1087 - Ágætt virðist að hafa nöfn í fyrirsögn

Svanur Gísli Þorkelsson skrifaði um daginn á sínu bloggi um vondu fráskildu konuna í Japan sem setti barnið sitt í þvottavél. Það er alveg rétt hjá Gísla að stundum er umgerð fréttar miklu forvitnilegri en fréttin sjálf. Þessi tiltekna frétt finnst mér bera öll einkenni svonefnra „urban legends" sem oft eru kallaðar flökkusögur á ástkæra ylhýra. Kæmi ekki á óvart þó erfiðlega gengi að sanna þessa sögu, væri það reynt.

Trúmálaumræðan hjá Grefli og Kristni er að fara í hundana eins og við mátti búast. Formið er misheppnað. Hentar illa að þurfa að skrolla langar leiðir til að finna það sem maður vill lesa. Trúarþrætur eru líka oftast afar ómarkvissar fyrir alla nema þátttakendur og fáeina aðra sem mikinn áhuga hafa. Kannski verður það líka þannig með ESB-umræður þegar fram líða stundir. Einhver var um daginn að óskapast yfir því á bloggi hve ESB-umræðan væri fyrirferðarmikil . Mér finnst hún ekki vera byrjuð.

Lenti í hremmingum á Facebook. Tölvan blikkaði og blikkaði og vildi ekki fara þangað sem ég ætlaði að senda hana. Málið leystist samt og ég fór að hugsa um fyrirbrigðið fésbók. Látum nafngiftina á íslensku liggja á milli hluta. Þar sigrar á endanum sá sem meira hefur aflið. Forritunin þar er reyndar nokkuð góð og þeir sem þar véla um hafa gert sér grein fyrir því að Netnotendur vilja yfirleitt fá allt ókeypis. Vel er þó hægt að misnota þær upplýsingar um fólk sem Facebook aflar. Það verður örugglega gert og er líklega byrjað. Auglýsingar allar eru sífellt að verða markvissari og beinskeyttari. Það má þakka fyrirbrigðum eins og gúgli og fésbók ásamt fleiri forritum.

Séra Baldur (Kristjánsson í Þorlákshöfn) skrifaði um daginn athyglisverðan pistil um líffæragjafir. Þar er ég um margt sammála honum. Samt er einhver mesta hryllingssaga sem ég hef heyrt frá Kína sú að þar séu dauðadæmdir fangar líflátnir eftir því hver staðan er á líffæramarkaðnum. Auk þess sem ég er alfarið á móti dauðarefsingum þá er þetta jafnvel hryllilegra en sláturhúsasögurnar sem maður hefur heyrt og eru þær þó margar miður fallegar.

Fyrirsögnin á blogginu mínu í gær benti til að það væri um hrunið öðru fremur. Kannski var það þessvegna sem Moggabloggsteljarinn sýndi fleiri heimsóknir en venjulega.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heyrðu mig nú Sæmundur ... nú ertu ekki sanngjarn að mínu mati. Umræða okkar Kristins er ekkert að fara í hundana þótt hún hafi kannski skransað aðeins á teinunum í upphafi. Það mátti kannski búast við því þar sem formið er "nýtt" (ég set nýtt í gæsalappir því auðvitað er líklegt að formið hafi verið notað áður annars staðar þótt við Kristinn séum e.t.v. að tækla það í fyrsta skipti).

Ég bið þig um að snúa af villu þinna vega en ef þú átt erfitt með það vil ég benda á að ég er með afara ódýra og handhæga "Skoðanaskipta" til sölu á einni af bloggsíðum mínum. Þeir sem panta fyrir fimm fá "Fattara" í kaupbæti.

Grefill 22.7.2010 kl. 06:34

2 identicon

Fjölmiðlar hafa matað fólk á fréttum af Kína. Ekki hefur allt verið þar satt og sumt skreytt ansi mikið. Hinu er ekki að leyna að sumar fréttir þaðan eru okkur ekki þóknanlegar.

Ópíum stríðinu svokallaða er rétt nýlokið (allir ættu að kynna sér það td. á vald.org) og er skrítið að þar sé dauðadómur við smygli á eiturlyfjum?  Nei.

Þá verður fólk að sætta sig við að mismunandi menning blómstri um gervallan heim.

Bandaríkjamenn hafa drepið milljónir Asíubúa í þágu styrjalda, sennilega ekkert glæpsamlegt við það? Eða hvað?  Börn eru ennþá að fæðast vansköpuð í Víetnam en við fáum engar fréttir af því. Ég hef heimsótt stofnun fyrir vansköpuð börn þar og eitt er víst að maður labbar ekki brosandi þaðan út enda er þetta lokað elítunni. Íslenskar sláturhúsasögur eru léttvægar miðað við sögur af slátrun á fólki.   

Guðmundur Bjarnason 22.7.2010 kl. 06:56

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, bloggið er einræða en athugasemdir umræða ef vel tekst til. Sú umræða er samt vandasöm og fer oft úr böndunum. Tilraun ykkar Kristins er markverð einkum fyrir þær sakir að fyrirfram er reynt að koma böndum á umræðuna á tvennan hátt: Strangar reglur um umræðuna sjálfa og takmörkun þátttakenda. Þó mér finnist umræðan hafa farið dálítið í hundana hvað umræðuefnið sjálft snertir þá er formið áhugavert og vert að fylgjast með hvernig til tekst. Margir hafa samt áhuga á umræðuefninu og þessi tilraun beinir blogginu á nýjar slóðir.

Sæmundur Bjarnason, 22.7.2010 kl. 06:57

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Guðmundur, sá ekki innlegg þitt fyrr en ég var búinn að senda hitt innleggið mitt. Styrjaldir eru eitt. Dauðarefsingar annað. Mér finnst ríkisvald ekki eiga að hafa heimild til að taka menn af lífi. Refsingar eiga að hafa annan og göfugri tilgang en hefndina eina. Vel getur verið að auðveldara sé að stjórna með hörðum refsingum en önnur úrræði eru samt til. Umræður um þessi mál fara samt oft svikpaða leið og trúmálaumræður og skila í raun engu. Vitanlega er munur á menningu þjóða en ákveðin atriði sem mannréttindi snerta eru samt gegnumgangandi.

Sæmundur Bjarnason, 22.7.2010 kl. 07:08

5 identicon

Það er nákvæmlega það sem ég er að vona að komi út úr þessu, Sæmundur. Þótt umræða okkar Kristins hafi vissulega og fljótlega tekið stefnu út í móa þá tel ég okkur hafa afstýrt því slysi þannig að nú sé hún komin á rétta braut aftur.

Heppnist þessi umræða vel og sanni þá um leið að umræðuformið sé heppilegt, þá hef ég hugsað mér að reyna að beita mér fyrir því að samskonar form verði tekið upp manna á millum í umdeildum málum öðrum, s.s. stjórnmálum ... þar með talið ESB ... en stjórnmála- og ESB-umræða hér á blogginu einkennist af ... mér leiðist ægilega að nota þetta orð ... skítkasti ... þar sem hún fer alltaf inn á þá braut að menn fara að deila á og jafnvel niðurlægja hvern annan í stað þess að halda sig við málefnið.

Mér þætti svakalega gott og gaman ef hægt væri að losa umræður um umdeild mál við allt slíkt ... og helst bloggið allt (þótt það sé líklega borin von).

En þér?

Grefill 22.7.2010 kl. 07:15

6 identicon

Ég hef ekki nennt að kikka á þetta hjá þeim... :)

doctore 22.7.2010 kl. 13:20

7 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Ég held að þessi saga hafi nú verið sönn þótt það sé rétt að hún berti öll merki flökkusögu. Þær eru til allnokkarar af börnum í þvottavélum, jafnvel örbylgjuofnum.

Svanur Gísli Þorkelsson, 22.7.2010 kl. 16:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband