1092 - Lúpína og skák

Talsvert er um þá fögru jurt lúpínuna talað um þessar mundir. Einkum er það til varnar henni en þó eru einhverjir sem vilja hana feiga hvar sem til hennar næst. Man vel hvar ég sá þessa jurt fyrst. Það mun hafa verið um 1980 í skógræktinni í Skorradal. Mér þótti hún áberandi falleg og dugleg að breiða úr sér. Það getur vel verið að sumsstaðar sé hún ágengari en góðu hófi gegnir. Víða er hún þó til hinnar mestu prýði og gæðir lífi örfoka mela. 

Kom á óvart að sjálfur Björn Bjarnason er fyrir neðan mig í vinsældum á Moggablogginu. Hvernig skyldi standa á því? Er hann fallinn í svona mikla ónáð karlgreyið? Einhverntíma las ég dagbókina hans á blogginu og hún var eins og óralangt Reykjavíkurbréf. Neimdropping hægri vinstri og annað eftir því. Hvernig maðurinn nennir að skrifa þessi ósköp er fyrir ofan minn skilning.

Það er leiðinlegt að skrifa í fésbókarstatusinn hvað eftir annað og fá engin viðbrögð. Annars eru fésbóklingar duglegir við að setja þumla á allt mögulegt og undirrita allan fjárann. Sýnist að hún geti fljótlega orðið plága hin mesta. En það er vissulega gott að geta litið í hana strax og maður vaknar á morgnana. Tala ekki um ef maður hefur farið snemma að sofa, þá er oft ýmislegt að sjá.

Nú er ég að mestu hættur að gera greinarmun á því sem ég skrifa á bloggið mitt, í fésbókina eða bara í bloggskjalið mitt og birti aldrei. Bráðum hætti ég sennilega líka að gera greinarmun á því sem ég skrifa þar og hugsa eða segi við aðra. Það er eins gott að hafa bókhaldið yfir þetta alltsaman í lagi.

Í skák fer allt eftir settum reglum. Þess vegna tefli ég. Þar er ekkert rúm fyrir mismunandi túlkanir. Að minnsta kosti ekki hvað snertir leikreglurnar sjálfar. Skákmenn eru samt lúnknir við að finna sér eitthvað til að rífast um. Stjórnmálamenn sumir eru ágætir skákmenn. Þeir ættu bara að tefla meir og hætta þessu bölvuðu rifrildi. Þegar allir eru farnir að skipta sér af þessu blessaða bankahruni þá er ekki von á góðu. Kannski fáum við nýja ríkisstjórn fljótlega.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrannar Baldursson

Í skák fer allt eftir settum reglum. Þess vegna tefli ég. Þar er ekkert rúm fyrir mismunandi túlkanir. Að minnsta kosti ekki hvað snertir leikreglurnar sjálfar. Skákmenn eru samt lúnknir við að finna sér eitthvað til að rífast um. Stjórnmálamenn sumir eru ágætir skákmenn. Þeir ættu bara að tefla meir og hætta þessu bölvuðu rifrildi. Þegar allir eru farnir að skipta sér af þessu blessaða bankahruni þá er ekki von á góðu. Kannski fáum við nýja ríkisstjórn fljótlega.

Þarna er ég sammála þér. Þegar ég tek þátt á skákmótum þaggar það algjörlega niður í mér og bloggið stendur óhaggað þar sem allur krafturinn fer í að sjá hvernig maður gat gart betur og læra aðeins meira um hvernig hægt er að bæta sig. 

Því miður eru engin skákmót hér í Stavanger yfir sumarmánuðina og netskák ekki jafn skemmtileg og að tefla við manneskju yfir borði. þess vegna fer krafturinn í að vinna og blogga síðan um það sem grípur áhugann á hverri stundu.

Hrannar Baldursson, 27.7.2010 kl. 05:31

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ég er ekki sammála þér um það Hrannar að netskák sé leiðinleg. Grundvallaratriðið er samt að taka hana ekki of alvarlega. Best finnst mér að tefla þónokkuð margar bréfskákir í einu án þess að taka þær mjög alvarlega. Það gerir ekki nokkurn skapaðan hlut til þó maður tapi einni og einni. Það getur líka vel verið að ekkert sé að marka stigin á vefsetrinu.

Sæmundur Bjarnason, 27.7.2010 kl. 10:17

3 Smámynd: Brattur

Mér finnst svo skemmtilegt í skákinni hvað peðin geta verið/orðið öflug !

Brattur, 27.7.2010 kl. 22:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband