2057 - Höfundarréttur

Um það var talað á sínum tíma að gera Ísland að fjármálahöfuðborg heimsins. Með öðrum orðum að skattaskjóli. Þar er samkeppnin afar hörð og hefur verið það lengi. Tök banka, alþjóðlegra stórfyrirtækja og forréttindastétta allskonar á ríkisstjórnum eru eitthvað að bila. Þó er engin ástæða til að halda að almenningur nái að brjóta af sér hlekkina. Hið vestræna skipulag er komið til að vera og engin leið að kasta því fyrir róða án þess að eitthvað komi í staðinn.

Get ekki að því gert að mér finnst „norðurslóðar“ og „olíusöngurinn“ vera af svipuðum meiði og skattaparadísin var áður. Held að draumurinn um hana hafi horfið með Hruninu. En ég er bara svo gamall, tortrygginn og gagnrýninn á allt og alla að ég sé skrattann og ára hans skellihlæjandi í hverju horni.

Það er sennilega alltof mikið skrifað á fésbókina. Ég er þó ekki með nema rúmlega 500 fésbókarvini, en skelfing hljóta innleggin að skruna hratt hjá þeim sem eru með 5000. Skilst að það sé hámarkið. Ég fæ orðið fleiri athugasemdir við fésbókarauglýsinguna mína (sem ég gleymi þó stundum) en við bloggið sjálft. Æ, hættu nú þessu fésbókar- og bloggtuði veit ég að þig langar að segja. Og ég er meira að segja að hugsa um að verða við því.

En hvað á ég þá að skrifa um? Ég sem hef sérhæft mig í að blogga um blogg. Stjórnmálablogg eru vinsæl, segirðu. Já, ég get náttúrulega reynt að spá einhverju um væntanlegt stjórnmálaástand. Og svo eru fréttabloggin mjög góð. Þau hafa þann kost hér á Moggablogginu að auðvelt er að linka í fréttirnar. Kannski fá menn þá fleiri lesendur en þeir mundu annars fá. Muna það. Einu sinni linkaði ég heil ósköp, en er alveg hættur að nenna því.

Jú, ég get svosem bloggað um höfundarréttarmál. Af hverju skyldi fólk ímynda sér að bara vegna þess að „eigendur flutningsréttar“ fá ótakmarkað rými í ríkisfjölmiðlunum, þá hljóti allt að vera háheilagur sannleikur og best fyrir alla, sem þeir hafa að segja. Ég trúi bara ekki Baltasar Kormáki og Páli Óskari því þeir eiga mikilla hagsmuna að gæta í þessum málum. Nennti ekki einu sinni að horfa á Kastljósið í gærkvöldi. Get vel ímyndað mér hver boðskapur þeirra hefur verið.

Allir með strætó, allir með strætó
enginn með Steindóri
því hann er soddan svindlari.

Var einu sinni sungið. Nú ætti líklega að syngja: Allir með Smáís, allir með Smáís.....

Flugvallarmálið hefur verið blásið mikið upp að undanförnu. Aðallega held ég að það byggist á vel heppnaðri undirskriftasöfnun. Rökin eru mjög vafasöm. Held að þetta mál verði dautt og grafið þegar kemur að borgarstjórnarkosningunum næsta vor. Tímasetningin hafi semsagt verið vitlaus þó allt annað hafi heppnast vel. Kannski var bara verið að stíla inn á prókjör sjálfstæðismanna. Ég er bara ekki nógu hagvanur þar til að sjá hverjum þetta kemur til góða. Gísli Marteinn fældist þó allavega.

IMG 4179Tjaldur á steini.


Bloggfærslur 15. október 2013

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband