3017 - Bæling vs Barrington

Nú er ég alvarlega dottinn í að skoða lemúrinn á netinu. Aðdáun mín á þeim feðginum Veru og Illuga fer sívaxandi. Þó hef ég um sumt illan bifur á Illuga. Á lemúrnum er margt athyglisvert að finna. Einkum og sér í lagi fyrir þá sem áhuga hafa á sögulegu efni. Tala nú ekki um gamlar ljósmyndir. Vel getur verið að þetta verði til þess að ég skrifi minna á bloggið mitt á næstunni. Auk þess sem ég hef áhuga á sögulegu efni er meistari Kjarval í sérstöku uppáhaldi hjá mér um þessar mundir. Man eftir honum úr listamannaskálanum. Hef lesið næstum allt sem Ingimundur Kjarval hefur skrifað um afa sinn á Moggabloggið.

Þórbergur Þórðarson var í miklu uppáhaldi hjá mér og síðustu árin sem ég var í Reykjavík. Rétt fyrir 1970, var ég verslunarstjóri í Silla og Valda búðinni sem var á Hringbraut 45 að mig minnir og sá hann oft. Sérkennilegur um margt og eftirminnilegur. Sömuleiðis gamla konan sem slapp stundum út hjá þeim á Grund, til að kaupa sér neftóbak. Pálína minnir mig hún héti.

Sigurliði og Valdimar eru líka eftirminnilegir. Eftir því sem aldurinn færist yfir mig verða löngu liðnir atburðir sífellt meira ljóslifandi fyrir manni, en skammtímaminnið lætur á sjá. Þessvegna er það meðal annars sem ég er orðinn svona illa að mér í tölvumálum sem einu sinni voru mitt forte.

Meira virðist núna vera deilt um þær sóttvarnaraðgerðir sem gripið er til en var í vetur í fyrstu bylgunni. Meðal annars held ég að það sé vegna þess að nú er pólitíkin hlaupin í þetta. Slæm er sú tík eftir því sem Nebelsskáldið okkar sagði. Þá er nú rjómatíkin skárri. Hvað sóttvarnirnar snertir eru það einkum bælingarstefnan og Barrington-stefnan sem takast á. Þórólfur hefur hingað til fylgt bælingarstefnunni en því er ekki að neita að einhverjir læknar og jafnvel sóttvarnasérfræðingar fylgja Barrington-stefnunni sem tekur nafn sitt af smábæ þar sem ráðstefna um þetta var nýlega haldin. Sú stefna snýst í sem allra stystu máli um það að vernda viðkvæmu hópana en láta veiruna að öðru leyti afskiptalausa og ná þannig hjarðónæmi á stuttum tíma. Með því megi ná viðunandi árangri án þess að hjól atvinnulífsins þurfi nokkuð að ráði að hægja á sér. Hin stefnan sé næstum óframkvæmanleg nema til komi bóluefni nokkuð fljótlega aðgengilegt fyrir alla. Satt að segja virðist það allsekki fjarlægur möguleiki.

IMG 5454Einhver mynd.


Bloggfærslur 16. október 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband