1885 - Verðtrygging

Á fésbókinni skrifar einhver (framsóknarmaður??) um að hann telji að eignamyndun hafi átt sér stað hjá sér, varðandi íbúðarhúsnæði, þó skuldin við íbúðalánssjóð sé hærri nú en upphaflega, vegna þess að húseignin sé miklu meira virði en hún var þegar hann keypti hana. Þessu er ég sammála. Þó mikið sé andskotast útí verðtrygginguna þessa dagana og látið í veðri vaka af pólitíkusum að hún sé upphaf og endir alls ills er hún í mínum huga aðeins annað nafn á vöxtum. Þegar verðtryggingunni er hallmælt sem mest er venjulega verið að deila á framkvæmd hennar og vísutölubindinguna. Pólitíkusar hafa haldið því fram að við hvorugu megi hrófla en það er mesti misskilningur og íhaldssemi.

Hingað til hefur munurinn á innláns og útlánsvöxtum (sem er mikill hér á landi) verið notaður til að styrkja bankana. Sú styrking var auðsjáanlega orðin alltof mikil í hruninu. Þetta er auðvelt að sjá eftirá. Misrétti í framkvæmd verðtryggingarinnar var einkum notað til að styrkja lífeyrissjóðina sem aftur voru látnir tryggja ríkisvaldinu möguleika á að hafa skatta tiltölulega lága með því að taka frá þeim skylduna til að greiða mannsæmandi ellilaun. Með því að stjórnvöld tryggðu síðan mikið eftirlitsleysi gátu útrásarvíkingar fengið aðgang að ódýru lánsfjármagni. Svo fór auðvitað sem fór og allt varð á skammri stund vonlaust.

Að halda því fram að setja eigi lög sem banna verðtryggingu er eingöngu að pissa í skóinn sinn. Það er vísitölubindingin sem er vitlaus og framkvæmdin á verðtryggingunni kann að vera það líka. Merkilegt þykir mér að það eru oft sömu stjórnmálamennirnir sem halda því fram að allt sé ómögulegt hjá ESB (Icesave o.fl.) og vilja svo nota einhverja tilskipun þaðan til að losna við verðtrygginguna og útvega sér um leið fáein atkvæði.

Undanfarið hafa einhver Jón Geir og María Ýr stundað það að setja linka á ómerkilegar auglýsingar í athugasemdakerfið hjá mér og ekkert annað. Ekki veit ég hver þau eru og hef engan áhuga á að vita það. Aðallega setja þau óorð á þessi nöfn og kannski eru það ekki einu sinni lifandi verur sem gera þetta. Ef þessu heldur áfram og versnar kannski, mun ég að sjálfsögðu kæra þetta til Moggabloggsguðanna. Þeim ber skylda til að sjá um að svona lagað gerist ekki.

Kannski er helsti gallinn á blogginu mínu að það fjallar ekki um neitt ákveðið efni, heldur fer það sem ég blogga um bara eftir því á hverju ég hef áhuga í það og það skiptið. En ég hugsa bara svona og get ekki að því gert.  Þykist vera allgóður stílisti en oft er það svo að ég finn að ég veit ekki nærri nógu mikið um það sem ég leiðist útí að skrifa um.

Fullyrðingar Jónasar Kristjánssonar og margra fleiri um að „fólk sé fífl“  og tal um gullfiskaminni og þess háttar, ber vott um hroka. Mér finnst ég vera laus við þesskonar hroka en allsekki er víst að allir samþykki það. Upplifun hvers og eins er sannleikur hans og staðreyndir skipta oft litlu máli. Með því að forðast umtal um þær hliðar mála sem vafasamar eru má oftast leiða talið að öðru. Mín skoðun er einfaldlega sú „að fólk sé ekki fífl“. Hæfileikar hvers og eins beinast samt að sjálfsögðu í mismunandi áttir og fífl eru til.

IMG 2590Skipsmódel.


1884 - AMX

Þann níunda desember 2008 hef ég skrifað eftirfarandi:

Vefmiðlar spretta upp eins og gorkúlur á haugi um þessar mundir. AMX er einn kallaður. Ekki hef ég hugmynd um fyrir hvað þessir stafir standa. Frá stofnun hefur þessi vefur verið fremsti fréttaskýringarvefur landsins eftir því sem sagt er í hausnum. Þetta er skrýtinn vefur og ekki gott að átta sig á honum. Hægrisinnaður er hann þó örugglega og mótfallinn EU-aðild. Meðal fyrstu  pistlahöfunda á þessum óviðjafnanlega fréttaskýringarvef má nefna Jónas Haraldsson, Styrmi Gunnarsson, Óla Björn Kárason, Björn Bjarnason og Bjarna Harðarson.

Við þetta er litlu að bæta. Kjaftasögurnar þar eru kallaðar „fuglahvísl“ og með því er sennilega verið að vitna í þýska talsháttinn „Das hat mir ein Vogel gesagt“. Annars kann ég afar lítið í þýsku og kannski er þetta tóm vitleysa hjá mér.

Enn er fuglahvíslið á AMX við sama heygarðshornið. Sá þar eftirfarandi um daginn þó ég lesi bullið þar afar sjaldan. Þar var verið að vitna í forstjóra Landsvirkjunar og í hugleiðingum AMX er sagt að hann hljóti að hafa skipt um skoðun. (Eins og hann megi það ekki.)

Við teljum að fjármögnun í gegnum fjármálastofnanir muni ganga eftir á næstu vikum ef tekst að ljúka Icesave-deilunni. [...] Út frá hagsmunum fyrirtækisins tel ég það afar jákvætt að leysa þetta Icesave-mál. Þetta mun örugglega auðvelda okkur fjármögnun, og þá ekki bara fyrir Búðarháls heldur fyrir öll önnur verkefni sem við erum með í skoðun. Lausn þessa máls hefði líka jákvæð áhrif á lánshæfismat fyrirtækisins og íslenska ríkisins sem myndi hafa jákvæð áhrif á aðgengi að fjármagni fyrir öll íslensk fyrirtæki.

Samkvæmt skoðun AMX (eða fuglanna þar) er EFTA-dómurinn semsagt ekki lausn.

Í sannleika sagt held ég ekki að Framsóknarflokkurinn eigi sér viðreisnar von í komandi kosningum og Sjálfstæðisflokkurinn vinnur varla þann sigur sem flokksmennirnir vonast eftir. Fráfarandi stjórn á heldur ekkert gott skilið og fær það nánast örugglega ekki. Nýju flokkarnir hljóta þá að vera helsta vonin. Hvernig þeir skipta atkvæðunum á milli sín á alveg eftir að koma í ljós. Annars eru stjórnmálin svo óljós að ég ætla að hætta að hugsa um þau núna.

Samkvæmt frétt http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/02/18/vid_aettum_ad_eiga_bestu_skolana/ sem ég var að lesa á mbl.is fá 27,5% grunnskólanemenda á Íslandi sérkennslu. Ekki veit ég hvernig þessi tala er tilkomin en mér finnst hún ansi há. Gefið er í skyn í greininni að vel væri hægt að minnka þetta í svona 5% og mér þætti gaman að vita hvort reyndir skólamenn eru sammála þessu. Sé svo er augljóst að núverandi grunnskólastefna er stórgölluð og mikil þörf á að lagfæra hana. Kannski er þetta bara innlegg í Katrínarsönginn í Hádegismóum en ég vil samt ekki trúa því að komandi kosningar komi þarna við sögu.

IMG 2584Málverkasýning.


Bloggfærslur 19. febrúar 2013

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband