1055 - Evrópusambandsaðild og fleira

Margir eru þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að kenna einhverjum um bankahrunið sem hér varð á haustmánuðum árið 2008. Það er þungt fyrir fæti að ná til útrásarvíkinganna auk þess sem óvíst er að þeir séu borgunarmenn fyrir því tjóni sem þeir hafa valdið. 

Ófáir kenna ESB um ósköpin og reyna að færa rök fyrir því. Ómögulegt er samt að ná til þess bandalags og varla getur verið rétt að fara bara í fýlu og segjast ekkert vilja hafa með það að gera. Það veldur þeim samtökum svo litlu tjóni þó við göngum ekki í þau að það er ekki umtalsvert. Með tímanum getur það hinsvegar valdið okkur Íslendingum miklu tjóni að vera ekki í samfloti með þeim þjóðum sem við höfum mest samskipti við.

Það er alveg fráleitt að það geti verið eitthvert reikningsdæmi hvort við eigum að gerast aðilar eða ekki og að við eigum aðeins að gerast aðilar ef við græðum á því í beinhörðum peningum. Sannfæring um aðild verður að byggjast á því að það sé rétt til framtíðar. Hvernig trúum við að framtíðin verði? Ef við trúum því raunverulega að Íslendingar verði neyddir í herþjónustu á vegum ESB og landbúnaður leggist hér af við aðild og allar hrakspár andstæðinga aðildar rætist þá er ekki um annað að gera en að ganga ekki í samtökin.

Ef við trúum því hinsvegar að mál séu að þokast til betri vegar í heiminum og stjórnendur ESB séu ekki verra fólk en almennt gerist ætti fólk að íhuga gaumgæfilega hvernig líklegt sé að þróunin verði í heiminum næstu áratugina.

Máni Atlason tekur skínandi góðar ljósmyndir og birtir eina á dag á vef sínum lason.is. Hvet alla til að kíkja þangað.

Frumvarp sem samþykkt var nýlega á Alþingi segir að stjórnlagaþing verði haldið í haust. Vonum bara og gerum ráð fyrir að það verði til einhvers gagns. Það þing verður þó aðeins ráðgefandi. Meðal annars vegna þess að í núverandi stjórnarskrá segir að henni verði aðeins breytt með samþykkt tvívegis á Alþingi með almennum kosningum á milli.

Ef samin verður ný stjórnarskrá er rétt að gera það á þann hátt sem sú gamla segir að það skuli gert. Ef sú stjórnarskrá sem væntanleg er verður samþykkt af Alþingi og síðan aftur eftir næstu kosningar fáum við nýja stjórnarskrá. Vitanlega samþykkir Alþingi ekki hvað sem er og vonandi fyrtast þingmenn ekki um of þó völd þeirra verði hugsanlega skert.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Ef íslendingar hafa aðild að ESB eftir tvö til þrjú ár. Þá mun ég persónulega líta svo á að íslendingar hafi afsalað sér réttinum til þess að kvarta yfir ástandinu hérna á Íslandi. Þar sem aðild Íslands að ESB yrði stærsta og hagstæðasta breytingin fyrir almenning á Íslandi síðan árið 1994, þegar Ísland gekk í EES (EFTA).

Jón Frímann Jónsson, 20.6.2010 kl. 14:25

2 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Afsakið, þarna á að standa "hafna".

Jón Frímann Jónsson, 20.6.2010 kl. 14:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband