16.7.2013 | 15:42
2008 - Fóstureyðingar o.fl.
Tók í gærkvöldi þátt í fésbókarþrasi í athugasemdum hjá Sigurði Þór Guðjónssyni. Reifst þar m.a. við Pál Bergþórsson um fóstureyðingar. Hann hefur tileinkað sér pro-life skoðanir í því sambandi. Þær hef ég yfirleitt sett í samband við hægri öfl. Ef ég misskil málin ekki herfilega er grunnatriðið í slíkum skoðunum að lífið hefjist við getnað og fóstureyðingar séu morð. Því fer samt fjarri að ég haldi að Páll Bergþórsson sé hægri sinnaður eða líklegur til að framfylgja þessari skoðun sinni með ofbeldi eins og víða er gert. Þetta sýnir bara að hver hugsar fyrir sig og reynir að forgangsraða sínum skoðunum þannig að þær samræmist nægilega vel skoðunum einhverra stjórnmálasamtaka til þess að óhætt sé að kjósa þau. Enginn getur vænst þess að fá allar sínar óskir uppfylltar.
Ég er algjör andstæðingur Páls Bergþórssonar að þessu leyti. Tel t.d. að konur eigi sem mest að fá að ráða yfir líkama sínum sjálfar. Hægt er að rífast um þetta mál fram og aftur og tína til ýmis rök. Trúarskoðanir eru líklegar til að blandast í þau rök og þá er ekki að sökum að spyrja. Menn geta hæglega orðið æstari en góðu hófi gegnir. Algjört bann við fóstureyðingum hefur víða verið á undanhaldi síðustu áratugi og helst það að einhverju leyti í hendur við framfarir í læknavísindum og aukna menntun almennings.
Þessi skoðanaskipti á fésbókarsíðu Sigurðar Þórs hófust reyndar á deilum um dauðarefsingar. Þær eiga sér víða talsmenn þó ekki hefðu þeir sig mikið í frammi þarna. Flestir virtust vera þeim algjörlega andvígir og mest var deilt um hvort aldur skipti þar máli. Athyglisvert var að engar konur tóku þátt í þeim skoðanaskiptum sem fram fóru. Yfirleitt vantar þær þó ekki hjá Sigurði Þór.
Ég tel að Íslendingar eigi að ganga í ESB. Ég álít líka að greiða eigi þjóðaratkvæði um það mál. Eins og nú lítur út eru allar horfur á að slíkt yrði fellt. Mun auðveldara væri að sætta sig við að málið yrði fellt í þjóðaratkvæðagreiðslu en án hennar. Hvenær slík þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram finnst mér að löglega kjörin stjórnvöld (alþingi) eigi að ákveða. Þó ætti alþingi að ákveða einhverjar reglur um þjóðaratkvæðagreiðslur og gerir það e.t.v.
Sagt er að meirhluti þjóðarinnar vilji ljúka viðræðunum við ESB og greiða atkvæði um niðurstöðuna. (Og væntanlega fella hana). Sömuleiðis telja margir að meirihluti sé hjá þjóðinni fyrir breyttu fiskveiðistjórnunarfyrirkomulagi. Gallinn er bara sá að ekki er vitað hvernig það fyrirkomulag ætti að vera. Næsta öruggt er að mikill meirihluti styður þjóðareign á óveiddum fiski. Deilur þar snúast einkum um orðalag og lagaskilning.
Mér finnst allt kónga- og drottningastand verulega ógeðfellt. Svoleiðis er það bara. Ef ég byggi í landi þar sem væri kóngur, þá væri ég ákafur lýðveldissinni.
Að það séu meðfædd fríðindi í ákveðnum ættum að vera þjóðhöfðingjar og búa í höllum með þjóna á hverjum fingri og það líka í lýðræðisríkjum. Það er ekki bara tímaskekkja, heldur alveg absúrd. Og þetta tíðkast meira að segja á hinum frjálsu Norðurlöndum."
Segir Egill Helgason. Alveg er ég sammála honum þarna. Mér finnst ástandið samt fyrst og fremst hlægilegt. Þegar fríðindin eru farin að breiða úr sér til allra í ættinni hættir það kannski að verða hlægilegt og fer að skipta máli fjárhagslega. Hjá stórþjóðum er það hugsanlega afsakanlegt, en óþarfi er fyrir smáþjóðir að herma allskyns kónga og drottningarstæla eftir.
Snowden-málið er orðið æði fyrirferðarmikið. Gagnrýnin á Bandaríkjastjórn er mun harkalegri en venjulega. Hún er þó leyfð, en reynt er að gera hana óskaðlega. Ríkisstjórnir í svokölluðum vinaríkjum Bandaríkjanna skjálfa af hræðslu og gera allt eins og þeim er sagt. Meira að segja Rússlandsforseti er logandi hræddur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.7.2013 | 00:11
2007 - Anita
Mjög margir þeirra sem greiða atkvæði í kosningum hafa allsekki sérstakan áhuga á stjórnmálum. Það er samt engin ástæða til að kalla þá fávita eða eitthvað þaðan af verra. Þátttaka þeirra í kosningum er alltaf til góðs. Engin leið er að setja einhver skilyrði um þátttöku í þeim og hiklaust má gera ráð fyrir að stjórnmálaflokkarnir uppskeri í samræmi við það sem þeir hafa sáð til.
Um þau mál sem stjórnmálamenn geta alls ekki náð neinni samstöðu um má hafa þjóðaratkvæðagreiðslur. Stjórnvöld og stjórnmálamenn geta að sjálfsögðu haft margskonar áhrif á þær. Bæði hve algengar þær verði og úrslit þeirra. Mikilvægustu áköll hins almenna kjósanda um þessar mundir eru að þær verði algengari en verið hefur og að hrifsa völd um tilvist þeirra úr höndum eins manns með valdasýki.
Já, ég kaus Pírata í síðustu kosningum og sé ekkert eftir því. Í kosningabaráttunni hreifst ég mest af málflutningi Smára McCarthy og Birgitta Jónsdóttir hefur sýnt það í störfum sínum á alþingi að hún lætur ekki segja sér fyrir verkum. Er einfaldlega þingmaður af þeirri tegund sem hægt er að gera ráð fyrir að breyti í samræmi við sannfæringu sína en ekki annarra. Áhersla þeirra Pírata á mál sem snerta mannréttindi, upplýsinga og tjáningarfrelsi ásamt tölvusamskiptum hverskonar eru svo einskonar aukaplús fyrir mig.
Hugsanlega gæti náðst samstaða meðal þingmanna um fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslna. Forsetinn gæti varla neitað að undirrita slík lög. Samt gæti hann reynt. Þjóðin gæti þó sem best gert hann afturreka með það. Stundum dreymir mig satt að segja um atburðarás af þessu tagi eða svipuðu. En látum nú stjórnmálin liggja milli hluta. Þau eru hvort eð er í einskonar dái til hausts.
Anita Hinriksdóttir hefur alla burði til að verða millivegahlaupari á heimsmælikvarða. Yfirburðir hennar á heimsmeistaramóti unglinga í Úkraínu voru ótrúlegir. Hlaupastíll hennar er vissulega sérkennilegur og átakamikill, en eins og Ómar Ragnarsson segir gæti verið mjög varasamt að ætla að hrófla við honum. Annars veit hún sennilega sjálf miklu meira um hlaupastíl og þess háttar en ég. Vel mætti kalla mig hina dæmigerðu íslensku sófakartöflu, þó sennilega séu setur mínar við tölvuna meiri en yfir sjónvarpinu. A.m.k. hefur áhugi minn á íþróttum farið hraðminnkandi að undanförnu. Afrekskona sem Anita gæti þó breytt því.
Síðasta ríkisstjórn (Jóhönnu Sigurðardóttur) var áróðurslega séð mjög misheppnuð. Núverandi stjórn er sennilega áróðurslega séð fremur vel heppnuð, en efast má um stefnu hennar að öllu öðru leyti. Sjá, ég á afar erfitt með að segja skilið við þá örmu tík sem pólitíkin er. En nú er ég hættur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)