3042 - Kófið og vísnagerð

Sennilega er ég það sem oft er kallað hagyrðingur. Steini Briem er það líka. Og margir fleiri. Sumar vísur sem Steini birtir hér eru ágætar (Aðrar vísur eftir hann sé ég næstum aldrei.) Oftast svara ég honum í bundnu máli og stundum eru vísur okkar sæmilega góðar en oft á tíðum óttalegt bull. Bæði knúsaðar og illa gerðar. Það kemur þó ekki í veg fyrir að við gerum nokkuð góðar vísur svona af og til að ég tel. Sjálfur kann ég eigilega ekki að gera neitt nema ferskeytlur. Limrur sem eru fremur vinsælar nú um stundir af vísum að vera, kann ég varla að gera. Í fljótu bragði man ég ekki eftir neinni. Man þó eftir tveimur braghendum sem ég gerði fyrir margt löngu. Þær eru svona:

Braghendu er býsna gott að berja saman.
Svo er líka geysi-gaman,
að gretta sig sem mest í framan.

Hin er svona:

Einhverntíma ætla ég að yrkja kvæði
fái ég bara bæði
brennivín og næði.

Ferskeytlur hef ég ort allmargar, sennilega nokkur hundruð. Sumar þeirra eru sjálfsagt nokkuð góðar, en ég ætla ekki að þreyta hugsanlega lesendur mína með því að reyna að rifja þær upp. Þær eru útum allt. Ég hef ekki gert neina tilraun til að halda þeim saman. Hef reynt að hafa þann háttinn á að ef ég minnist ekkert á höfundinn eru mestar líkur til að vísan sé eftir mig. Reyni sjaldan að leggja á minnið hver sé höfundurinn. Finnst vísan sjálf mun meira virði.       

Varðandi vísurnar vil ég einkum segja það að margar mjög góðar vísur er að finna á fésbókinni í hóp þeim sem nefnist Boðnarmjöður. Verst hvað fésbókin er leiðinleg og afskiptasöm. Fer eins sjaldan þangað og ég mögulega get komist af með nú í seinni tíð. Á Boðnarmiði úir líka og grúir líka af illa gerðum vísum og jafnvel vitlaust gerðum. Ef ort er hefðbundið finnst mér lágmark að farið sé eftir þeim reglum sem um slíkt gilda. Þær reglur eru afar einfaldar og voru til skamms tíma kenndar í skólum. Vísnasöfn eru líka víða til. Jafnt á Netinu sem annars staðar.

Veiran og Bjarni Benediktsson eru það sem hæst ber í fréttum þessi jólin. Eitthvað er rætt um bóluefni og það sem bæði Þórólf og Kára dreymir um er að landið í heild verði gert að einni stórri tilraunastofu. Ekki er víst að svo verði en vel gæti samt svo farið. Meðal annars vegna þess að upp til hópa eru Íslendingar nokkuð vel upplýst fólk. Víðast annars staðar er andstaðan gegn bólusetningum mikil og jafnvel óskiljanleg. Svo mikil að ekki er víst að hjarðónæmi náist þó allir sem vilja verði bólusettir þar. Þannig getur þessi Covid-19 veira verið til staðar lengi og ekki er víst að það ónæmi sem bólusetning skapar endist nógu lengi.

Bjarni Benediktsson ætti að sjálfsögðu að segja af sér sem ráðherra eftir að hafa haft að engu sóttvarnarreglur sem hann sjálfur átti þátt í að setja. En mannvalið er svo lítið innan Sjálfstæðisflokksins að ekki er víst að úr því verði. Hann heldur öfgahægrimönnunum þó frá kjötkötlunum. Kannski er hann ekkert betri sjálfur, en hann fer að minnsta kosti betur með það og þó Sjálfstæðisflokkurinn fari sífellt minnkandi er ekki við Bjarna einan að sakast um það. Hvernig jafnólíkum öflum hefur tekist að hanga saman svona lengi er ekkert annað en stórfurðulegt. Framsóknarflokkurinn sem einu sinni var stór flokkur er núna að verða að engu.

IMG 5120Einhver mynd.


Bloggfærslur 27. desember 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband