935 - Framtíðarmúsík

Einhverntíma þegar ég verð kominn á elliheimili ætla ég að segja við matráðskonuna þar:

Áður hafði áform glæst,
aldrei þó sem gátu ræst.
Nú er það mín hugsjón hæst
„Hvenær verður étið næst?"

Ég gæti látist hafa gert þessa vísu sjálfur. Svo er þó auðvitað ekki. En góð er hún. Matráðskonan gæti fundið uppá að skammta mér ríflega fyrir vikið. Væru það þá skáldalaun þó vísast færu þau í vitlausan maga.

Það er svo margt sem ég ætla að gera þegar ég verð eldri. Kannski verð ég samt ekki mikið eldri. Svo það er líklega best að fara að drífa í þessu.

Til dæmis gæti ég kennt gamalmennum á tölvur. Þau eru flest logandi hrædd við þær. Verst að ég kann ekkert fyrir mér í kennslumálum. Hefur samt alltaf fundist ég vera mun gáfaðri en aðrir. Unga fólkið heldur það stundum líka um sig. Verði ég umkringdur ellilífeyrisþegum get ég kannski látið ljós mitt skína og komist betur að með mína speki.

Svo gæti ég leitt fullorðna fólkið í réttindabaráttu þess. Höfum við ekki alltaf verið sívinnandi frá blautu barnsbeini og eigum við ekki skilið að fara á hverju ári til Kanaríeyja? Mér finnst það.

Líka gæti ég kennt gamla fólkinu að tefla. Ég er svo ári snjall í því ef andstæðingarnir kunna lítið. Sumum gæti ég jafnvel kennt að setja saman vísu eða blogga svo eitthvað sé nefnt.

Svo eru það stjórnmálin. Ég gæti þóst hafa mikið vit á þeim. Til dæmis eru einu góðu fréttirnar varðandi þau núna að líklega vilja Bretar og Hollendingar alls ekki að lögin sem samþykkt voru á Alþingi verði felld í þjóðaratkvæðagreiðslu.

En hvernig ætla þeir að koma í veg fyrir það? Kannski með því að ná samkomulagi við nefndina sem er hjá þeim núna? Verða þá stjórn og stjórnarandstaða sammála um að draga lögin til baka? Og samþykkir Ólafur það? Lifir þá stjórnin? Er þá Ólafur að ná sínu fram? Verður hann eins vinsæll og hann var áður óvinsæll? Nei, spurningum fer frekar fjölgandi en hitt. Ætli sé ekki bara best að steinþegja.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Mér finnst það góð hugmynd sem ég las einhvers staðar að setja á fót öldungaráð. Nú er meiri þörf fyrir reynslu og heilbrigða skynsemi heldur en þessa háværu og athyglissjúku alþingismenn sem við sitjum uppi með, illu heilli. Í raun ætti að setja lágmarksaldur á þá sem fá að bjóða sig fram til opinberra starfa. 60 ár ætti eiginlega að vera lágmark.  Þá eru menn búnir að ná sínum persónulegu markmiðum og geta einbeitt sér að samfélags þjónustunni. Þá eru líka flestir búnir að vinna sig útúr skuldum og orðnir efnahagslega sjálfstæðir sem er mikilvægt atriði.  Yfir öllu apparatinu væru svo  öldungaráð,  svipað og hjá frumbyggjum Norður Ameríku og Ínúítum. Til þeirra væri leitað ef álitamál kæmu upp.  Þú myndir sóma þér vel sem öldungur

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 18.2.2010 kl. 02:01

2 identicon

Vísindin alla dáð efla,

en stjórnin vill okkur kefla.

En Sæmi með penna

öldnum vill kenna

á Kanaríeyjum að tefla.

Theódór Norðkvist 18.2.2010 kl. 02:25

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Úr Sæma hefur soldið ræst,
syndir hans tók Jesus Christ,
kyndugt margt við kallinn fæst,
í kistli er hans fortíð læst.

Þorsteinn Briem, 18.2.2010 kl. 03:31

4 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Ef að lífsins lánabók
lekið er á netið
sést hver syndir Steina tók
en Sæma hvergi getið

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 18.2.2010 kl. 04:16

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Vísnaþáttur veglegur
verður stundum hér.
Bara nokkuð laglegur
lausavísnaher.

Sæmundur Bjarnason, 18.2.2010 kl. 09:51

6 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Þakka skemmtilegheitin. Það þyrfti að gera þig að formanni Framsóknarflokksins og helst Sjálfstæðisflokksins líka. Ég þori varla að opna útvarp lengur af ótta við að heyra í forystumönnum þessara flokka.

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 18.2.2010 kl. 13:42

7 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

tókst ekki mínu glæsta tilboði. ætlaði að bjóða þessa fínu Erica ritvél fyrir myndavélina.

en rétt er, að gamlingjarnir kjósa heldur ritvél en tölvu.
enda tekur því kannski ekki fyrir alla að standa í stappi við nýjan lærdóm, á seinustu metrunum.

ellikerling alein situr
ekkert virðist kunna
treg er hún og talsvert bitur
tækni vill ei unna

Brjánn Guðjónsson, 18.2.2010 kl. 20:23

8 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Bloggarinn Brjánn
breiðsíðu kynnir.
Afburða ekki hér
yrkingum linnir.

Sæmundur Bjarnason, 18.2.2010 kl. 20:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband