1033 - Fésbók og kosningar

Allmargir virðast bæði blogga og skrifa á fésbók. Oftast það sama. Það finnst mér ósniðugt. Þannig er verið að mæla með því að fólk láti sér annaðhvort nægja. Mér finnst að fólk eigi að leggja það á sig að lesa blogg. Jafnvel kommenta á þau líka. Þau eru oft langbesti fréttamiðillinn og hafa þann ótvíræða kost að vera ókeypis og flestum aðgengileg. Fésbókin virðist aftur á móti henta best fyrir lítilsvert skvaldur. Góð sem slík og eykur vissulega samskipti fólks. Þannig hugsa ég en kannski er það gjörólíkt því sem aðrir gera. 

Sumir leikirnir á fésbókinni kunna vel að vera áhugaverðir. Til dæmis hentar skákin þar mér ekkert illa. Ég er þegar farinn að tefla nokkrar bréfskákir þar og allmargir sem áhuga og skemmtun hafa af skák eru þar greinilega. Rétt virðist vera og sjálfsagt fyrir sem flesta að vera þar. Þeir sem leita að gömlum vinum eða kunningjum geta þá fundið mann þar kæri þeir sig um. Svo eru líka langflestir sem maður þekkir á fésbókinni og hálfasnalegt að vera ekki skráður þar. Skelfing er mér fésbókin annars hugleikin þó ég skrifi ekki mikið þar.

Margir stjórnmálafræðingar og spekúlantar allskonar setja gjarnan samasemmerki á milli þess að auglýsa mikið og atkvæðafjölda í kosningum. Í einhverjum tilfellum getur þarna verið um samsvörun að ræða en mér finnst augljóst að með þessu sé verið að gera lítið úr kjósendum. Ef þeir láta auglýsingalygar ráða atkvæði sínu eru þeir heimskari en eðlilegt er. Er mögulegt að með þessu sé verið að gera heimskunni sem hæst undir höfði til að skapa nógu hlýðin vinnudýr?

Kosningarnar um næstu helgi kunna að boða mikil tíðindi. Hugsanlega er það fyrst nú að koma í ljós og renna upp fyrir almenningi að stjórnmálaflokkarnir eru bölvuð hrákasmíð og þurfa mikillar lagfæringar við allir sem einn. Í mínum huga er sú spurning áleitnust hvort affarasælla sé að stofna nýja eða reyna að lappa uppá þá gömlu. Starfsemi Borgarahreyfingarinnar bendir ekki til þess að nýjir flokkar séu lausnin.

Að sjálfsögðu hjólar Jóhanna í Gulla og kannski fleiri. Sumir hafa með öllu eyðilagt sinn stjórnmálaferil með peningum. Þeim var nær. Hefðu átt að passa sig betur. Annars vil ég helst losna við alla sem voru í áhrifastöðum fyrir hrun. Ekki er samt hægt að ætlast til að allir fari í einu og einhverja verður að nota svolítið lengur en svo mega þeir fara.

Á sínum tíma starfaði ég svolítið í forystu verkalýðsfélaga og finnst þeim einnig hafa hrakað mjög. Að sumu leyti er það vegna þeirrar öfgafrjálshyggju sem hér hefur tröllriðið flestu.

Var að gramsa í gömlum myndum og hér eru nokkrar sem allar eru teknar uppá Reykjum árin 1957 og 1958.

braggiHér eru bragginn sem notaður var sem vélageymsla og fjósið.

einarSvona var tæknin í þá daga. Maðurinn sem er að teyma hestinn heitir Einar og kenndi um tíma á Garðyrkjuskólanum.

hordurHörður Vignir Sigurðsson.

ingibjIngibjörg Bjarnadóttir.

smalliÖrn Jóhannsson og Reynir Helgason „aka" Smalli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gaman að þessum gömlu myndum. Blessaður haltu áfram, það kemur að því að maður þekki einhvern. Slíkt er alltaf gaman.

Þú segir "upp á Reykjum" ... hvaða Reykjum? Ekki Reykjum í Hrútafirði?

Með fésbók vs blogg = Best að blogga, dreifa blogginu á fésbók og nota hana til að fá sem flesta inn á bloggið.

Grefillinn Sjálfur - Koma svo! 29.5.2010 kl. 14:23

2 identicon

...þ.e.a.s. ekki dreifa blogginu sjálfu á fésbók, heldur tengli á það.

Grefillinn Sjálfur - Koma svo! 29.5.2010 kl. 14:23

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Nei uppá Reykjum á við Reyki í Ölfusi. Þetta skilja allir Hvergerðingar. En nú ætla ég að kíkja á sjónvarpið.

Sæmundur Bjarnason, 30.5.2010 kl. 01:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband