27.5.2013 | 23:35
1970 - Vigdís Hauksdóttir
Ég sé að mitt síðasta blogginnlegg hefur valdið nokkrum deilum milli Sigurðar Þórs Guðjónssonar og Jóhannesar Laxdal Baldvinssonar. Það er vel. Mér finnst þeir báðir hafa rétt fyrir sér. Hvor á sinn hátt. Svona getur nú verið erfitt að taka ákvarðanir. Jafnvel (og alls ekki síst) er hægt að túlka fangelsismál með tilliti til pólitíkur. Samkvæmt minni skilgreiningu er Sigurður talsvert vinstrisinnaður en Jóhannes til hægri. Stjórnmálaskoðanir geta vel haft áhrif á það hvernig á þessi mál er horft. Svo er vel hægt að blanda afskiptasemi ESB inn í þetta o.s.frv. o.s.frv.
Hef verið að lesa að undanförnu Spánarpósta eða bréf Þorsteins Antonssonar. Merkileg bók og persónuleg. Þar er hann meðal annars með ýmsar hugleiðingar um uppeldi sitt. Margt er þar vel athugað og kannski skilur hann sjálfan sig betur en flesta aðra. Tillit til annarra og að geta sett sig inn í hugsanagang þeirra er líklega einhver mikilvægasti og misskildasti allra mannlegra eiginleika. Grunnurinn að einhverfu og öllum afbrigðum hennar liggur sennilega þar. Einhverfa og Alzheimer eru tískusjúkdómarnir um þessar mundir. Spurningin varðandi alla sjúkdóma finnst mér vera að hve miklu leyti þeir eru líkamlegir og að hve miklu leyti andlegir.
Það er eiginlega alltof seint að koma sér upp persónuleika á þessum aldri. En svei mér ef ég hef ekki með Þorsteini komist í kynni við annan eins sérvitring og sjálfan mig. Sigurður Þór Veðurviti er einn til.
Þó það sé vafasamt þá finnst mér alltaf að ég sé hálfvegis að svíkja mögulega lesendur mína (sumir mundu segja hlífa í stað svíkja) ef ég sleppi því að blogga svotil daglega. Þó hef ég oft ekkert að segja og sumum finnst áreiðanlega að þetta sé bölvað bull hjá mér. Mér finnst ég þó ekki eins skuldbundinn til að blogga á hverjum degi einsog einu sinni var. Kannski eru þessi blogg hjá mér bara aðferð til að koma myndunum mínum á framfæri. Ha ha, þessi var góður. Þær eru reyndar alls ekkert góðar hjá mér og ég er bara búinn að venja mig á að láta mynd fylgja hverju bloggi.
Nú er talað um að afnema gjaldeyrishöftin í síðasta lagi í september næstkomandi. Af því það er svo margt annað sem á að gera í sumar er ég svolítið hræddur um að þetta viðvik gleymist. Kannski verða þó einhverjir til að minna á það. En gamanlaust þá held ég að sú tíð kunni að koma, jafnvel eftir nokkur ár, að nauðsynlegt verði að afnema gjaldeyrishöftin. Kannski þýðir það svona 50 til 100 prósent gengislækkun en þá verður bara að hafa það. Innflutt drasl hækkar þá eflaust í verði en LÍÚ kætist áreiðanlega.
Eiginlega ætti ég að setja hér eitthvað um Vigdísi Hauksdóttur. Ég hef bara engan áhuga á henni, þó fjölmiðlungar virðist hafa það. Sá ekki frétt um hana sem á víst að hafa birst á Stöð 2. í kvöld. Kannski set ég nafnið hennar samt í fyrirsögnina. Fyrst þegar ég heyrði að Eygló væri eina framsóknarkonan sem ætti að verða ráðherra og að Framsóknarflokkurinn ætti að hafa einum ráðherra færri en Sjálfstæðisflokkurinn hugsaði ég á þá leið að mikið legði Sigmundur á sig til að losna við að þurfa að gera Vigdísi að ráðherra. En það var bara ég.
![]() |
Komið yfir vitleysingastigið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)