1005 - Facebook vs. blogg

Vel er hægt að vera á báðum. Varla þó mjög afkastamikill beggja megin. Fésbókin á betur við suma en bloggið aðra. Nauðsynlegt er líklega að fylgjast með hvoru tveggja. Mér finnst betra að blogga en fésbókast. Að minnsta kosti ennþá. Held að allmargir fésbókarvinir mínir lesi bloggið mitt reglulega þó ég viti auðvitað lítið um það.

Lík 42 þúsund Dana eru brennd árlega. Á mbl.is er frétt um að óvirðulega sé farið með ösku þeirra Dana sem brenndir eru í Líkbrennslunni í Glostrup. Þetta leiðir hugann að líkbrennslu hér á landi. Ein slík minnir mig að sé í Fossvoginum. Ætli þar séu ekki bara brenndir þeir sem látið hafa í ljós ósk um það í lifanda lífi og gott ef lyktin þaðan fór ekki eitthvað illa í starfsfólkið við leikskóla í grenndinni. Það er ósiður að láta svona mikið og gott byggingarland fara undir kirkjugarða eins og gert er. Þessvegna ættu sem flestir að láta brenna sig eftir að jarðvist lýkur. Kannski dregur það úr mönnum ef óvirðulega er farið með öskuna. Mönnum ætti þó að vera alveg sama.

Með vaxandi bloggi er ég farinn að trúa því sjálfur að ég eigi auðveldara en  margir aðrir með að lýsa hlutum (og tilfinningum) í orðum. Illskiljanlegt hvað fólki finnst flókið við það. Ég er líka sæmilegur við að taka myndir af dauðum hlutum sem á vegi mínum verða (og jafnvel lifandi) og smíða læsilega skýringartexta  við þær. Er þetta það eina sem ég get? Ekki finnst mér það. Mér finnst ég geta næstum allt. Erfitt að vísu að gera sumt núorðið. Ágætt að þykjast eiga erfitt með það sem manni leiðist að gera. Það gat ég ekki þegar ég var uppá mitt besta. Mikið er rætt um laxveiðiferðir þessa dagana. Í því sambandi vil ég taka fram að mér hefur aldrei verið boðið í slíka ferð.

Varðandi stjórnlagaþing sem ég minntist á í gær vil ég bara segja að það er auðvelt að tala um slíkt og sumir stjórnmálamenn eru ágætir í því. Engin leið er samt að trúa peningasjálfsölunum sem nú um stundir þykjast vera þingmenn til að stuðla að því að slíkt þing verði haldið.

Og fimm myndir eins og oft áður.

IMG 1616Og ég sem hélt að ljósleiðarar væru ekki svona hlykkjóttir.

IMG 1699Jólasveinninn er ekki ennþá kominn uppá þak þó hann sé búinn að vera að hengslast í stiganum síðan fyrir jól.

IMG 1764Jú, sumarið er á leiðinni.

IMG 1732Þessi var sallaróleg í sinunni upp við Rauðavatn í dag.

IMG 1711Flottur mósaíkveggur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Blogg er hetugt til að koma á framfæri skoðunum og ýmsu öðru í alvöru. En feisbúkk finnst mér fyrst og fremst vera leikur.

Sigurður Þór Guðjónsson, 29.4.2010 kl. 01:03

2 identicon

Fínt að blogga og deila blogginu svo á feisbúkk ... tvær flugur í einu höggi, stundum fleiri ef einhver deilir blogginu áfram.

Grefillinn Sjálfur - Koma svo! 29.4.2010 kl. 01:06

3 identicon

Fólk sem kann vel að nýta sér Feisbúk getur haft töluverð áhrif með henni, held ég, enda þótt ég sé svipaðrar skoðunar og Sigurður Þór um að hún sé leikur. En þeir geta líka verið áhrifamiklir. Held að Feisbúk geti haft talsverð áhrif á stundarskoðanir fólks og bíð þess að sjá hvernig henni verði beitt næst þegar kemur að Alþingiskosningum.

Átti heima í DK á árunum. Starfsemi líkbrennslu héraðsins komst eitt sinn í fjölmiðla þegar uppvíst varð að hún styrkti rekstrargrundvöll sinn með því að selja hitann frá ofni sínum til almenninghitasveitunnar. Supu sumir hregg og hveljur við tilhugsunina um „ylinn af ömmu“. En öðrum var slétt sama og þótti þetta ráðslag bara fornúftigt. Ég var í þeim hópi.

K.S. 29.4.2010 kl. 07:49

4 identicon

Heyrðu, K.S., þú ættir að kommentera meira eða skrifa þitt eigið blogg. Vantar alltaf meira af velskrifandi og skemmtilega þenkjandi fólki til að vega upp á móti öllu bullinu.

Grefillinn Sjálfur - Koma svo! 29.4.2010 kl. 14:00

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Sigurður, þetta með alvöruna og alvöruleysið er áhugavert.

Grefill, hundrað í höggi var einu sinni sagt, en það voru nú flugur á haug og ekki alveg að marka.

K.S. Sammála Grefli um að þú ættir að blogga.

Sæmundur Bjarnason, 29.4.2010 kl. 16:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband