé þeim til trafala? 

Annars er það stefna mín að láta aðra bloggara sem mest í friði og leyfa þeim bara að vera eins og þeir eru.

Sigurður Þór Guðjónsson, 2.8.2010 kl. 11:46

5 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Í Stuðmannamyndinni „Með allt á hreinu“ er fræg setning þar sem Óliver Twist segist tvista til að gleyma. Þessi Óliver Twist var leikinn af Sæma Rokk (ekki þó Sæma Blogg).

Ég tók í gærkvöldi sérstaklega eftir fyrstu setningunni hér í bloggfærslu nr. 1098 vegna þess að ég var þá eimitt nýbúinn að blogga um veðrið eins og oft áður enda haldinn öfgakenndum veðuráhuga og var alveg viss um að Sæmi Blogg hafi einmitt verið að lesa mitt veðurblogg. Annars finnst mér veðuráhuginn vera góð viðbót við lífið frekar en flótti frá því og eins og Siggi segir þá er þetta í raun ástæðan fyrir því að maður bloggar yfirleitt. Kannski er það þó bara bloggvafstrið sjálft sem er komið út í öfgar hjá manni enda fer heilmikill tími í það.

Emil Hannes Valgeirsson, 2.8.2010 kl. 12:49

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Athugasemd mín um það aö engir skilji lífið nema skilja veðrið er náttúrlega bara djók eins og ætti að sjást á orðalaginu.

Gæti ég ekki verið að djóka líka? Hvaða orðalag einkennir djók?

Takk samt fyrir efnisríka athugasemd. Reyni kannski að svara henni betur seinna. Hef sjálfur nokkurn áhuga fyrir heimspeki. skilgreini mig heimspekilega sem efahyggjumann. Efast um allt. Jafnvel eigin tilveru. Kann samt ekkert fyrir mér í heimspekilegri rökræðulist.

Ég er ekkert að meta líf þitt (eða veðuráhuga) sem lífsflótta. Þetta er bara orðalag. Ef ég tel eitthvað vera þér til trafala þá er það frá mínum sjónarhóli séð. Mér finnst þú góður bloggari og ættir að blogga meira. Fésbókin finnst mér vera skvaldur en þú hefur oft hrósað henni.

Sæmundur Bjarnason, 2.8.2010 kl. 12:55

7 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Athugasemd mín hér að ofan var einkum Sigurði Þór ætluð, enda hafði ég þá ekki séð athugasemdina frá Emil Hannesi. Mér finnst við ekkert endilega vera ósammála, kannski höfum við bara mismunandi skilning á orðinu "öfgar". Ég blogga þó ekki af einhverjum veðurfarsáhuga. Sumir gera það samt og aðrir af pólitískum áhuga eða trúarlegum, hvað veit ég? Les oft veðurfarsblogg en man ekki af hverju ég tók svona til orða í færslu nr. 1098

Sæmundur Bjarnason, 2.8.2010 kl. 14:27

8 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Eitt er að nefna öfgar almennt, annað að bæta því við að einhver áhugi hjá manni sé honum til trafala.

Sigurður Þór Guðjónsson, 2.8.2010 kl. 14:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband