24.1.2014 | 10:11
2111 - Skákdagurinn er á sunnudaginn
Mér er sagt að sýslumaðurinn á Selfossi hafi hringt í lögfræðinginn útaf Ásgautsstaðamálinu. Kannski hefur það einhverja þýðingu, en þó er það ekki víst. Símtöl eru ódýr en geta samt skipt máli. Fundur er mögulega á næstunni. Læt þetta duga í bili.
Næstkomandi sunnudag (26. janúar) kl. 14:00 mun Helgi Ólafsson, stórmeistari í skák tefla fjöltefli í Borgarnesi. Það fer fram við Hyrnutorg, Borgarbraut 58 í Borgarnesi og þátttaka er öllum heimil og ókeypis í þokkabót. Sonur minn setti þennan viðburð á fésbók og ég veit ekki betur en þeim upplýsingum sem þar koma fram hafi verið dreift af mörgum. 26. janúar er afmælisdagur Friðriks Ólafssonar ef ég man rétt. (Hann verður áttræður á næsta ári.) Skákdagurinn er þann dag og þá er reynt er að kynna skák eins og mögulegt er.
Nú er mjög í tísku að spá falli fésbókar. Unga fólkið er að fara annað. Þetta er eins og næstum allt annað. Kemst í tísku. Verður ofurvinsælt. Úreldist og fellur í gleymsku. Ég er fastur í árans blogginu og kemst ekki þaðan. Fór hálfnauðugur á fésbókina á sínum tíma og hef aldrei kunnað við mig þar. Hlakka til að losna. Svanur Gísli skrifar ýmislegt um þetta og ég er alveg sammála honum: http://svanurg.blog.is/blog/svanurg/entry/1348865/
Byrjað er að veðja um hver verði ráðinn útvarpsstjóri. Sjálfur vildi ég helst sjá Stefán Jón Hafstein þar, en hann er víst ekki í réttum flokki svo hann kemur varla til greina. Hann er sá eini sem ég kannast eitthvað við. Bjarni nokkur Guðmundsson er sagður hátt skrifaður en ég held að hann sé útvarpsstjóri í viðlögum þessa dagana og hafi skrifað afsökunarbréfið til Austurríska sjónvarpsins um daginn á lélegri menntaskólaensku í staðinn fyrir á góðri þýsku sem þeir hefðu alveg átt skilið. Aðra kannast ég lítið sem ekkert við.
Það unga fólk eða unglingar sem kaupir sér hluti á raðgreiðslum og eignast þannig það sem hugurinn girnist er bara að leyfa þeim fyrirtækjum sem svona lagað stunda að festa í sig öngulinn. Auðvitað er það svo að með því að fara þessa leið er hægt að líta mun betur út í augum annarra og líða jafnvel betur sjálfum og græða í raun og veru sé verðbólgan nægilega mikil. Vitanlega er það fáviska hin mesta þegar sagt er að allir græði á því að verðbólgan sé lítil eða engin. Mikill fjöldi fólks græðir verulega á því að hafa hana sem mesta. Annars væri hún ekki.
Undanfarið hef ég verið að taka svolítið til í gömlu pappírsdrasli. Þar kennir margra grasa. Einhverntím hef ég verið fastur í neti fjárglæframanna, það sýna bréfin og áskoranirnar frá lögfræðingum allskonar. Fyrir eigin tilverknað (og kannski með hjálp annarra, jafnvel verðbólgunnar) hef ég smátt og smátt komist út úr því. Mikill léttir er að skulda ekki neinum neitt (að ráði a.m.k.) Í staðinn er kannski ekki hægt að veita sér eins mikið, en það gerir minnst til. Velmegunin felst aðallega í ístrunni. Þó maður taki hana kannski með sér í gröfina er ekki víst að hún fari lengra.
DV skrifar um netflix. Þeir sem vilja gerast áskrifendur að því geta farið á http://einstein.is/ . Nenni ekki að standa í því sjálfur því ég horfi hvort eð er ekki mikið á kvikmyndir. Á þar að auki flakkara og kemst aldrei yfir að horfa á allt sem þar er.
Í DV er líka (á pdf-skjali) bréf til Bubba frá G. Helgu Ingadóttur og ég ráðlegg öllum að lesa það. Ummæli Bubba um það bréf voru þannig eftir því sem DV segir: Ég er alls ekkert fúll yfir þessu en ég fékk smá ónot þegar ég fékk bréfið. Þá velti ég fyrir mér hvort þessi kona ætlaði að láta bloggherinn ræna af mér ærunni. Annars finnst mér þetta allt vera hluti af auglýsingu fyrir einhvern þátt sem á að fara að sýna á Stöð 2.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)