959 - Orðræða

Bloggorðræðan er ákaflega óvægin og grimmdarleg. Varla finnast í málinu nógu stór og ljót orð til að nota þar. Ekki nóg með að orðin séu ljót, hugsunin er ljót líka. Svotil allir eru réttdræpir fábjánar. Undantekningar eru frá þessu en þær eru ekki margar. Þessi bloggorðræða tengist vissulega hruninu og hefur versnað stórlega eftir það. Hún er farin að smitast á dagblöðin. Einkum DV og Morgunblaðið. Veit ekki með Fréttablaðið því ég sé það svo sjaldan. Sjónvarps og útvarpsfréttir eru sæmilega vitrænar ennþá en eru smám saman að versna.

Allt stefnir í Landsdóm. Þá fá nú einhverjir tækifæri til að brillera. Er það Alþingi sem hefur farið svona með orðræðuna? Kannski. Hún hefur versnað eftir að farið var að sjónvarpa beint þaðan.

„Farðu í rass og rófu. Ríddu grárri tófu," var áður fyrr oft sagt við þá sem uppáþrengjandi voru og fyrir. Ekki veit ég hvað þetta átti að fyrirstilla og ekki veit ég hvers konar reið þetta átti að vera. Líklega hestareið, þorði aldrei að reikna með öðru.

Mér finnst margt benda til þess að ríkisstjórnin, Alþingismenn, útrásarvíkingar og aðrir sem við kjötkatlana sitja séu orðnir viðskila við þjóð sína. Segja má að það hafi komið í ljós í nýafstaðinni þjóðaratkvæðagreiðslu. Kannski verður það enn ljósara eftir sveitarstjórnarkosningarnar í vor eða í síðasta lagi eftir næstu Alþingiskosningar.

Sagt er að bara bloggarar lesi blogg. Sumir eru kannski óvirkir en gætu hvenær sem er farið til þess arna. Suma bloggara les ég aldrei, mér til mikillar ánægju og þeim til skaða ímynda ég mér. Ég er löngu hættur að lesa dagblöð því mér finnst svo gaman að lesa blogg (eða lesa þau ekki) Miklu skemmtilegra er þó að skrifa blogg og ímynda sér að maður sé rosagáfaður. Vona bara að einhverntíma verði hætt að álíta bloggið svona asnalegt.

Undirfyrirsögn í Mogganum í dag laugardag: „Höfundar myndarinnar hittu mann sem stundar veiðar með Osama bin Laden." Lengra er ekki hægt að komast í því sem kaninn kallar „name dropping".


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Man orð Steingríms á Alþingi ;Étta´nn sjálfur,, man ekki einu sinni við hvern eða afhverju hann sagði það.

Helga Kristjánsdóttir, 14.3.2010 kl. 00:57

2 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Þegar ég byrjaði að blogga, fyrir þremur árum, var orðbragðið hérna alveg ágætt.  Aðeins versnaði það svo eftir kreppu en þegar Davíð tók við ritstjórn fór allt úr böndunum.  Sum blogg eru svo ljót að þau ættu að vera bönnuð börnum og viðkvæmu fólki.   

Anna Einarsdóttir, 14.3.2010 kl. 01:06

3 Smámynd: Kama Sutra

Var það ekki sjálfur Forsetakóngurinn okkar, sá sem er núna skyndilega kominn í guðatölu hjá þjóðinni, sem átti fleygu orðin um "skítlega eðlið" á Alþingi Íslendinga fyrir einhverjum áratugum?

Sá hinn sami og er núna önnum kafinn við að kenna heimsbyggðinni allt um lýðræðisleg og siðuð vinnubrögð.

Eða man ég þetta ekki rétt?

Kama Sutra, 14.3.2010 kl. 01:34

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ólafur talaði um skítlegt eðli, Davíð um afturhaldskommatitti o.s.frv. Held samt að þessi gengisfelling orðanna sé engum einum að kenna. Mjög margir eiga hér hlut að máli.

Sæmundur Bjarnason, 14.3.2010 kl. 01:47

5 identicon

Til gamans:
ttp://www.haaretz.com/hasen/pages/ShArt.jhtml?itemNo=378213

Þarna er ÓRG tiltlaður konungur og heldur hirð, í Ísralesku blaði.

Ólafur Sveinsson 14.3.2010 kl. 02:06

6 Smámynd: Kama Sutra

Skemmtilegur titill á greininni sem Ólafur vísar á.   Ísraelarnir virðast vera í orðaleik með titilinn á plötunni In the Court of the Crimson King með hljómsveitinni King Crimson.

http://en.wikipedia.org/wiki/In_the_Court_of_the_Crimson_King

Kama Sutra, 14.3.2010 kl. 02:31

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

In the referendum I gave her my vote,
because she is cuter than any goat,
when she is free,
she comes to me,
married the nation but loves me, she wrote.

Þorsteinn Briem, 14.3.2010 kl. 09:25

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

Páfagaukar, penir afar þar,
prúðuleikarar, emmerringar,
kynslóðinni Eva X í,
sem einhver doktor var með rex í.

Þorsteinn Briem, 14.3.2010 kl. 11:25

9 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Blogg er fyrst og fremst ruslakista.

Sigurður Þór Guðjónsson, 14.3.2010 kl. 12:32

10 Smámynd: Þorsteinn Briem

Egill Helga elskar kalla,
einkanlega þá með skalla,
ekki þeir með öllum mjalla,
á öllum prófum myndu falla.

Þorsteinn Briem, 14.3.2010 kl. 13:55

11 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Miðað við orðnotkun á blogginu gæti maður ýmindað sér að hér á landi byggu ekkert nema landráðamenn, einangrunarsinnaðir afdalamenn, fasistar, nasistar, meðlimir mismunandi náhirða og spillingarlið.

Axel Þór Kolbeinsson, 14.3.2010 kl. 15:45

12 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ruslakistu rótar í
ræfilslegur Siggi.
Eflaust finnur ekki í því
að ævintýrin liggi.

Sæmundur Bjarnason, 14.3.2010 kl. 16:22

13 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Baráttan við rusl er basl
á blogginu vöðum elginn
en útkoman er oftast drasl
sem einatt stíflar svelginn

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 14.3.2010 kl. 16:56

14 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

@Ólafur Sveinsson

reyndi að lesa, en varð að hætta því bévítans eðjótinn Netanjahú var sífellt glápandi á mig, hægra meginn af síðunni.

Brjánn Guðjónsson, 14.3.2010 kl. 17:02

15 identicon

Gallinn við moggablogg er að ruslpóstvörnin virkar ekki.

Gísli Ásgeirsson 14.3.2010 kl. 20:08

16 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Skil þig ekki, Gísli. Hvaða ruslpóst ertu að tala um?

Sæmundur Bjarnason, 14.3.2010 kl. 20:12

17 identicon

Forláttu, Sæmundur. Misheppnað spaug.

Gísli Ásgeirsson 14.3.2010 kl. 20:14

18 Smámynd: Zaraþústra

Þessi helvítis dónaskapur og grimmu orð hætta að bíta á mann á endanum ef maður bara blótar nógu andskoti mikið.  Ef við einfaldlega látum ekki eins og algjörar kuntur og látum alla óþarfa skrúðmælgi (eða saurmælgi) sem fret um eyru þjóta, hætta menn að reyna að hrella fólk með ljótu orðbragði og valda hneikslan bara svo það sé lesið.  Það tekur enginn mark á því lengur til dæmis þegar einhver er sagður vera fasista-eitthvað eða nasista-hitt.  Það hefur löngu misst allan mátt og enginn tekur það alvarlega.

Zaraþústra, 14.3.2010 kl. 23:23

19 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Einhvern tímann hefði upphrópunin "Þetta eru LANDRÁÐ !" þótt tíðindum sæta í þingsal.

Nú er þetta bara eins og hvert annað muldur af aftari bekkjunum.

Liggur við að einhverjum fyrirgæfist að segja "étt´ann sjálfur" næst þegar hrunadansarar taka svona stórt upp í sig.

Hildur Helga Sigurðardóttir, 14.3.2010 kl. 23:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband