24.11.2013 | 20:26
2080 - Er fólk fífl?
Auðvitað er það hvers og eins að ákveða hvort honum finnst að fólk sé fífl eða ekki. Einna best er að finnast svo ekki vera, en ákveða samt, með sjálfum sér, að maður sé bestur í heimi (eða einhverjum öðrum hópi) í sem allra flestu. Bæði er það vissast og svo kemur það auðvitað í veg fyrir vanmat. Heimspekilega spurningin um það hvort fólk sé fífl eða ekki og sú spurning, sem snýr innávið og fjallar um það hvort í gangi sé gagnvart sjálfum sér vanmat eða ofmat og á hvaða sviðum þá helst, eru þær spurningar sem mér þykja á margan hátt vera merkilegastar alls. Allir þurfa sífellt að velta þeim fyrir sér og gera áreiðanlega á sinn hátt.
Auðvitað er hægt að koma hugsun sem þessari að á margan hátt. Minn háttur er bara svona. A.m.k. að þessu sinni. Samband fólks við aðra er það sem mestu máli skiptir, því maðurinn er félagsvera. Fjölskylduböndin eru hjá flestum eitt það sterkasta afl sem til er. Fjölskyldur í dag eru reyndar oft svo flókin og margbrotin fyrirbrigði að fyrir ókunnuga getur verið mjög erfitt að átta sig á þeim. Fordæming á öðrum sem hugsa á ólíkan hátt er einnig mjög algeng. Þjóðernisofstopi og útlendingahatur getur sem hægast verið sprottið af slíkum rótum. Einmanakennd og að finnast maður ekki tilheyra neinum hópi, getur verið grunnur margrar sálfræðilegrar truflunar.
Trúmál geta sem hægast blandast inn í þetta allt og gera mjög oft. Þessvegana eru þau næstum alltaf afar vandmeðfarin og stutt getur verið í fordæminguna og þar með illvilja og afskiptasemi. Nútímatækni hefur líka gert margskonar samskipti mun auðveldari og fyrirhafnarminni en áður var. Auðvitað eru þessi samskipti oft yfirborðskennd, en samskipti eru það engu að síður. Nú er ég orðinn svo hátiðlegur að líklega er best að hætta.
Sérstakt app eða forrit eins og við gamla fólkið köllum fyrirbrigðið, hefur verið fundið upp til að fólk geti ekki séð athugasemdirnar (kommentin á nútímaíslensku) sem settar eru við greinar í vinsælum fjölmiðlum. Pöpulinn mætti kannski kalla þetta venjulega fólk, sem kommentin skrifar. Ég er þó ekki vel að mér í þeirri tungumálalegu endurskoðun og enskuást sem nú á sér stað. Auðvitað vill elítan ekki að pöpullinn sé að skipta sér af málum. Nógu slæmt er að þurfa að lyfta með atvinnusköpun undir rétta og slétta blaðamenn.
Pólitík ruglar fólk oft í ríminu. Hún verður stundum að nokkurs konar trúarbrögðum eða kreddufestu og getur þá orðið hættuleg. Áhrif hennar er erfitt að mæla. Bæði er hætta á ofmati og vanmati. Sama má segja um mörg þau stjórnmálalegu atriði sem hæst ber á hverjum tíma. Oftast er hægt að tala sig niður á skynsamlega niðurstöðu. Þó ekki alltaf. Ef trúmál og pólitík blandast of mikið saman er veruleg hætta á ferðum. Kaldhæðni verður svarið hjá mörgum, en hún leysir engin vandamál. Ekki er hægt að skemmta sér til ólífis og geðveiki er ekki eftirsóknarverð. Allt sem ekki samræmist þeim þjóðfélagslegu normum sem í gildi eru virðist gjarnan fá geðveikistimpil.
Já, pólitíkin er á margan hátt mannskemmandi. Vissulega ljúga pólitíkusar manna mest. Það vita allir. Mér finnst það nú samt langt gengið þegar SDG sakar menn um það fyrirfram að ætla að ljúga. Kannski er hann bara að breiða fyrirfram yfir það sem hann ætlar að ljúga. Hingað til hef ég ekki orðið var við að hann ljúgi minna en aðrir. Björt framtíð er að stela Pírataflokknum, segir annar Davíð. Vitanlega er það lygi líka.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)