932 - Þegar ég fór í rörið

Nei, ég á ekki við Hvalfjarðargöngin. Rörið sem ég er að tala um hafa víst færri farið í. Ég á við maskínuskrímsli eitt á Borgarspítalanum í Reykjavík. En byrjum á byrjuninni.

Árið 2007 fór ég í rannsókn á Borgarspítalanum og hluti af henni var tilboð um að fara í samanburðarrannsókn sem Íslensk Erfðagreining stóð fyrir. Þetta þáði ég og á því kannski einhvern þátt í gjaldþroti þess fyrirtækis - en er sléttsama. Partur af samanburðarrannsókninni var að fara í vélaróvættina áðurnefndu.

Þessi magnaða vél er einkum eitt stórt og mikið rör. Þessi vél hefur eitthvert íslenskt nafn og jafnvel deild sem nefnd er eftir henni. Man það bara ekki og finnst það ekki skipta miklu máli. Út úr vélinni rann fjöl ein sem líktist legubekk. Þar var ég látinn leggjast . Fyrst var ég reyndar spurður að því hvort mér hætti við innilokunarkennd. Ekki vildi ég viðurkenna það svo ég lagðist á bekkinn. Eina kúlu fékk ég í hendina og var sagt að kreista hana ef ég þyrfti nauðsynlega að komast út.

Konan sem aðstoðaði mig við að koma mér fyrir á bekknum fór síðan út úr herberginu og lokaði á eftir sér. Líklega til að koma sér fyrir við tölvuna sem var í herbergi skammt frá og ég hafði séð fólk sitja við þegar ég kom fyrst inn í herbergið. Þetta var svolítið ógnvekjandi því ég sá strax að ég mundi ekki geta risið upp né lyft höndunum eftir að ég væri kominn inn.

Áður en konan fór sagði hún mér að ég þyrfti að vera þarna í svona 10 til 15 mínútur og mætti ekki hreyfa mig og helst ekki kyngja. Síðan rann bekkurinn eins og fyrir einhverja töfra rakleiðis inn í maskínuna. Ekki var mér bannað að hugsa svo fyrir utan að anda var það eiginlega það eina sem ég gat gert. Komst þó ekki hjá því að kyngja munnvatni öðru hvoru en reyndi að vera fljótur að því.

Leið svo og beið. Engin hljóð bárust til mín frá umheiminum og ég vissi ekkert hvað tímanum leið. Gat næstum ekkert hreyft mig og mátti það ekki. Fæturnir stóðu þó útúr vélinni að ég held. Að lokum var ég orðinn sannfærður um að mun meira en 15 mínútur væru liðnar og starfsfólkið hefði bara gleymt mér. Stillti mig samt um að kreista kúluna og ákvað að gera það ekki fyrr en í síðustu lög. Auðvitað gat kúlan svosem verið biluð og ekki margt sem ég gæti gert við því. Efaðist stórlega um að ég kæmist einsamall og hjálparlaust útúr vélarferlíkinu ef til þess kæmi.

Þegar ég var orðinn endanlega sannfærður um að ég hefði gleymst og allir væru farnir varð ég var við umgang í herberginu og bekkurinn rann út úr vélinni. Þar var þá komin konan sem hafði aðstoðað mig í upphafi. Varð ég nú allshugar feginn og taldi allt vera búið. Svo var þó ekki og átti sér nú stað samtal sem var einhvern vegin svona:

Konan: „Þetta gengur ekki nógu vel hjá okkur. Við fáum myndina ekki skýra. Ertu nokkuð með gervitennur?"

Ég: „Jú, einmitt."

Konan: „Þá verð ég biðja þig að setja þær hér."

Ég: „Sjálfsagt."

Síðan setti ég gervitennurnar á bakkann eða hvað það nú var sem hún rétti í áttina til mín.

Svo rann sleðinn aftur inn í vélina og allt endurtók sig nema hvað nú var ég ennþá sannfærðari en áður um að ég hefði gleymst. Kannski var ég ögn lengur í þetta skipti en veru minni í rörinu lauk þó stóráfallalaust.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég fékk nú bara innilokunarkennd við að lesa þettað.

Númi 15.2.2010 kl. 00:28

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Gervi-Sæmi rann í rör,
reisn var yfir þeirri för,
einskis snótin varð þó vör,
vinurinn var millibör.

Þorsteinn Briem, 15.2.2010 kl. 02:43

3 Smámynd: Kama Sutra

Kama Sutra, 15.2.2010 kl. 03:03

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Steini Briem í stuðið sitt
stekkur aftur núna.
Rekur sig í rörið mitt
og rolukastið fúna.

Sæmundur Bjarnason, 15.2.2010 kl. 04:54

5 identicon

Þegar ég las fyrirsögn þá myndaði ég mér skoðun með að þetta væri rör sem færi upp í óæðri endann á mönnum.. þú veist eins og er svo vinsælt í dag ;)

DoctorE 15.2.2010 kl. 09:18

6 identicon

Ég fór einu sinni í svona rör í klukkutíma. Það olli innilokunarkennd í nokkra mánuði á eftir, fann það þegar ég fór Vestfjarðagöngin á því tímabili. Skil ekki hvers vegna vélarnar (rörin) eru ekki stilltar þannig að fætur fólks fari fyrst inn en ekki höfuðið. Það hefði róað mig mikið, mér fannst svo erfið ferðin út úr tækinu og panikeraði næstum því sem hefði ekki gerst ef höfuðið hefði sloppið fyrst út.

Hef heyrt um fólk sem þarf róandi lyf til að lifa svona ferð af.

Gurrí 15.2.2010 kl. 09:26

7 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég myndi nú fá algjöra rörsýn ef ég færi í svona rör.

Sigurður Þór Guðjónsson, 15.2.2010 kl. 10:31

8 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk öll.

Fer að halda að sumir lesi bara allt sem ég blogga.

Er ekki að vanþakka það, en reyni að vanda mig svolítið.

Reglusemi að skrifa alla daga og alltaf á sama tíma!!

Sæmundur Bjarnason, 15.2.2010 kl. 12:56

9 identicon

Þetta tæki er sumsé eitthvað lakari en sneiðmyndatæki, "kleinuhringurinn" sem ég þurfti að fara í s.l. haust.

Annars var á Akureyri talað um "rörið" þegar menn áttu við flugvél eina, sem notuð var í Reykjavíkurferðir. Minnir að hún hafi heiti Mitsubishi-eitthvað. Man eftir blaðamynd af handknattleikssnillingnum Duranona, en hann var með hæstu mönnum og það gekk illa fyrir hann að koma sínum löngu fótum fyrir í þessari vél.

Ellismellur 15.2.2010 kl. 15:07

10 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, Ellismellur. Kleinuhringurinn er skárri. Þar heyrir maður þó hvin og læti og svo er rödd sem segir manni alltaf að hætta að anda og byrja aftur.

Sæmundur Bjarnason, 15.2.2010 kl. 15:18

11 identicon

Mér finnst fínt hjá þér og réttlátt, að þú skulir vera búinn að fá 300 innlit í dag.
Ég held að flugvélin sem kallaðist rörið, heiti Metro.

Ólafur Sveinsson 15.2.2010 kl. 16:47

12 Smámynd: Ragnheiður

Ég er mest ánægð með að stjórnandi kleinuhringsins hefur fyrir því að segja manni að byrja að anda aftur.

Ragnheiður , 15.2.2010 kl. 22:40

13 Smámynd: Sigurður Sveinsson

Sæll Sæmundur. Þetta er bölvað árans rör þarna á Borgó. Þetta er beinaskanni svo þeir geti skoðað í þér beinin frá litlu tá uppí hvirfil. Ég lenti í rörinu í nóvember s.l. og fékk líka neyðarblöðru til að kreista ef ég yrði hræddur. Þetta ætlaði heldur engan enda að taka. Djöfulsins tirtringur og hávaðamengun. Það flökraði aldrei að mér að þrýsta á blöðrudjöfulinn. Ég missti tímaskynið og var farinn að halda að margir klukkutímar væru liðnir. Svo loksins stoppaði þessi voðalega uppfinning mannsandans og ég spýttist út úr rörinu. Þá var tæpur klukkutími liðinn. Ég skal fúslega viðurkennaað Vöggur varð ansi feginn að komast út. Kaffið sem ég fékk fljótlega á eftir var alveg dásamlegt.

Sigurður Sveinsson, 16.2.2010 kl. 05:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband