926 - Icesave-æsingurinn

Þegar æsingurinn varðandi Icesave verður um garð genginn verður ljósara hver hefur rétt fyrir sér í hrunsmálum. Hægri sinnaði hluti lýðsins eða sá vinstri sinnaði. Mér finnst endilega að hægri og vinstri hafi ennþá merkingu. Sú merking sem ég legg í þau orð er einkum sú að þeir sem vinstri sinnaðir eru vilji sem mesta velferð fyrir sem flesta þó hún kosti ef til vill minni auð og minni þjóðartekjur. Þeir hægri sinnuðu vilja umfram allt auka þjóðartekjur og skapa sem mestan auð. Stækka kökuna eins og þeir segja oft. Svo getur hún líka minnkað fyrirvaralaust eins og við Íslendingar urðum óþyrmilega varir við fyrir nokkru.

Líklega er þetta afar vinstri sinnað viðhorf og á þessu öllu eru fjöldamargar undantekningar. Alls ekki er alltaf gott að sjá hvað eru vinstri sinnuð viðhorf og hver eru hægri sinnuð þó fylgismenn flokka séu oft naskir á slíkar skilgreiningar. Margir sveiflast þó á milli þess að vera hægri eða vinstri sinnaðir. Eins og ég.

Var að horfa á „Silfur Egils" áðan. Menn geta hæglega haldið því fram að Egill Helgason sé vinstri sinnaður. Hann er samt eins og sakir standa einn af allra áhrifamestu fjölmiðlamönnum landsins. Það dugar engan vegin að vera með upphrópanir um hann. Nauðsynlegt er að koma með rök og allra best væri fyrir hægrisinna að koma með mótvægi ef þeir geta. AMX er það ekki þó þar hafi því verið haldið fram, frá því áður en stafkrókur var skrifaður á þann vef, að um væri að ræða fremsta fréttaskýringarvef landsins.

Örugglega er langt þangað til íslenskum bönkum verður aftur treyst. Samt þarf atvinnulífið á þeim og stöðugleika að halda. Það er jafnvel hægt að ganga svo langt að halda því fram að þeir séu nauðsynlegir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Skiptingin í ''hægri'' og ''vinstri'' hefur ekki sama vægi í hugum flestra held ég og áður var. Það er þá helst meðal einhverra mjög eindreginna flokksmanna að þeir iðka það enn. Ekkert er ömurlegra en það þegar menn sjá ekki bjálkann í augum síns flokks en flísina í augun andstæðinga sinna. Nú held ég að almenningur krefjist fremur heiðarleika og spillingarleysis en sé að hengja sig of mikið í hægri og vinstri.

Sigurður Þór Guðjónsson, 9.2.2010 kl. 09:44

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Sammála þér um þetta Sigurður.

Samt finnst mér hægri-vinstri skiptingin oft hjálpa mér til skilnings á stjórnmálalegum atburðum.

Sæmundur Bjarnason, 9.2.2010 kl. 12:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband