23.2.2016 | 23:33
2425 - Bessastaðir
Í sjónvarpsútsendingum frá alþingi hefur hver og einn sitt fangamark og þar er oftast hægt að sjá hverjir eiga að fá orðið næst. Þegar ég sá fyrst fangamarkið HHG varð mér undir eins hugsað til Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar en kannaðist þó ekkert við að hann væri kominn á þing. Varla hefði það samt átt að fara framhjá mér. Ég hinkraði því við og mikið létti mér þegar ég sá að það var Helgi Hrafn Gunnarsson sem tók til máls þegar ég átti allt eins von á Hólmsteininum þar. Annars er það svo einkennilegt með mig að ég ruglaði lengi vel saman pírötunum Helga Hrafni Gunnarssyni og Jóni Ólafssyni. Þó eru þeir ekkert líkir.
Eiginlega er ég búinn að búa til smálista yfir þá sem kom til greina í næsta forsetakjöri. Kannski einhver þeirra verði búsettur á Bessastöðum í árslok. Listinn er svona:
Andri Snær Magnason, Ástþór Magnússon, Baldur Þórhallsson, Bubbi Morthens, Davíð Oddsson, Egill Helgason, Einar Kárason, Guðni Ágústsson, Hrannar Pétursson, Kári Stefánsson, Ólafur Jóhann Ólafsson, Ólafur Þór Hauksson, Ómar Ragnarsson, Páll Óskar Hjálmtýsson, Stefán Jón Hafstein, Sturla Jónsson, Þorgrímur Þráinsson, Össur Skarphéðinsson, Elísabet Jökulsdóttir, Halla Tómasdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Linda Pétursdóttir, Salvör Nordal og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Ekki man ég lengur hvað ég ætlaði að skrifa hér á eftir. Eitthvað var það held ég. En satt að segja er líklega svolítið hættulegt að birta þennan lista sem hér er fyrir ofan öðruvísi en strax, því hann gæti verið með öllu úreltur á morgun
Bloggar | Breytt 24.2.2016 kl. 21:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.2.2016 | 10:03
2424 - Stjórnarskráin
Horfðu á sjónvarpið í snjalltækinu þínu. Glymur í útvörpum og sjónvörpum um allt land þessa dagana. Hvers vegna í ósköpunum ætti maður að gera það? Er hægt að vera með sjónvarpssýki á hærra stigi? Stundum skilur maður aumingja auglýsendurna alls ekki. Annars er mér alveg sama í hvað peningunum er hent. Sérstaklega ef það er mér í hag.
Sennilega sameinar ekkert eins vel íhaldsöflin í landinu eins og að vera á móti öllum breytingum á stjórnarskránni. Þessvegna held ég að ekkert verði úr slíkum breytingum nú frekar en endranær. Þeir sem þykjast vilja breyta miklu munu eflaust svíkja á endanum eins og fyrri daginn.
Er aftur farinn að fara í smágönguferðir á morgnana. T.d. var í morgun (sunnudag) svolítill vindstekkingur og hálka á stöku stað. Fór í staðinn bara svolítið styttri leið en venjulega og var styttri tíma. Snjólétt er hér á Akranesi og víða alveg autt.
Heldur fækkar þeim sem taka þátt í kapphlaupinu um forsetaembættið í Bandaríkjunum og jafnframt aukast líkurinar á því á Donald Trump verði forsetaefni Repúblikana. Ef kosningarnar verða milli Trump og Clinton vonast ég að sjálfsögðu til að Clinton sigri. Úrslit í slíkum kosningum yrðu þó einkum prófsteinn á það hve hægrisinnaðir Bandaríkjamenn eru. Einnig gæti vaxandi andstaða við ríkjandi stjórnarfar ráðið úrslitum og þar ætti Trump að hafa vinninginn.
Að mörgu leyti stöndum við á herðunum á forfeðrum okkar. Ef þeir hefðu ekki haft það eins skítt og flest virðist benda til hefðum við það heldur ekki svona gott. Fannst þeim þeir hafa það mjög skítt? Held ekki. Höfum við það svona átakanlega gott? Um það má efast. Peningalega og efnahagslega kannski, en sálrænt séð sennilega ekki. Margur verður af aurum api. Líklega sannast það á okkur sem nú erum að drepast. Og ef til vill enn betur á þeim sem nú eru að vaxa úr grasi.
Aumingja Tinna. Hún klemmdi sig á millihurðinni hérna í gær sunnudag vegna þess að gegnumtrekkur myndaðist í húsinu. Ekki held að hún hafi slasast neitt alvarlega og ekki beinbrotnað við þetta, en afahjartað kipptist til þegar ég horfði á þetta gerast.
Nú er vetrarmyrkrið greinilega á undanhaldi. Í gær var t.d. að byrja að birta um áttaleytið. Hugsa sér. Það er hægt að telja það í vikum þangað til það verður bjart allan sólarhringinn. Og veðrið leikur við okkur þessa dagana þó ekki sé hægt að neita því að svolítið kalt er.
Ég segi það enn og hef sagt það áður: Framsóknarmenn eru ekki allir endilega svo slæmir. Það eru Sjálfstæðismenn og öfgahægrimenn sem eru hættulegir. Sumir án þess að gera sér nokkra grein fyrir því. En það er ekki von á góðu þegar þeir ráða jafnmiklu í ríkisstjórninni og raun ber vitni. Líklega er heldur ekki nokkur leið að fá Framsóknarmennina til að sjá villu síns vegar í núverandi ríkisstjórnarsamstarfi og ríkisstjórnin heldur eflaust áfram að gera axarsköft sín meðan þeir lúta stjórn Sigmundar Davíðs.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)