1065 - ESB og svefn

Las einhversstaðar að því lengri sem svefn væri því meiri líkur væru á að hann innihéldi svonefndan gæðasvefn. Fór ekki að sofa fyrr en um eittleytið í fyrrakvöld. Glaðvaknaði svo og fann að svefninn hafði verið ágætur. Nú mundi ég vera endurnærður og tilbúinn til að takast á við eril dagsins. Sólin var komin upp og veður bjart og fagurt. Vonbrigði mín voru mikil þegar ég leit á vekjaraklukkuskömmina. Hún var þrjú. 

Öðru hvoru vakna ég um miðja nótt og get ekki sofnað strax aftur. Þá finnst mér gott að fá mér kaffibolla og leika í nokkrum bréfskákum. Það er allsekki víst að þetta mundi hjálpa öðrum til að sofna aftur en þetta hefur virkað ágætlega á mig.

Undarlegheit Evrópu-umræðunnar eru mikil. Ég er þeirrar skoðunar að það mundi henta okkur Íslendingum ágætlega að ganga í ESB. Auðvitað skiptir miklu máli hver verður niðurstaðan í þeim umræðum sem nú eru að fara af stað. En miðað við það sem ég hef lært um Evrópusambandið á undanförnum áratugum er líklegt að sú niðurstaða verði okkur hagstæð. Slíkt er samt alls ekki víst og ekkert athugavert við að bíða þeirrar niðurstöðu.

Einkennilegt er hjá nýkjörnum formanni Sjálfstæðisflokksins að rjúka upp núna og berjast fyrir því að viðræðum verði hætt. Varla er hægt að álíta annað en þetta sé tilraun til að auka sundrungina í ríkisstjórninni. Samt er alls ekki líklegt að tilraunin takist eitthvað betur nú en síðast.

Andstæðingar ESB-aðildar hafa ansi hátt um þessar mundir. Þeim finnst líka eflaust að Evrópusinnar séu háværir. Ekki er rætt um málið á málefnalegan hátt heldur er eins og umræðan sé keppni í því að forðast slíkt. Þó augljóst sé að andstæðingar aðildar séu fleiri en stuðningsmenn um þessar mndir er lítið að marka það. Ekkert er komið í ljós um líklegar niðurstöður samningaviðræðna og allsekki er búið að ákveða hvenær sú þjóðaratkvæðagreiðsla verði sem skera mun úr um aðild.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir þetta Sæmundur.

Vissulega er gott að vera undir verndarvæng stóru þjóðanna. Hér á landi má búast við nánast hverju sem er varðandi náttúruhamfarir og önnur vandræði. Við gætum þurft að flýja landið einn daginn.

Hitt er annað, að Evrópuþjóðirnar eiga meira en nóg með sín vandræði og munu væntanlega krefja okkur um miklu meira til sambandsins en við munum fá. Við munum því tapa á þessu fjárhagslega.

(P.s. Þú gleymdir að númera færsluna.)

Doddi 30.6.2010 kl. 08:42

2 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Þó enginn hafi spurt um álit mitt á þessu máli verð ég að fá að lýsa því yfir að ég hef verulegar efasemdir um ágæti þess fyrir okkur að ganga í gleypusamfélag stóru Evrópuþjóðanna (GSE). Á sama hátt fyndist mér fásinna að draga okkur út úr umræðum þar um á þessum tímapunkti. Úr því sem komið er verðum við að ganga götuna á enda og vita hvað hangir á spýtunni -- þá, en ekki fyrr en við hæfi að taka upplýsta afstöðu.

Sigurður Hreiðar, 30.6.2010 kl. 11:51

3 Smámynd: K.H.S.

Ágætt ti alestrar úr fréttum.

Það hefur auðvitað legið fyrir að krónan er okkur gagnleg við að vinna okkur út úr núverandi erfiðleikum af ástæðum sem Flanagan nefnir,“ segir Helgi Hjörvar, Samfylkingunni, formaður efnahags- og skattanefndar.

„Gengi hennar aðlagast hratt breyttum aðstæðum og hefur áhrif til að draga úr innflutningi og efla og styrkja útflutningsatvinnuvegi, sem er það sem við þurfum á að halda við núverandi aðstæður,“ segir Helgi.

Haft var eftir Mark Flanagan, yfirmanni sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, í fréttum RÚV í fyrrakvöld að mun erfiðara yrði fyrir ríkisstjórnina að bregðast við fjárhagsáföllum gengi Ísland í Evrópusambandið og tæki upp evruna. Ein ástæða þess að efnahagskreppan nú hefði orðið grynnri en búist var við væri sveigjanleiki gjaldmiðilsi.

Úr Morgunblaðinu

K.H.S., 30.6.2010 kl. 18:40

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Sveinn. Reyni að redda því.

Varðandi Evrópumálin ætla ég ekki mikið að fjölyrða. Afstaðan til þeirra líkist oft trúarbrögðum. Ég er þeirrar skoðunar að fylgi við stjórnmálaflokka skipti ekki höfuðmáli hvað þetta snertir. Vissulega eru þetta afdrifarík mál. Um valdaafsal er að ræða. En hvað varðar beinan eða óbeinan hagnað hvort sem reiknað er í krónum og aurum eða ekki er endalaust hægt að deila. Málið er flókið. 

Sæmundur Bjarnason, 30.6.2010 kl. 23:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband