949 - Icesave enn og aftur

Enn styttist í þjóðaratkvæðagreiðsluna og mér sýnist þeim fjölga sem telja að af henni verði. Henni verði semsagt hvorki aflýst né frestað. Fólk stendur þá frammi fyrir því vali hvort það á greiða atkvæði eða ekki. Kjörsókn verður eflaust túlkuð af sumum sem dómur um það hve margir vilja aukið lýðræði. Kosningin sem slík er að verða æ marklausari. 

Þegar á kjörstað er komið og atkvæðaseðillinn í hendi eru möguleikarnir vissulega fleiri en að krossa við „já" eða „nei". Vel er hægt að gera atkvæðið ógilt til dæmis með því að merkja bæði við „já" og „nei". Líka er auðvitað hægt að skila auðu. Venja er við Alþingiskosningar að telja auð atkvæði og ógild saman og oftast er það lítill hluti greiddra atkvæða.

Svo þarf þó alls ekki að vera. Vel er hægt að hugsa sér að slík atkvæði verði nokkuð mörg og það að skila auðu þarf alls ekki að hafa sömu merkingu og að gera atkvæðið ógilt. Að mæta á kjörstað og vera talinn með í kjörsókn er „statement". Með því að mæta á kjörstað finnst mér fólk vera að segja að það vilji gjarnan taka þátt. Ef því hugnast hvorki „já-ið" eða „nei-ið" er opin leið að gera atkvæðið ógilt eða skila auðu.

Eins og nú standa sakir er ekki annað að sjá en ríkisstjórnin vilji nota atkvæðagreiðsluna eftir því sem hægt er í samningaviðræðunum við Breta og Hollendinga. Úr því sem komið er finnst mér ekkert athugavert við það. Sigri neitarar eins og allt bendir til gæti það auðvitað leitt til öngþveitis hér á landi en ég er alls ekki trúaður á það. Að slíkt komi hugsanlega af stað einhverri keðjuverkun og alheimsbyltingu finnst mér vera algjör fjarstæða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ekki er Sæmi ógildur,
og ekki heldur gildur,
maður er hann mildur,
mér þó alls óskyldur.

Þorsteinn Briem, 4.3.2010 kl. 04:36

2 identicon

Ömurlegt að gerast sprellikarl á vegum SD,ÓRG, BB og InDefence. Ekki tek ég þátt í því.

Sverrir 4.3.2010 kl. 06:50

3 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Einhverra hluta vegna sé ég bara auð atkvæði sem einhverskonar skilaboð.  Í mínum huga eru ógild atkvæði vegna mistaka, en ef það er hátt hlutfall ógildra þá þyrfti það að skoðast í því ljósi.

Kjörsóknin er það sem mestu máli skiptir núna á laugardaginn.

Axel Þór Kolbeinsson, 4.3.2010 kl. 10:14

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Axel - ef kjörsóknin skiptir mestu máli skiptir þá litlu máli hvað kosið er? Hræddur er ég um að menn krossi við nei-ið af mismunandi ástæðum.

Sæmundur Bjarnason, 4.3.2010 kl. 11:23

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Svara vil ég Sverri nú
sem svera notar stafi.
Allt hans mál er útúr kú
enginn þar á vafi.

Minnist ekki á Móra sinn
- í Móum víst er hæstur -
Þar er hann með þykka kinn
og þykist vera glæstur.

Sæmundur Bjarnason, 4.3.2010 kl. 11:26

6 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Vegna þeirrar umræðu sem hefur verið í fjölmiðlum og hjá ýmsum einstaklingum skiptir sem mestu máli að fá sem flesta á kjörstað til þess að sýna það í verki að við viljum hafa hér þjóðaratkvæðagreiðslur.  Ég vil persónulega fá ákveðna niðurstöðu úr kosningunni en dettur ekki í hug að viðhafa áróður um þá skoðun mína núna rétt fyrir kosningar.

Líttu á nýjustu pistlana mína og þá sérðu hversvegna ég vil að fólk láti sjá sig.

Axel Þór Kolbeinsson, 4.3.2010 kl. 11:31

7 Smámynd: Brattur

Mér finnst við eigum að kjósa um það hvort að til þjóðaratkvæða greiðslu eigi að koma eða ekki... er það ekki fullkomið lýðræði ?

Brattur, 4.3.2010 kl. 22:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband