2932 - Drífa Snædal

Held að það sé talsvert mikið ofílagt að halda að eitt til tvöhundruð þúsund muni deyja í Bandaríkjunum af völdum Covid-19 veirunnar. Alltaf þegar ég sé eitthvað tölulegt um US þá heimfæri ég það uppá Ísland alveg ósjálfrátt. Það er fremur auðvelt því Bandaríkjamenn eru u.þ.b. þúsund sinnum fleiri en við. Samkvæmt þessari kenningu ættum við Íslendingar að missa svona 100 til 200 manns í þessari plágu. Það finnst mér afar ótrúlegt. Kannski koma andlát nokkurra tuga Íslendinga til greina, en allsekki meir. Því neita ég alfarið að trúa.

Þorsteinn Siglaugsson var vanur að kommenta mikið á þessa síðu. Hann er alveg hættur því. Stuðningsmaður Frosta er hann orðið mikill. Honum finnst Þórólfur og Co. vera að gera tóma vitleysu. Það held ég allsekki. Það er raunar hálfskrýtið að manni eins og honum (Þórólfi) skuli hafa verið þrýst í það að taka svona veigamiklar ákvarðanir eins og hann hefur óneitanlega gert eða þurft að gera. Þó er hann eiginlega bara starfsmaður Landlæknisembættisins. Að vísu yfirmaður sóttvarna þar. Stjórnmálamenn hafa að mestu leyti kúplað sér útúr því að taka ákvarðanir varðandi farsóttina sjálfa og er það vel. Nóg er nú samt. Vissulega má deila um ýmsar efnahagslegar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar. Þó samstaða um þær sé mikið umtöluð fer allsekki hjá því að menn búi sig undir miklar deilur hvað það snertir. Sjálf þykist ríkisstjórnin  hafa gert vel, en flestir hallast að því að of lítið sé að gert. Þó virðist samkvæmt skoðanakönnunum að vinsældir hennar hafi aukist.

Eitt helsta vandmál mitt í sambandi við þessi bloggskrif er að mér leiðist óttalega að þykjast alltaf vera svona gáfaður. Þetta er bara eðli mitt. Ég get ekki öðruvísi verið né að þessu gert. Að miklu leyti er allt okkar líf einn allsherjar þykjustuleikur. Innsta eðli sitt lætur enginn í ljós. Allt okkar líf er um dauðann. Hann litar allt saman. Þessvegna er það mikilvægt þroskastig hjá börnum þegar þau gera sér grein fyrir því að þau eru ekki ódauðleg. Þeim getur fundist að dauðinn sé mjög fjarlægur, en samt er hann alltaf til staðar. Þegar maður gerist gamall færist hann að sjálfsögðu nær og nær. Auðvitað sér maður eftir ýmsu, sem maður hefur gert eða vanrækt að gera. Vel hefði verið hægt að lifa lífinu allt öðruvísi.

Stend með Drífu í ASÍ-málinu. Verkalýðurinn á fyrst og fremst að hugsa um sjálfan sig, ekki fyrirtækin. Þó Vilhjálmur sé Akurnesingur og Ragnar Þór hafi frelsað VR undan ofurvaldi Sjálfstæðisflokksins er ég þeirrar skoðunar að þeir séu bara fúlir yfir því að hafa tapað fyrir Drífu. Hún er forseti ASÍ og stendur sig bara vel þar.

IMG 6226Einhver mynd.


Bloggfærslur 2. apríl 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband