1892 - Útvarp Saga

Kannski finnst sumum (mörgum) að það sem ég skrifa um stjórnmál sé tóm vitleysa. Við því vil ég bara segja það, að mér finnst ég megi alveg halda fram tómri vitleysu eins og aðrir. Hversvegna ekki? Ekki fæ ég styrk til þess frá ríkinu. Og ekki á ég útvarpstöð eða ræð yfir einni slíkri.

Ef þjóðin kýs yfir sig áframhaldandi spillingu og gróðabrall er fátt annað að gera en sætta sig við það. Vinstri stjórnin sem hér hefur setið í bráðum fjögur ár má eiga það að hafa að mestu komið okkur út úr erfiðleikunum sem Hrunið olli. Hún á þó allsekki að sitja áfram finnst mér. Ekki er heldur kominn tími til þess að sjálfstæðismenn stjórni hér öllu. Framsóknarflokkurinn var einu sinni sagður opinn í báða enda. Líklega er hann það ennþá. Raunar er eðlilegast að fjórflokkurinn allur fái frí. Á skoðanakönnunum er ekki að sjá að slíkt gerist. Ég vona þó að nýju flokkarnir nái nokkrum þingmönnum inn og hafi áhrif á næstu stjórnarmyndun.

Þetta sem sjálfstæðismenn eru að boða núna, að lækkaðir skattar auki skatttekjur getur vel staðist í ákveðnum tilfellum. Þó getur slík tilraunastarfsemi verið alltof dýru verði keypt. Það getur líka verið alltof dýrt að hækka skatta svo mikið að skatttekjur minnki. Það er bara svo flókið og mikið mál að gera tilraunir af þessu tagi. Mun heppilegra er að herma eftir nágrannaþjóðum sem hafa svipaða menningu eða einfaldlega stækka markaðssvæðið. (ESB).

Að sumu leyti er útvarp Saga orðið (orðin) afl sem reikna þarf með. Mér finnst merkilegt hvað Pétur Gunnlaugsson hefur náð langt. Ef hann getur verið í framboði með Þorvaldi Gylfasyni og Lýði Árnasyni þá er honum ekki alls varnað. Ég hélt alltaf að hann væri mikill hægrimaður, fyrrverandi framsóknarmaður og allt mögulegt.

Það þarf ekki lykilorð eða neitt slíkt til að skrifa athugasemd við bloggið mitt, enda nota óprúttnir andskotar sér það til þess að setja ómerkilega auglýsingalinka í kerfið. Athugasemdir hjá mér eru samt fremur fáar um þessar mundir. Stundum hafa þær þó verið alltof margar. Það er vandlifað í henni veröld.

Nú er Reykjavíkurskákmótinu lokið. Fór ekkert þangað að horfa á, en man að ég fylgdist vel með fyrsta Reykjavíkurskákmótinu sem var haldið í Lídó. Bjarni keppti á þessu móti og stóð sig ágætlega. Fékk 5 vinninga og vann m.a. Sævar Bjarnason með svörtu. Auðvitað segir það þeim sem ekki eru skákáhugamenn fremur lítið, en slíkum mönnum talsvert. Oft langar mig að skrifa um skák því það er sennilega það sem ég hef einna mest vit á. Sennilega er það samt fullsérhæft.

Fór á bókasafnið í dag og fékk meðal annars lánaða þar bókina „Bobby Fischer comes home“, sem er eftir Helga Ólafsson. Ekki tími ég að kaupa hana en las samt um daginn á kyndlinum mínum ævisögu Robert James Fischers eftir Frank Brady. Og fannst hún ágæt, þó hún væri allsekki gallalaus.

Sennilega er það of mikið fyrir mig að ætla mér að blogga næstum því á hverjum degi. Þó hefur mér gengið það furðanlega að undanförnu. Alveg er ég hættur að spara blogghugmyndir sem ég fæ. Í því efni læt ég hverjum degi nægja sína þjáningu. Ef mér dettur eitthvað sæmilegt í hug til að skrifa um þá læt ég það frekar flakka strax en að geyma mér það. Kannski er það þessvegna sem bloggið hjá mér er svona sundurlaust. Svo reyni ég að forðast að blammera aðra og kannski tekst mér það (stundum). Skyldi þessi markvissa og hnitmiðaða notkun á svigum vera orðinn partur af mínum stíl? (Ásamt spurningarmerkjunum sem ég gleymi oft ????) 

IMG 2639Súlur á glámbekk.


Bloggfærslur 28. febrúar 2013

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband