18.10.2020 | 11:43
3018 - Blái himininn
Í baksýnisspeglinum fræga sýnist mér að við Íslendingar höfum verið óvenju heppnir í lok síðari heimsstyrjaldarinnar. Þá var eftirspurn eftir matvælum mikil og við græddum á því. Sömuleiðis voru íþróttir lítið stundaðar í útlandinu á stríðsárunum. Þessvegna meðal annars gekk okkur vel þar á fyrstu árunum eftir stríð. Á hrunárunum fyrir 2008 höguðum við okkur óskynsamlega. Fer samt ekki nánar útí það. Ef bóluefni gegn Covid-19 veirunni finnst og kemst í dreifingu nokkuð fljólega kann að koma í ljós að við Íslendingar höfum undanfarið hagað okkur nokkuð skynsamlega. Vonum það að minnsta kosti meðan enn er sæmileg von um að það rætist. Annars má búast við að þessi faraldur hafi mikil og djúpstæð áhrif á pólitík alla og efnahagslíf í heiminum ef vel tekst til.
Enn er mörgum spurningum ósvarað varðandi Covid-19 faraldurinn.
AHver er raunveruleg dánartíðni í Covid-19 faraldrinum?
Er e.t.v. gert fullmikið úr eftirköstum veirusýkingarinnar? Hve algeng eru þau? Og hve alvarleg eru þau?
Hvað með eftirköst annarra veirusýkinga t.d. venjulegrar og algengrar flensu?
Hve líkleg er almenn dreifing viðurkennds bóluefnis við Covid-19 á næstunni?
Af einhverjum ástæðum steinhætti ég fyrir nokkru að birta hér á blogginu mínu örsögur eða eitthvað í þá áttina. Ekki veit ég af hverju það var. Sennilega hefur andinn steinhætt að koma yfir mig. Auk þess bað ég hann ekkert um það.
Man ekki fyrir víst hvort ég var búinn að birta þessa sögu. Held ekki. Og nenni eiginlega ekki að gá. Sennilega hef ég ætlað að hafa þessa sögu svolítið lengri. Hér kemur semsagt sagan og ég held að hún hafi átt að heita Blái himininn:
Tjaldhimininn var blár. Af hverju hann var blár hafði Lárus ekki hugmynd um. Helst datt honum í hug að það væri vegna þess að hinn raunverulegi himinn væri stundum blár. Oftast var hann samt grár og blautur. Túristar voru alveg hættir að koma. Þessvegna var það sem hann fékk tjaldvagninn fyrir lítið. Þetta var sérlega vel heppnaður tjaldvagn og vel mátti hengja hann aftan í jepplinginn. Sem betur fer var dráttarkrókur á honum.
Lárus ætlaði sér að fara í hringferð um landið. Þórólfur og Víðir mæltu með því að hann færi í hringferð um sína eigin stofu, en honum leist ekki á það. Vonandi mundu Þóra og krakkarnir sætta sig við þennan tjaldvagn. Að tjaldhimininn væri blár skipti í rauninni engu máli. Tjaldveggirnir voru gulir og það var hann ánægður með. Þegar allt væri komið í kring ætlaði hann í fyrsta áfanga að fara austur að Seljalandsfossi. Næsta dag ætlaði hann svo alla leið til Hornafjarðar, svo til Egilsstaða og þaðan sem leið liggur til Akureyrar. Þar með sleppti hann Húsavík, Dettifossi og Mývatni. Ef til vill mundi hann endurskoða þessa áætlun. Sérstakleg ef Þóra mundi setja sig upp á móti þessu.
Við Seljalandsfoss var allt á fullu. Túristarnir voru greinilega komnir aftur. Kannski höfðu þeir aldrei farið neitt. Bílar og jafnvel stórar og stæðilegar rútur voru á víð og dreif í ánni. Lárusi kom þetta töluvert á óvart því hann hafði búist við því að engir eða að minnsta kosti fáir ferðamenn væru þarna. Lét samt eins og þetta væri alveg eðlilegt. Sagði krökkunum að svona væri þetta alltaf. Brunaði svo út á sjó og tjaldaði þar.
Vitanlega er ekki hægt að tjalda úti á sjó. Þessvegna sukku þau til botns fyrr en varði. Þar var allt fullt af fiski. Einstak túristar voru þar á rangli. Vissu greinlega ekkert hvert ætti að halda. Risavaxnar kórónuveirur voru margar á botninum og Lárus og fjölskylda urðu að passa að verða ekki fyrir þeim.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)