1042 - HM í knattspyrnu

Heimsmeistarakeppnin í fótbolta sem nú er að hefjast í Suður-Afríku er eins og Ólympíuleikarnir drifin áfram af peningum. Peningar, peningar, peningar. Peningar eru það sem máli skiptir og fátt annað.

Alþjóðaknattspyrnusambandið útdeilir peningum í samræmi við árangur liðanna. Knattspyrnusambönd þjóðanna útdeila síðan því fé (og jafnvel meiru til - hvað veit ég?) til leikmannanna sjálfra. Sagt er að Bandaríkjamenn og Spánverjar bjóði sínum knattspyrnumönnum mest fé fyrir góðan árangur í mótinu. ( Og jafnvel lélegan líka, enda er það heilmikið átak að komast í úrslitakeppnina) Kappkostað er þó að hafa þetta allt svo flókið að erfitt sé að skilja það.

Alþjóðaknattspyrnusambandið veður í peningum enda er knattspyrnan vinsæl íþrótt um allan heim og sjónvarpsstöðvarnar látnar greiða háar fjárhæðir fyrir að fá að sýna frá mótinu enda standa þær og falla með því hvernig til tekst við útsendingarnar.

Svolitlum hluta (eða afgangnum ef vitlaust er reiknað) af þeim auði sem þannig safnast er deilt út til hinna ýmsu knattspyrnusambanda heimsins. KSÍ er oft í vandræðum með að koma sínum peningum í lóg því þeir geta ekki byggt reiðhallir í hverri sveit eins og Guðni. Gefa jafnvel sínum peningagrísum leyfi til að verða sér úti um annars konar reið á kostnað KSÍ. Ókey, þessi var fyrir neðan beltisstað.

Við Íslendingar erum dálítið hrekkjaðir á því að láta peninga ráða of miklu. Íþróttir á heimsmælikvarða eru alltof háðar peningum og magn peninga ræður beinlínis vinsældum íþrótta. Í Golfinu er (eða var a.m.k.) mönnum einfaldlega raðað á styrkleikalista eftir því hve miklu verðlaunafé þeir geta sankað að sér. Aðrar greinar nota úthugsaðri aðferðir. Það hve íþróttagreinum tekst að ná í mikla peninga er aðallega undir sjónvarpsstöðvunum komið.

Þeir sem stjórna heimsmeistarakeppninni sem nú fer í hönd gera mikið úr áhuga Afríkumanna á knattspyrnu og keppninni sem slíkri. Forsala aðgöngumiða var lengi vel einungis á Netinu og allt er dýrt sem að keppninni snýr. Gisting á hótelum er dýr, minjagripir um keppnina dýrir og í raun er fjöldi áhorfenda bara ein breytan í exelskjali og einnig verð aðgöngumiða. Verðlagningin er eins og hjá flugfélagi eða símafyrirtæki. Viss upphæð þarf að nást og möndla skal með breytur þar til henni er náð. Verði íþróttavellirnir ekki mátulega fullir er það merki um mistök af hendi keppnishaldara.

Kaupskapur hvers konar og auglýsingastarfsemi er mikil í kringum mótið. Alþjóðasambandið selur stórfyrirtækjum einkaleyfi til alls slíks og minniháttar aðilar geta með engu móti komist þar að.

Í forsölunni á Internetinu seldust ekki margir miðar til íbúa Afríku enda hefur þeim lengi verið haldið í fátæk. Einkum af nýlenduveldum Evrópu. Svo fátækum hefur þeim verið haldið að þeir hafa ekki efni á að borga hátt verð fyrir aðgöngumiða og hafa yfirleitt ekki Internetaðgang.

Knattspyrnuleikvangarnir eru áberandi og fallegir. Þeir taka líka mikið pláss. Þar voru stundum fátækrahverfi fyrir en yfirvöld losuðu sig við þau og komu íbúunum fyrir annars staðar.

Svo meiðast knattspyrnumenn í hrönnum útaf fyrirganginum við undirbúninginn og missa jafnvel af fúlgum fjár.

Þetta sem hér hefur verið sagt er allt sem neikvæðast en fótboltinn sjálfur er samt skemmtilegur og það er jafnvel kvenfólk farið að finna. Því var reyndar lengi vel haldið utan við svona lagað og er að miklu leyti enn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Theódór Norðkvist

Sammála þér að peningahyggjan hefur eyðilagt knattspyrnuna (og látið þig skrifa allt of langa færslu.)

Vertu ekkert að afsaka skotið á kynlífsfíklana hjá KSÍ. Það er verulega fúlt að sjá á eftir skattfé í svona vafasamar fótmenntir og framkvæmdastjórinn keypti sér aðgang að í boði okkar.

Þegar alþjóðleg umhverfisráðstefna var haldin fyrir nokkrum árum í Rio, Brasilíu fólst umhverfisátak borgarinnar í að hirða róna og útigangsfólk upp af götunum og læsa það inni í fangaklefa. Ætli það verði ekki svipað upp á teningnum í Jóhannesarborg og nágrenni, svo fína og ríka fólkinu svelgist ekki á bjórnum eða fínni veigum.

Á ekki að kíkja á einhverja leiki?

Theódór Norðkvist, 7.6.2010 kl. 01:17

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk, Theódór. Já. það er satt að þessi færsla er í lengra lagi en ekki sem verst samt, finnst mér.

Horfa á leiki? Í sjónvarpinu? Jú, eflaust geri ég það. Tel mér kannski trú um að ég sé eitthvað betri en aðrir og ég sé hvort eð er búinn að borga fyrir þetta og fótboltinn ER skemmtilegur.

Sæmundur Bjarnason, 7.6.2010 kl. 06:59

3 identicon

Peningar tala. Þeir sem ég hef hitt kunna samt bara að segja bless.

Annars held ég með Englandi.

Grefillinn Sjálfur - Koma svo! 7.6.2010 kl. 08:35

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Haha. Ætli þeir segi ekki "bless" þegar þeir fara og "hæ" þegar þeir koma eins og fleiri. Hjá mér er það fyrrnefnda algengara.

Af einhverjum ástæðum held ég ekki með Englandi, frekar með þeim sem leika á móti þeim. Veit ekki af hverju.

Sæmundur Bjarnason, 7.6.2010 kl. 10:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband