1906 - Að læra af bloggi

Andstæðingar Jón Steinars, Davíðs Oddssonar og þeirrar klíku allrar saman eru æfir yfir því að Jóni skuli hafa verið hleypt í Kastljósið. Svo vildi til að ég horfði á þennan Kastljósþátt þar sem Jón Steinar þruglaði sem mest. Mér fannst þetta mál með öllu óáhugavert, en fylgdist samt með því og var mest hrifinn af því hvað Helgi hafði sett sig vel inní allar hliðar málsins og lét Jón Steinar svosem ekki komast upp með allt of mikinn moðreyk. Fréttamatið hjá kastljósfólkinu fannst mér oft afar skrítið en ég er vanur því. Ætlast engan vegin til að fréttamatið þar sé yfirleitt líkt mínu.

Menn eru nú sem óðast að jafna sig eftir lætin á alþingi í gær (mánudag). Held satt að segja að það komi í ljós í þessari viku eða í byrjun þeirrar næstu að búið er að semja um þinglok. Fjórflokknum hefur tekist (eða hann heldur það a.m.k.) að svæfa stjórnarskrármálið. Það getur þó blossað upp aftur og orðið ýmsum skeinuhætt í kosningabaráttunni sjálfri. Annars finnst mér rétt að nota það pólitíska hlé sem nú verður til að kynna betur stefnu flokkanna og komast til botns í því hve framboðin verða mörg o.þ.h. svo hægt sé að mæla þau í skoðanakönnunum.

Nú eru þingmenn komnir í málþófsgírinn aftur og reikna sýnilega ekki með því að neinir horfi á. Sennilega er búið að semja um þinglok o.þ.h. (Eða verið að því) svo það sem verið er að segja núna er bara fyrir þingtíðindin og til að hertaka ræðustólinn.

Það er þetta með „þjóðina“ og „alþjóðasamfélagið“. Mér finnst hvorttveggja jafnóskiljanlegt og notað af fullkomnu skeytingarleysi. Vil hvorki tilheyra þjóðinni né alþjóðasamfélginu. Hugsanlega er ég þó meðtalinn af þeim sem taka sér þessi málblóm oftast í munn. Þjóðaratkvæðagreiðslur er þó hægt að halda, en ekki alþjóðasamfélagsatkvæðagreiðslur. Aðallega virðast menn tala um alþjóðasamfélagið þegar verið er að sprengja einhverja í tætlur.

Með þjóðartalinu er aftur á móti verið að reyna að sprengja fjórflokkinn og aðrar valdaklíkur í tætlur. Eru þeir þá að framkvæma einhver hryðjuverk? Það finnst sumum. Er ekki tekin of mikil áhætta og stefnt að of miklum flokkadráttum með slíkri afstöðu? Það finnst mér.

Af hverju eru ekki alltaf allir að hugsa um það sama og ég? Mér finnst það vera það minnsta sem fólk getur gert. Þegar ég lít inn á fésbókina (sem er alltof oft) finnst mér það áberandi að fólk er að hugsa um allt mögulegt. Auðvitað fer það að einherju leyti eftir því að hverju ég er að leita, hvað ég finn.

Mér finnst það ansi mikið grunnstef í stjórnmálum hvort fólk er álitið fífl eða ekki. Í sumum bloggum er hamrað á því að fólk sé fífl. Það er ekki mín skoðun. Fólki er miseiginlegt að tjá sig í orðum, hvort sem þau eru skrifuð, töluð eða hugsuð. Það er samt enginn mælikvarði á gáfnafar þess. Vissulega getur vel verið að fólk sé misjafnlega gáfað og að jafnvel sé hægt að mæla það með einhverjum hætti. Hætt er samt við að sú mæling sé ónákvæm og mæli bara þá eiginleika sem höfundur mælikerfisins ákvað í upphafi.

Erfiðast af öllu í bloggi af því tagi sem ég stunda er að koma hlutum að. Einfaldast af öllu væri að blogga bara um það sem ég hef áhuga á. Það finnst mér samt vera alltof takmarkandi. Ég þykist jafnan vera að læra um leið og ég blogga. Sumir predika ævinlega þegar þeir eru að því, en ég hef ekki þá tilfinningu. Mér finnst ég læra mest sjálfur á því, sem ég blogga um.

IMG 2729Hús í Kópavogi.


1905 - Stjórnmál, blogg o.fl.

Já, ég kaus Borgaraflokkinn í síðustu kosningum og þannig má auðvitað segja að Þór Saari, Margrét Tryggvadóttir, Birgitta Jónsdóttir og Þráinn Bertelsson séu umboðsmenn mínir á alþingi. Þau réðu miklu um afdrif vantrauststillögunnar í dag. (Mánudag.) Ég er (eins og Birgitta Jónsdóttir) skíthræddur um að verið sé að semja um stjórnarskrána einmitt núna og sú tilraun dauðanum mörkuð. Held samt að mörg þeirra atriða sem þar eru frábrugðin núverandi stjórnarskrárákvæðum njóti mikillar hylli kjósenda.

Ég er þeirrar skoðunar, að meiri pressa verði á nýju alþingi, sem saman kemur í haust, ef það stendur frammi fyrir því, að samþykkja nýja stjórnarskrá eða hafna henni, en ef bara þarf að taka afstöðu til eins eða mjög fárra atriða (eða láta það alveg vera) eins og mér finnst tillaga ÁPÁ og félaga fjalla um.

Allar líkur eru á að einkum verði fjallað um stjórnarskrármálefni í þeirri kosningabaráttu sem í hönd fer. Mér finnst slagurinn standa um það hvort fjórflokkurinn (sem kallaður er) eigi að ráða eða fólkið. Vissulega eru álitamálin mörg, en mér finnst málið ekkert flókið. Fjórflokkurinn stendur saman um að reyna að fæla fólk frá því að kjósa útfyrir hann. 5% lágmarkið er sett af honum. Óþarfi er að láta slíkt fæla sig frá að kjósa samkvæmt bestu samvisku.

Sjálfur kem ég líklega til með að kjósa Píratana þrátt fyrir algjörlega misheppnað nafn. Þeir eru alls ekki talsmenn þess að fólk steli hugverkum, þó mælt sé með því að þau mál öll séu endurskoðuð. Mér finnst sá flokkur taka mun skynsamlegar en aðrir á byltingu þeirri sem internetið hefur valdið. Einnig er þar barist fyrir opnara samfélagi og vernd fyrir lítilmagnann. Það að Birgitta Jónsdóttir styður þann flokk hefur engin úrslitaáhrif á þessa skoðun mína.

Almennt eru tölur lygi. Við sjáum þetta vel ef ræður alþingismanna eru skoðaðar. Nefni þeir tölur máli sínu til stuðnings eru þeir næstum alltaf að blekkja eða ljúga. Auðvitað er hægt að ljúga án þess að nefna tölur og það er oft gert. Augljósast er þetta samt þegar menn hyggjast styðja mál sitt með tilvísun í einhverjar tölur og skýrslur. Kannski segi ég þetta bara af því að ég get aldrei munað tölur sjálfur og reyni frekar að styðja mál mitt með þverstæðukenndum fullyrðingum. Jæja, sleppum því.

Athugasemdir við bloggið mitt birtast fremur á fésbókinni en á blogginu sjálfu. Af þessu dreg ég þá ályktun að þeir sem heimsækja það komi fremur þaðan (eða af blogg-gáttinni), en af Mogganum sjálfum. Ég linka líka yfirleitt ekki í fréttir þar enda á ég erfitt með það því bloggin mín fjalla yfirleitt um hitt og þetta en það gera fréttaskrifin á mbl.is ekki. Stundum hef ég samt velt því fyrir mér hvort lesendum myndi ekki fjölga ef ég gerði það. Svo hef ég líka nýlega tekið uppá því að setja brot úr blogginu á fésbókina. Vona að engir hafi á móti því.

Helvítis Vísirinn. Hann uppnefnir mig og kallar mig „virkan í athugasemdum“. Það er argasta vanvirðing. Sennilega þýðir samt ekkert að fara fram á skaðabætur. Ég er þó allavega ekki virkastur þar. Hélt að ég slyppi.

Því fer fjarri að ég búi yfirleitt yfir „inside knowledge“ um pólitísk málefni. Vildi að ég gerði það. Þá mundi vera meira að marka þessi sífelldu stjórnmálaskrif mín. Má vera að samt sé alveg að marka þau að því leyti að ég er kannski að hugsa líkt og allir hinir andlitslausu kjósendur, sem sífellt er verið að höfða til.

IMG 2727Perlan o.fl.


Bloggfærslur 12. mars 2013

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband