3013 - Moggabloggið

Verð víst að skrifa eitthvað til að halda mér á 50-listanum. Heldur er það nú slappt markmið að hanga á honum. Hef aldrei komist á toppinn þar, enda er hann víst frátekinn fyrir fasista. Auk þess að skrifa þar eingöngu um pólitík þarf að skrifa þar daglega til þess að komast þangað. Ég reyndi einu sinni að skrifa daglega, en gafst svo upp á því. Jónas Kristjánsson bloggaði daglega eða jafnvel oft á dag, var feikilega vinsæll og áberandi vinstri sinnaður. Svo tók hann uppá því að deyja. Ómar Ragnarsson og jafnvel fleiri virðist mér að séu alltaf að reyna að komast á Moggabloggstoppinn. Ég er löngu hættur þeirri vitleysu. Þessi vinsældalisti á Moggablogginu er skrýtið fyrirbrigði. Þeir sem skrifa á það reglulega eru það líka. Eins og ég til dæmis. Eiginlega held ég að það sé betra að vera vinstri sinnaður og skrýtinn en að vera alveg við toppinn. Ég er samt ekkert að líkja mér við Ómar Ragnarsson. Þekki samt að minnsta kosti tvo með því nafni.

Ágætt er að Moggabloggast öðru hvoru finnst mér. Eintal sálarinnar á ekki við á fésbókinni. Tvennt er það sem ég finn henni einkum til foráttu. Þar er alltaf verið að breyta. Breytinganna vegna finnst mér. Í öðru lagi finnst mér ganga fullmikið á þar. Næstum eins og í amerískum kvikmyndum. Þar og í sjónvarpsseríum þaðan er eins og það sé markmið í sjálfu sér að vera með sem mestan djöfulgang. Einu sinni sá ég kvikmyndina Animal House. Held að ég hafi aldrei beðið þess bætur. Þar tók einn djöfulgangurinn við af öðrum. Íhaldssemin og óbreytanleikinn á Moggablogginu á nokkuð vel við mig. Ég er nefnilega auk þess að vera hundgamall introvert hinn mesti. Kannski er ég á næsta bæ við að vera einhverfur. Eða á leiðinni með að verða Alsheimersjúklingur. Kannski er ég alltof opinskár hérna. Það má kalla þetta einslags dagbók mín vegna. Hugsanlega er það Covid-ið sem gerir mann svona. Veiruskömmin breytir öllu. Betra er að reyna að sálgreina sjálfan sig en aðra. Til lengdar er það ekki gáfulegt að þykjast alltaf vera voða gáfaður og vita alla skapaða hluti.

Held að það sé grenjandi rigning úti núna, svo ég er að hugsa um að fara ekkert út að ganga. Það voru áberandi fáir sem höfðu skoðað bloggið mitt núna áðan, svo það er kannski best að senda þetta út í eterinn áður en ég sé eftir því.

IMG 5463Einhver mynd.


Bloggfærslur 6. október 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband