20.1.2013 | 21:21
1858 - Prag
Það eru bara 2 góðir ræðumenn á alþingi um þessar mundir. Þeir heita Steingrímur J. Sigfússon og Össur Skarphéðinsson. Og það er alveg sama hve miklu moldviðri og einelti framsóknarmenn og sjálfstæðismenn beita, þeir komast ekki framhjá þeirri staðreynd.
Reyndar er alveg óvíst að það skipti nokkru máli varðandi önnur störf hversu góðir ræðumenn þeir eru. Jóhanna Sigurðardóttir er t.d. nokkuð séður stjórnmálamaður en það er Bjarni Benediktsson alls ekki. Ég hélt lengi vel að Illugi Gunnarsson væri gáfaður, en missti alla trú á honum þegar hann tók upp málþófsstælana fyrr í vetur. Held að talsverð breyting verði á alþingi eftir næstu kosningar, en að öðru leyti finnst mér ekki taka því að tjá mig mikið um stjórnmálaástandið.
Það sem mig langar mest til í sambandi við bloggið er að einbeita mér að einhverju ákveðnu og sjá kannski einhvern árangur af því. Það er bara ekki í boði því mér finnst svo gaman að láta móðann mása um allt mögulegt. Þó finnst mér þeim málum fara sífellt fækkandi sem ég hef raunverulegan áhuga á. Áður fyrr hafði ég áhuga á næstum öllu.
Mest langar mig til að skrifa um bækur. Það er bara svo erfitt því fyrst þarf að lesa viðkomandi bók upp til agna (sem getur tekið talsverðan tíma) og svo er alls ekki víst að það taki því neitt að skrifa um hana. Og ef það tekur því, þá tekur það svo langan tíma að kannski er best að sleppa því. Jæja þetta er nú að mála skrattann á vegginn.
Bókin sem ég var að lesa í dag (og undanfarið) heitir Under a cruel star. A life in Prague 1941 1968 og er eftir Hedu Margolius Kovály. Afar eftirminnileg bók. Hún lendir í útrýmingarbúðum nasista en tekst að flýja og komast til Prag aftur. Giftist kommúnista sem nær nokkuð langt, en er svo svikinn og tekinn af lífi. Hún heldur samt áfram að lifa við sífellt þrengri og þrengri kost og flýr að lokum frá Prag árið 1968. Ein allra eftirminnilegasta setningin úr bókinni er þessi:
Everyone assumes it is easy to die but that the struggle to live requires a superhuman effort. Mostly, it is the other way around. There is, perhaps, nothing harder than waiting passively for death. Staying alive is simple and natural and does not require any particular resolve.
Af einhverjum ástæðum hef ég enn ekki getað slitið mig frá Moggablogginu. Er einhvernvegin ekki tilbúinn til að taka stökkið. Hræddur um að þeir sem vanir eru að lesa það sem ég skrifa finni mig ekki og leiti lítið að mér. Íhaldssemin er líka kostur. Mogginn er reyndar alveg hættur að sinna bloggurum eins og hann gerði einu sinni. Mér er sama. Það þarf ekkert að sinna mér. Gott að hafa samt einhverja sem eru tilbúnir til þess ef á þarf að halda. Hef ennþá ekkert borgað fyrir að fá að vera hérna nema einn þúsundkall fyrir aukið myndapláss.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.1.2013 | 00:33
1857 - Vigdís Hauksdóttir
Finnst svolítið lélegt af Vigdísi Hauksdóttur að vera sífellt að þessu eineltistali. Hún verðfellir raunverulegt einelti með þessu. Menn taka hana ekkert meira fyrir en hún gefur tilefni til. Er það þá ekki einelti líka þegar sífellt er verið að núa Þráni Bertelssyni því um nasir að hann þiggi margföld laun frá ríkinu? Jú, hann reiðist en ég hef ekki heyrt hann kalla það einelti. Eða þegar verið er að tala um Ásmund Einar og ferðalag hans til framsóknar? Er það ekki einelti? Eða það sem sagt er um Össur Skarphéðinsson? Nei, það þýðir ekkert að vera sífellt að gagnrýna aðra (oft með heimskulegum rökum) en væla svo sífellt um einelti ef sá málflutningur er gagnrýndur. Stjórnmálamenn þurfa þykkari skráp en það.
Það er reyndar íslenskur plagsiður að fara fremur í manninn en boltann. Þannig er það bara og því verður ekki breytt í einu vetfangi. Síst í svona litlu samfélagi eins og okkar. Ég get alveg viðurkennt að oft er hún gagnrýnd persónulega þegar nær væri að ráðast gegn sjónarmiðum hennar. Hún er samt ekkert ein um þetta. Stjórnmálamenn virðast oft fremur verða fyrir barðinu á þessu en aðrir.
Hingað til hef ég tekið talsvert mark á skrifum Þorsteins Pálssonar um ESB. Nú verð ég víst að hætta því. Hann er orðinn að mestu óskiljanlegur í þeim skrifum sínum. Annars verður eflaust forvitnilegt að fylgjast með flokkunum hvað þetta mál varðar í aðdraganda kosninganna. Fjórflokkurinn er allur í þeirri stöðu að enginn þar getur útilokað stuðning við aðild og alls ekki lokað öllum dyrum. Kosningarnar munu einkum snúast um aðild og niðurstaða þeirra mun verða afgerandi. Stjórnarskráin verður sett útí horn og látin hírast þar.
Jú jú, þetta blogg er í styttra lagi en mér er sama um það. Auðvitað gæti ég skrifað eihverja langloku, en nenni því bara ekki. Ætti reyndar að skrifa um eitthvað af þeim bókum sem ég les. Verst að ég klára þær svo sjaldan. Er yfirleitt búinn að fá leið á þeim löngu áður þein lýkur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)