1008 - Hundrað í höggi

Einu sinni var bóndasonur. Hann reyndi oft að drepa hundrað flugur í einu höggi með fjósaskóflunni þegar flugurnar settust í mesta sakleysi á fjóshauginn til að fá sér pínulítið nammi. Loksins tókst honum það. Þá lét hann prenta á bolinn sinn „hundrað í höggi." og hélt svo út í heim. 

Sumir misskildu áletrunina á bolnum. Héldu að bóndasonurinn væri svo svakalega sterkur að hann gæti glímt við hundrað manns í einu. Það var einmitt það sem bóndasonurinn vildi. Hann taldi sér trú um að með því gengi honum betur að koma sjálfum sér á framfæri. Það var misskilningur hjá honum. Þeir sem hefðu getað hjálpað honum til að komast áfram forðuðust hann.

Þetta er víst dæmisaga. Með henni á fólk að skilja að ekki eigi að villa á sér heimildir. Þannig skil ég hana að minnsta kosti. Kannski er boðskapurinn annar. Ég er þá bara ekki nógu skarpur til að skilja hann.

Kannski þraukar Bjarni Benediksson með vafningum og vífilengjum sem þingmaður og formaður Sjálfstæðisflokksins í einhverjar vikur ennþá en Guðlaugur Þór Þórðarson hlýtur að vera á útleið. Kannski fylgir Steinunn Valdís Óskarsdóttir honum í útlegðina. Æstustu andstæðingum hrunverja mun þó ekki finnast það nóg. Fleiri verða til kallaðir.

Kannski lýkur látunum aldrei. Ég hugga mig jafnan við það að ástandið núna líkist um sumt ástandinu um aldamótin fyrir rúmum hundrað árum. Þá deildu menn ansi harkalega um „uppkastið" svonefnda. Ég er enginn sagnfræðingur og þekki þetta „uppkastsmál" engan vegin út í hörgul. Held þó að flestir hafi orðið sæmilega sáttir að lokum.

Keflavíkurmálinu lyktaði öðruvísi. Vandamálið sjálft hvarf eða fór úr landi réttara sagt. Þannig er líka hægt að ljúka málum. Ef mátulega margir á réttum aldri væru spurðir um það mál núna hugsa ég að skoðanir séu talsvert skiptar ennþá.

Get ekki að því gert að ég er alltaf í huganum að bera saman fésbók og blogg. Á fésbók láta menn flest flakka. Ef það sem látið er frá sér fara er heimskulegra en góðu hófi gegnir drukknar það bara í skvaldrinu. Á bloggi eru flestir hinsvegar alltaf að rembast við að vera gáfulegir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valmundur Valmundsson

Sæll Sæmundur.

Les þig reglulega (þ.e. bloggið). Finnst þú gáfulegri en margir aðrir og dæmisagan er góð og vefur vonandi uppá sig eða þannig.

Kveðja frá Eyjum

Valmundur Valmundsson, 2.5.2010 kl. 10:20

2 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Átakastjórnmálin er afleiðing af lýðræðishallanum. Búum til farveg til að setja allar stærstu ákvarðanir þjóðarinnar í þjóðaratkvæði. Tökum sem dæmi Icesave, þjóðin kaus og felldi lögin og umræðan datt niður. Sama átti auðvitað að gera varðandi þá ákvörðun að sækja um aðild að ESB. Ef þjóðin hefði samþykkt það í beinni þjóðaratkvæðagreiðslu þá væru ekki þessi átök og tortryggni um aðildarviðræðurnar

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 2.5.2010 kl. 11:50

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk. Les alltaf færri og færri blogg en álít samt að þau séu merkilegasti fjölmiðillinn og ef rétt er valið mun merkilegri líka en það sem Alþingismenn og stjórnmálamenn yfirleitt hafa að segja.

Sæmundur Bjarnason, 2.5.2010 kl. 12:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband