1039 - Blogg vs. fésbók einu sinni enn

Auðvitað tek ég misjafnlega mikið mark á bloggurum. Fjölmiðlum líka. Gallinn við fjölmiðlana er sá að þar eru svo margir sem láta ljós sitt skína að maður veit ekki nærri alltaf við hvern er að eiga. Þar að auki á það bæði við um bloggara og aðra fjölmiðla að misjafnlega mikið mark er á þeim takandi eftir því um hvað þeir fjalla.

Bloggarinn Marínó G. Njálsson fer oftast vel með tölur. Hann heldur því fram að allir aðilar fjórflokksins hafi tapað umtalsverðu fylgi í síðustu kosningum. Þar er ég honum sammála.

Bloggið mitt var ekki á Blogg-gáttinni áðan en er komið þangað núna. Internetið hagaði sér líka eitthvað undarlega í morgun en er orðið betra. Eitthvað bilaði víst hjá Snerpu á Ísafirði segir Mogginn og ekki lýgur hann.

Fésbókarskrif eru mestan part stjórnlaust skvaldur. Við nánari athugun kemur oft í ljós að betra hefði verið að orða hlutina öðruvísi. Eða jafnvel að hafa aðra skoðun.

Vetfang og vettvangur er ekki það sama. Mér fannst þulur í útvarpinu leggja mikla áherslu á framburðinn í dag þegar hann sagði að atvinnulausum á einhverjum stað hefði fjölgað svo og svo mikið í einu(m) vettvangi. Þarna hefði hann átt að tala um vetfang.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórður Guðmundsson

Sæll. Það er ekki sama hvernig farið er með hlutina. Best finnst mér sjálfum þar sem ég er bloggari að geta fært almennileg rök fyrir máli mínu ella sleppa því að fjalla um þá. Oft er það með fólk að það er að segja alls konar hluti á neti án þess að vera viss um þá. Þar með getur maður ekki tekið mark á því sem það er að segja, af því að það er eins og verið sé að slengja hlutunum fram.

Þú talar um skvaldur á fésbókinni. Mikil ósköp, svona eins og gengur og gerist í mannlífinu. Mín skoðun er sú að vera ekki með neitt neikvætt þar, útrás fyrir reiði eða erfiðar tilfinningar (alveg eins og í blogginu). Þannig er það nú bara það kemur inn fólk á netið og það er með útrás fyrir tilfinningar sínar. Sem mér finnst að fólk ætti að gæta sín á.

Takk fyrir ágætan pistil.

Þórður Guðmundsson, 4.6.2010 kl. 09:37

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Þórður. Þú talar um jákvæðni og neikvæðni og gerir svolítinn greinarmun á bloggi og fésbók skv. því. Mér finnst munurinn frekar liggja í lengdinni. Þó ég tali um skvaldur á Facebook þá er það ekkert illa meint. Þar finnst mér bara ekki henta að vera með langar greinar. Eiginlega ekki á blogginu heldur. Reyni að hafa það sem ég skrifa þar sem allra styst. Ef mér tekst að stytta mál mitt ennþá meira þá á það kannski erindi á fésbókina. Nöldur og aðfinnslur finnst mér alveg eins eiga heima þar. Einhvers staðar verða vondir að vera.

Sæmundur Bjarnason, 4.6.2010 kl. 11:44

3 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

æ þetta norðlenskublæti Ríkisútvarpsins er bara rugl. norðlenskan er ekkert skárri en aðrar mállýskur. hljómar einmitt stundum röng, eins og dæmið þitt.

man eftir því fyrir mörgum árum þegar fréttir voru sagðar af myntbandalagi Evrópubandalagsins. þá töluðu norðlensku þulirnir myndbandalag.

Brjánn Guðjónsson, 4.6.2010 kl. 16:17

4 Smámynd: Óskar Þorkelsson

"réttasta" mállýskan hlýtur aðverasú sem meirihlutinn talar ekki satt.. sem sagt reykvíska ;)

Óskar Þorkelsson, 4.6.2010 kl. 17:04

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Varðandi mállýskur er margs að gæta. Mér finnst skipta mestu að sem flestir skilji það sem sagt er. Hvað stafsetningu snertir eru venjur úr skóla fyrirferðarmestar og sú sem flestir nota "réttust". Opinberum aðilum kemur ekkert við hvernig fólk talar eða skrifar en getur reynt að hafa áhrif á það. Nú tala allir um himstrakeppni eins og gert var fyrir fjórum árum. Það er samt ekkert réttara en heimsmeistarakeppni.

Sæmundur Bjarnason, 4.6.2010 kl. 19:49

6 identicon

Já varðandi málýskur er margs að gæta. Í bekknum mínum í Noregi voru talaðar 18 málýskur og þær margar gjör ólíkar.  Erfit að læra hinn eina og rétta framburð.  Strákar allt frá Stavanger, til Hammerfest.  Ég kem ekki nálægt fésbókinni.

Ólafur Sveinsson 4.6.2010 kl. 23:00

7 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Á Íslandi er svosem ekkert um mállýskur. Norðurlandsframburðurinn er að miklu leyti ímyndaður og alls ekki illskilljanlegur. Sama er að segja um sunnlenskuna.

Facebook er ekkert slæm svona til að kíkja á. Svo er alltaf hægt að fara að skrifa eða gera meira þar ef manni sýnist. Samræmd stafsetning er ágæt. Þá skilja mann fleiri.

Sæmundur Bjarnason, 5.6.2010 kl. 06:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband