3036 - Bóluefni

Að sjálfsögðu hugsa allir mest um bóluefni og Covid-19 um þessar mundir. Sagt er að Canada hafi tryggt sér nægilega mikið af bóluefni til þess að bólusetja alla að minnsta kosti 5 sinnum. Þeir sem mest græða á þessu bóluefni eru lyfjarisarnir. Ríku þjóðirnar munu sjá til þess að þeir sem vilja munu verða bólusettir. Sem betur fer erum við Íslendingar í hópi ríku þjóðanna og munum sigrast á þessum veirufjára. Þriðji heimurinn svokallaði mun áfram berjast við hana og ekki eykur þetta á jafnrétti milli hinna ríku og þeirra snauðu. Að öllum líkindum verða einhver ár þar til þriðji heimurinn mun ná tökum á þessari veiru.

Jólahald verður með breyttu sniði að þessu sinni ef að líkum lætur. Vel getur samt verið að við Íslendingar slökum það mikið á klónni að ein bylgja ennþá af þessum faraldri skelli á okkur. Miðað við marga aðra má samt gera ráð fyrir að við sleppum tiltölulega vel frá þessu öllusaman. Ef vil tekst til mun ríkisstjórnin reyna að eigna sér þann árangur í kosningunum sem væntanlega fara fram í september næstkomandi. Ef ekki þá verður Þórólfi og Co. kennt um. Þeir sem allra mest vilja slaka á í baráttunni eru sennilega mikill minnihlutahópur, samt er vel hugsanlegt að hann fari stækkandi.

Að mínu viti eru það einkum tvær stefnur sem takast á í stjórnmálum. Bæði hér á landi og víða annarsstaðar. Vel má kalla þessar stefnur einangrunarstefnu og opingáttarstefnu. Allra stærstu þjóðirnar hugsa þó fyrst og fremst um eigin hag og völd. Önnur atriði eru aftar í röðinni þar. Á undanförnum árum hefur opingáttar- og samvinnustefnan verið ríkjandi víða um lönd. Einangrunar og föðurlandsástarstefnan hefur þó verið að vinna á. Enginn vafi er á því að þau ríki sem áður og fyrr voru undir oki Sovétríkjanna hneygjast mjög til einangrunarstefnu í þessum skilningi. Engin ástæða er til að líta á andstæðinga að þessu leyti sem einhverja óvini. Allir vilja gera sitt allra besta. Jafnvel stjórnmálaflokkar. Á margan hátt er því ráði beitt að sundra fólki frekar en sameina í stjónmálaerjum af öllu tagi. Samvinna og jafnrétti vinnur þó í heildina á í heiminum með tímanum.

Skrítið er að fylgjast með stjórnmálum í USA. Enginn vafi er á því að Trump hefur leitast við að auka viðsjár milli fólks og flokka, frekar en að sameina. Að þurfa að setja traust sitt á Biden í staðinn er hugsanlega ekki til nokkurra bóta. Fyrirsjáanleiki mun samt eitthvað aukast, en í heildina mun stefna Bandaríkjanna ekki breytast hót.

Kófþreyta er nú mjög farin að gera vart við sig. Ekki mun hún minnka um Jólin og hugsanlega mun hún valda ýmsum vandræðum.

Nú er búið að fresta augna-aðgerðinni á mér og er nú útlit fyrir að ég fái nýjan eða nýja augasteina þann 21. desember og ætti það að vera allt í lagi því mér skilst að fólk sé afar fljótt að jafna sig á þessu.

IMG 0941Einhver mynd.


Bloggfærslur 9. desember 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband