3046 - Ameríka

Einn er sá maður sem mér finnst nota bloggformið af listfengi miklu. Mér finnst hann samt skrifa of mikið um Færeyjar, fáfengilegar myndir af internetiu og fjölbreytt tónlistarlíf. Þetta getum við hæglega kallað effin þrjú og ég fyrir mína parta minnist sjaldan á þessi mál. Þar að auki bloggar þessi maður alltof sjaldan.

Jú, jú þetta er Jens Guð. Og þó ég taki mér hann til fyrirmyndar í mörgu og núorðið sé hann orðinn sá bloggari sem ég les hvað oftast, erum við, að ég held, ekkert líkir í bloggskrifum okkar. Við erum báðir farnir að eldast nokkuð og höfum lengi skrifað á Moggabloggið, en að öðru leyti held ég að við séum ekkert líkir.

Mér finnst samt ekkert Guðlegt við hann þó hann kalli sig Jens Guð. Mogginn þykist samt eiga bæði Guð og Sjálfstæðisflokkinn. Þarna er strax kominn í ljós heilmikill munur á okkur. Jens mundi aldrei láta það henda sig að skrifa um pólitísk mál. Auðvitað er Guð ekkert pólitískur, en Mogginn er það kannski og Sjálfstæðisflokkurinn áreiðanlega. Hugsanlega er Jens líka áskrifandi að Mogganum. Það er ég ekki, en les samt mbl.is öðru hvoru.

Flestir sem á Moggabloggið skrifa er hægri sinnaðir mjög. Ekki þó Jens. Hann heldur sínum stíl. Áfram skal Færeyjadýrkunin, sögurnar af Lollu frænku, tónlistarfræðslan og útúrrugluðu smásögurnar og myndirnar sem safnað er saman af Internetinu, í fólkið. Kannski kýs hann Sjálfstæðisflokkinn þegar hann getur en þó hefur hann ekki predikað um það mér vitanlega. Nei, Jens er fyrirmyndarbloggari í alla staði og ég reyni svo sannarlega að líkjast honum.

Nú get ég ekki annað en minnst á Trump, þó hann sé við það að verða úreltur. Stuðningsmenn hans eru mjög hægri sinnaðir pólitískt séð. Þar að auki eru þeir ótrúlega sannfærðir um að hafa rétt fyrir sér. Hvað eru þeir raunverulega margir? Hugsanlega klofnar repúblikanaflokkurinn fyrir tilverknað Trumps. Þó Trump hafi fengið allmörg atkvæði í nýafstöðnu forsetakjöri er alls ekki víst að harðkjarnastuðingsmenn hans sé sérlega margir. Pence varaforseti er sá af stuðningsmönnum hans sem hefur vaxið svolítið á áliti hjá mér. Og svo má ekki gleyma Mitch McConnell.

Sennilega er mesti munurinn á Evrópu og USA sá að uppreisnin af fólksins hálfu kom frá hægri í USA en í Evrópu er frekar við henni að búast frá vinstri. Auðvitað er þessi skipting í vinstri og hægri að mestu leyti úrelt. Getur samt hjálpað til skilnings á ýmsu. Ef litið er á bandaríkin sem heila heimsálfu, finnst mér það hjálpa svolítið til skilnings á stjórnmálum þar. Tungumálið og menningaraldurinn hefur sitt að segja. Menntunin hugsanlega líka. Veit það samt ekki. Að talsverður hluti bandaríkjamanna skuli nærast andlega einkum á selebum og samsæriskenningum finnst mér segja ýmislegt um þessa sömu bandaríkjamenn.

Kannski er það aldurinn (menningaraldurinn) sem skiptir mestu máli. Það er að segja ef ekkert er gamalt ef það er ekki að minnsta kosti 200 ára. Bandaríkin voru einu sinni kölluð nýji heimurinn, sennilega þó ekki lengur. Evrópa væri þá gamli heimurinn. Mér finnst að við Íslendingar tilheyrum Evrópu fremur en Ameríku.

IMG 5106Einhver mynd.


Bloggfærslur 10. janúar 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband