22.10.2013 | 21:19
2061 - Um Gálgahraun, ríkisstjórnina o.fl.
Ég fellst umyrðalaust á þá röksemd hraunavina að þessi framkvæmd (Gálgahraunsvegur) sé óþörf eins og á stendur. Sagt er að skipulagið sem þessi vegagerð er byggð á sé frá 1995. Hafi hún einhverntíma verið eðlileg og knýjandi er hún það alls ekki núna þegar veruleg þörf er á að spara og velta fyrir sé hverri krónu (eða milljón) sem eytt er af skattfé okkar. Hverra hagsmuna er verið að gæta með þessum ofbeldisaðgerðum vegagerðarinnar?
Jafnvel þó reynt sé að breyta Gálgahrauni í Garðahraun getur vel farið svo að atburðirnir þar verði kveikjan sem lengi hefur vantað. Það er að segja alveg síðan núverandi ríkisstjórn tók við í vor. Vinstri menn munu áreiðanlega reyna að koma henni frá. Ef ekki með góðu (þ.e.a.s aðstoð alþingis) þá með illu. (Alþingi götunnar) . Vel má búast við öngþveiti og jafnvel ólátum víða því stjórnmálabaráttan hefur breyst mikið eftir Hrun. Augu margra hafa opnast en þó ekki nærri allra. Þessvegna er ekki ljóst hvernig þetta allt saman fer. Hægri menn reyndu ýmislegt til að torvelda fyrri ríkisstjórn störf sín og tókst oft ágætlega upp. Ekki gátu þeir samt hrakið hana frá völdum. Vinstri menn standa sig oft betur í slíkum málum og gætu vel hrakið núverandi stjórn í burtu.
Ætlast er til að þeir standi sig sem sú illa skipaða ríkisstjórn sem nú situr hefur verðlaunað með óumbeðnum dekurgjöfum. Þeir eiga að sjá til þess að pólitískum jámönnum fækki ekki mikið. Ýmislegt bendir samt til að þeim hafi mistekist það. Það hatur á núverandi ríkisstjórn sem óvinir hennar blása sem ákafast í um þessar mundir getur hvenær sem er blossað upp sem óviðráðanlegur eldur. Hingað til hefur ríkisstjórnin ekki látið sér segjast hvað sem í boði hefur verið. Varla heldur hún því áfram. Friða verður fólkið. Eftirgjöf er vel hægt að búast við. Vel skipulagt og undirbúið undanhald er miklu betra en skilyrðislaus uppgjöf.
Mér finnst það nokkuð gott hjá Elísabetu Jökulsdóttur að koma sér upp Nóbelskjól. Kallar geta látið sér jakkaföt nægja, eða leigt sér smóking, en því er ekki að heilsa með kvenfólkið. Er þetta óréttlæti köllunum að kenna eins og flest annað? Ég bara spyr af því ég veit það ekki. Einfaldast er auðvitað að mæta bara ekki. Gott fyrir sjálfsálitið líka.
Rætt er um fegursta og ljótasta orðið í íslenskri tungu. Mér finnst ekki rétt að tala um slíkt. Orðin eru bara tæki og merking þeirra breytist við notkun. Hvort orðið er fagurt eða ljótt fer eftir svo mörgu. Til dæmis hugarfari notandans og hvaða orðum það stendur með. Ef þessi fíflagangur er aðallega til að vekja fólk til umhugsunar um notkun orða er það samt vel afsakanlegt. Orðin eru nefnilega á undanhaldi. Myndirnar, einkum þó hreyfimyndirnar, eru í þann veginn að taka yfir. Kannski ekki í tjáningu milli manna en allavega þó í fjölmiðlun. Það er hægðarleikur að segja allt mögulegt án þess að nota orð. Nýjustu kynslóðirnar eru sífellt að ná betri tökum á myndmálinu og tök þeirra á orðunum eru að versna í samræmi við það.
Einhverntíma var í sjónvarpinu frétt um að ákveðinn hundraðshluti (sem ég man ekki hver var) íslensku þjóðarinnar yrði fyrir beinbrotum á hverju ári. Ég er nú svo undarlega innréttaður að ég sá fyrir mér beinbrotahríð mikla og mannfjölda sem fyrir henni varð. Nýlega var líka auglýsing í sjónvarpinu, þar sem sagt var frá því að rannsóknir sýndu að beinþynning væri mikið vandamál hér á Íslandi. Sennilega var hún frá MS. Ekki er alveg víst að allir hafi gert ráð fyrir að mikil mjólkurdrykkja mundi ráða bót á því vandamáli þó starfsmenn mjólkursamsölunnar hafi eflaust haldið það.
Var að sortera smápeninga. Hundraðkalla má vel nota. Fimmtíukalla líka. Tíkalla í hallæri en aftur á móti er spurning með fimmkallana. Krónupeningum er best að henda. Auðvitað er samt vel hægt að fara með krónurnar og fimmkallana í bankann og leggja þar inn eða taka út í seðlum.
![]() |
Hvar er ráðherra? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.10.2013 | 00:07
2060 - Með útsýni til tunglsins - Gálgahraun o.fl.
Allir sem sjá blessað tunglið öðru hvoru út um gluggann hjá sér eru með stórfenglegt útsýni hvort sem þeir gera sér grein fyrir því eða ekki. Enginn sér það alltaf. Ömurlegt er að sjá bara gluggann á næsta húsi. Í þannig hótelherbergi hef ég dvalið. Fannst líka skrítið í hitabeltinu að sjá tunglið beint fyrir ofan mig og snúa þar að auki vitlaust. Sólskin er mörgum mikilvægt þó dagsbirta nægi öðrum. Maður einn var spurður að því hvort væri mikilvægara sólin eða tunglið. Ja, tunglið skín stundum á nóttinni, en það er hvort eð er alltaf bjart á daginn þegar sólin er að glenna sig og lítið gagn að því.
Skyldi mér, með þessu sífellda bloggmali mínu, takast að sannfæra einhverja um að ég hafi stundum rétt fyrir mér. Heldur þykir mér það ólíklegt. Samt er það ekki óhugsandi. Flestir þeirra sem sannfæra mig (yfirleitt bara í smástund að vísu ) með malinu í sér (munnlegu eða skriflegu) gera það í lengra máli. Skoða eina hugmynd frá ýmsum sjónarhornum. Forðast samt þau sjónarhorn sem mæla á móti hugmyndinni eins og eðlilegt er. Sjálfum finnst mér ég vera ákaflega stuttorður og gagnorður, en er það sennilega ekki. A.m.k. tekst mér aldrei að blogga mig tóman. Oft er ég í besta stuðinu eftir að vera nýbúinn að senda einhverja speki frá mér út í eterinn.
Á flestan hátt er Jónas Kristjánsson fyrrverandi ritstjóri mitt idol í blogginu. Hann er stuttorður og gagnorður. Vinsæll og víðlesinn. Fróður og vel að sér. Samt vildu kjósendur hann ekki á stjórnlagaþing. Ég er svolítið hissa á því. Stundum er hann auðvitað óþarflega harðorður. Ómar Ragnarsson er líka góður. Skortir samt yfirsýnina sem Jónas hefur. Of mikill náttúruverndarmaður og bílaáhugamaður fyrir minn smekk. (Jónas er of mikill hestamaður.) Báðir of sérgóðir og alvarlegir í bloggum sínum. Skil ekki af hverju Páll Vilhjálmsson fær alltaf svona marga lesendur á Moggablogginu. Hann er nokkurskonar viðbót við mbl.is og er bara að hjálpa krökkunum þar með einhverri ESB-þvælu. Þegar Dabbi hættir sem ritstjóri breytist Mogginn í helsta stuðningsblað ESB. Það er ég alveg viss um. Hugsanlegt er líka að hann verði einskonar deild í teboðshreyfingunni bandarísku (altsvo Mogginn). Þó finnst mér það ólíklegt.
Nú er mánudagskvöld. Eiginlega er ekki hægt að blogga að neinu gagni nema taka einhverja afstöðu til atburðanna í Gálgahrauni. Ég hef ekki hingað til verið fyllilega sannfærður um að hraunið það arna sé nægilega merkilegt eða málið nógu afgerandi til að láta svona. Kannski er það samt vitleysa og aumingjaskapur hjá mér. Einhversstaðar verður að setja ofbeldismönnum stólinn fyrir dyrnar. Get samt ekki að því gert að mér finnst þetta ekki rétta tilefnið. Að velja rétta tilefnið er alveg bráðnauðsynlegt. Öðruvísi verður ekki hægt að koma sitjandi ríkisstjórn frá völdum. Það hljóta samt allir góðir menn að vilja. Óvissan sem því gæti fylgt er samt afleit fyrir okkur ellibelgina.
Vissulega er þetta blogg í styttra lagi. Það verður bara að hafa það. Vegna Gálgahraunsmálsins er nauðsynlegt að koma þessu frá sér sem fyrst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)