1016 - VGA-planets

Fyrir mörgum árum spilaði ég stundum tölvuleikinn VGA-planets. Þetta er á margan hátt dæmigerður strategískur PBEM-leikur (played by E-mail) og mjög góður og spennandi. Helsti gallinn við hann var sá að það vildi fara of mikill tími í hann ef maður vandaði sig. Sú gerð sem ég er að tala um heitir VGA-planets 3 en í honum eru 11 leikmenn sem stýra ýmsum kynflokkum sem eiga í geimstríði. Jú, ég man að það var annar galli á leiknum. Það var bara hægt að smíða samtals 500 geimskip og hann hafði engan ákveðinn endapunkt.

VGA-planets 4 er líka til og hugsaður sem endurbót á hinum en er í raun allt annar leikur. Ástæða þess að ég er að minnast á þetta hér er sú að mig hefur alltaf langað til að spila þennan leik aftur. Auðvitað gæti ég einfaldlega farið á Netið og skráð mig til þáttöku í þessum leik. Dettur samt í hug að einhverjir sem þetta lesa séu sama sinnis og ég. Ef svo er væri vel hægt að koma því í kring að leikurinn yrði spilaður hér og að þátttakendur væru flestir eða allir Íslendingar. Einhver þarf að „hósta" leikinn eins og kallað er og sjá um rekstur hans. Á sínum tíma var leikurinn keyrður á DOS en það er áreiðanlega líka til Windows-útgáfa.

Eitt er það mál sem vel gæti fundist lausn á nú í kreppunni. Það er kvótamálið. Það er löngu vitað að mikill meirihluti landsmanna vill sjá verulegar breytingar á því en þeir sem með völdin fara hafa hingað til ekki þorað að gera neitt. LÍÚ gæti verið að missa það kverkatak sem það hefur haft á íslenskum stjórnmálamönnum. Kannski hafa þeir minni mútupeninga nú, ég veit það bara ekki.

Stjórnmál eru fremur leiðinlegt umræðuefni einkum vegna þess að umræðan fer sjaldan uppúr hjólfari talnaleikfimi og útúrsnúninga. Ef menn mundu öðru hvoru ræða um hugsjónir og annað sem nánast var bannað að ræða um á útrásartímanum þá mundi margt vera öðru vísi. Stjórnmálamenn tala að vísu stundum um þvíumlíkt en gallinn er sá að enginn trúir þeim.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

svona leikir eru til í hundraðatali.. og allir online ef út í það er farið.  E mail leikir eru fyrir löngu dauðir á netinu svo ég viti.  Er ekki bara málið hjá þér að skrá þig í EVE online :)

Óskar Þorkelsson, 10.5.2010 kl. 14:53

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Óskar. Turn-based leikir með takmörkuðum fjölda þátttakenda eru ekki það sama og opnir fjölnotendaleikir. Mjög ólíkir reyndar.

Sæmundur Bjarnason, 10.5.2010 kl. 15:25

3 Smámynd: Óskar Þorkelsson

turnbased leikir eru enn við lýði og eru margir ágætir.  "total war" leikirnir til dæmis, þeir eru ágætir líka í solo.

Óskar Þorkelsson, 10.5.2010 kl. 15:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband