1020 - Lífið heldur áfram

Einn af þeim mönnum sem bloggað hafa af hvað mestri skynsemi um hrunmál er Marínó G. Njálsson. Þetta er það sem hann segir um neyðarlögin svonefndu. Gæti varla verið meira sammála honum.

„Þessi staða er afleit, þegar haft er í huga að 2% ofurríkra Íslendinga fékk fleiri hundruð milljarða af innlánum varða  á byrgð okkar skattgreiðenda viðgildistöku neyðarlaganna 6. október 2008.  Ef menn hefðu tekið vexti og verðbætur af þessum innistæðum, þá hefði það dugað til að greiða kostnað ÍLS og ríkissjóður hefði átt góðan afgang.  Staðreyndin er, skv. skýrslu RNA, að örfáir einstaklingar og fyrirtæki fengu viðbótartrygging fyrir á annað þúsund milljarða með setningu neyðarlaganna.  Við, skattborgarar þessa lands, erum að greiða um 290 milljarða vegna þessa í framlagi til Landsbankans.  Það er ekkert mál, en að hjálpa heimilum landsins er ekki hægt."

Lára Hanna skrifar ágætan pistil um forfeður sína. Þar lýsir hún vel lífi formæðra sinna og þeirri hörku sem einkenndi líf fólks á fyrri tíð. Fyrir mér byrjar nútíminn árið 1872 en þá fæddist móðuramma mín. Bjó í mikilli fátækt í Þykkvabænum en afkomendur hennar hafa samt komist ágætlega af. Hún missti unnusta sinn í slysi þegar hún var rúmlega tvítug, giftist seinna mun eldri manni ofan úr Landssveit og eignaðist mörg börn.

Ég hef ekki jafn mikinn áhuga á ættfræði og Lára Hanna en skil samt vel þýðingu sögunnar og þess að í raun erum við ekkert annað en landið og sagan. Það eina líf sem forfeður okkar eiga í dag erum við. Þó þeir ættu það skilið get ég ómögulega trúað því að þau lifi í vellystingum pragtuglega í Himnaríki, borði gull og skemmti sér til dauðs. Í peningahyggju eftirstríðsáranna týndi ég með öllu þeirri trúarvissu og sátt við almættið sem einkenndi líf fólks hér á landi áður fyrr.

Mér lætur afar illa að skrifa um uppvöxt minn og lífssýn eins og mörgum fleirum. Heldur vil ég bollaleggja um framtíðina og bera hana saman við þau sannindi sem gamli tíminn hefur leitt í ljós. Hið peningalega hrun sem hér varð fyrir fáum misserum er vissulega alltumlykjandi og kallar fram reiði og sárindi. Þrátt fyrir allt höfum við það samt gott og þó einhverjum verði ekki refsað á þann hann sem flest okkar vildu er ekki annað að sjá en nú sé sjálft uppgjörið að hefjast.

Aum er sú tilvera sem ekki sér annað en eymd og volæði í lífinu. Ástæðulaust er samt að loka augunum fyrir öllum þeim miska sem okkur hefur verið gerður. Stjórnmál munu halda áfram að skipta fólki í hópa og þeir sem áherslu leggja á að auka frelsi manna og draga úr afskiptum ríkisins eru ekkert verra fólk en aðrir. Saga þeirra ríku á Íslandi er saga þeirra sem ekki kunnu með fé að fara. Að nota auðæfin eingöngu fyrir sjálfa sig og sína nánustu bar einfaldlega dauðann í sér.

Og nokkrar myndir í lokin:

IMG 1853Mosavaxinn mótor.

IMG 1855Drykkjarvatn í slöngu.

IMG 1861Haglega gerður bekkur.

IMG 1863Er þetta ást í meinum, eða hvað?

IMG 1869Ekki er rótt að eiga nótt undir Gróttutöngum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hreiðar

„Aum er sú tilvera sem ekki sér annað en eymd og volæði í lífinu.“

Þessa lilju hefði ég viljað kveðið hafa, Sæmundur. Haltu áfram að sveifla svona gullkornum.

Sigurður Hreiðar, 14.5.2010 kl. 22:30

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk, Sigurður

Sæmundur Bjarnason, 14.5.2010 kl. 23:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband