3024 - Teikað af snilld

Ekki hef ég í hyggju að kommenta neitt sérstaklega á bandarísku kosningarnar. Allir virðast vera með hugann við þær ennþá og þessvegna er upplagt að ræða um eitthvað annað.

Einu sinni hafði ég mikinn áhuga á stjörnufræði. Í þættinum „nýjasta tækni og vísindi“ sá ég ekki betur um daginn en að á Hótel Rangá, sem ég hef hingað til haldið og held jafnvel enn að sé í námunda við Hellu, væri kofi með lausu þaki, sem hægt væri að renna til hliðar. Þetta líst mér óvenju vel á og vil gjarnan vita hvort þessi kofi gæti fylgt ef maður tæki herbergi þar á leigu. Þetta er bara svona hugmynd, sem ég fékk þegar ég sá þáttinn.

Einu sinni sem oftar var ég að flækjast um í Hveragerði. Þar var krakkahópur að teika og gekk fremur illa. Ég var á Sévrólettinum þá og bauð þeim uppá að halda í afturstuðarann hjá mér. Það gerðu þau en voru óvart svo mörg að ég komst ekki af stað. Spólaði bara á sama stað. Bað þau þá að fækka sér eitthvað og þá komst ég af stað. Þetta minnti mig á að mikið sport var að teika í Hveragerði í gamla daga. Einhver teikaði rútuna til Reykjavíkur og þorði ekki að sleppa fyrr en uppí í Kömbum því hún fór svo hratt.

Einhverntíma var það að Guðjón Björnsson, sem lengi var verkstjóri í garðyrkjustöðinni á Reykjum, reyndi að gera leikara úr okkur Jóa á Grund. Ekki veit ég með neinni vissu hvernig hann fékk þá hugmynd. Hugsanlega var það í framhaldi af því að við vorum, ásamt fleiri strákum, látnir fara í kvenmannsföt á skólaskemmtun eða einhverju þessháttar. Satt að segja var þetta fremur slæm hugmynd. Man að hann reyndi að kenna okkur einhver undirstöðuatriði í leiklist, en það gekk illa. Ég man að við áttum að leika Box og Cox. Já, það voru nöfnin á karakterunum sem við áttum að leika. Man ekki eftir neinu öðru í sambandi við þetta. Held samt að þetta hafi verið ákaflega stutt verk og lítið mál að læra textann, en leika kunnum við ekki neitt. Ekki man ég um hvað þetta verk snerist, en sennilega hefur það byggst á hefðbundnum misskilingi og átt að vera fyndið. Hvað um það. Fljótlega kom í ljós að ómögulegt var að framkvæma þetta og Guðjón gafst upp.

Einu sinni sá ég líka Guðjón Björnsson synda svonefnt hliðarsund. Þá var held ég verið að keppa á 17. júni á milli giftra og ógiftra að ég held í boðsundi. Hliðarsund er einhverskonar undarlegt sambland af skriðsundi og baksundi. Það sá ég framá þegar ég fór sjálfur að æfa sund nokkrum árum seinna. Lengst náði ég í því þegar ég varð annar í 1000 metra sundi með frjálsri aðferð á Héraðsmóti Skarphéðins. Þessu hef ég mögulega lýst í blogginu mínu fyrir löngu.

Hef undanfarið verið að lesa markvisst gömul blogg eftir sjálfan mig. (aðrir gera það víst ekki) Sumt af því sem þar er að finna væri vel hægt að nota í ævisögu ef ég nennti slíku. Sennilega er ég bestur í svona sundurlausum endurminningum. Fellur allur ketill í eld ef ég stend frammi fyrir því að þurfa að lesa yfir og raða, sortera og laga til, en það þyrfti óhjákvæmilega að gera ef verða ætti samfella úr þessu.

IMG 5218Einhver mynd.


Bloggfærslur 8. nóvember 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband