16.1.2013 | 23:55
1854 - Davíð
Mér finnst viss skaði að það skuli ekki lengur vera útrásarvíkingarnir sem eru helsta bitbein hinnar pólitísku rétthugsunar. Það eru greinilega barnaníðingar sem hafa stolið glæpnum af þeim. Alla sem hugsa öðruvísi en ég kalla ég pólitískt rétthugsandi. Einkum þá sem eru til vinstri. Þá sem eru hægra megin við mig kalla ég yfirleitt öfga-hægrimenn. Þannig er það bara. Allir verða að fara í réttar skúffur. Annars er á illu von. Pólitískt séð virðast margir hugsa svona. Þessvegna er svona leiðinlegt að skrifa á þennan hátt. Gaman að lesa skrifin samt. Einkum ef skrifarinn er með svipað skúffusystem og maður sjálfur.
Ekki það að barnaníðingar eigi ekki skilið flest þau óvægnu skrif sem á þeim dynja þessa dagana. Ég er hræddastur um að þetta valdi því að hætt verði (nema af sérstökum) að elta ólar við víkingabesefana. Þeir eru líka svo margir og afbrot þeirra svo illskiljanleg að best er að hætta þessu veseni. Blöð eins og DV mega ekki orðinu halla þá eru þau lögsótt. Kærurnar dynja á þeim og sumar eru staðfestar af dómstólunum, enda er blaðið nánast á hausnum.
Svo fara kosningar víst að nálgast. Æ, þetta er hálfleiðinlegt. Vildi að það væru bara nokkrir dagar í kosningar. Það sem líklega verður mest spennandi núna á næstunni er formannskjörið í Samfylkingunni. Held samt að Guðbjartur vinni þó þeir sem um þetta skrifa virðist flestir vera á bandi Árna Páls.
Vont er að skrifa um það sem maður á að skrifa um og hefur verið sagt að skrifa um. Óvíst er að það skipti nokkru máli þó maður hafi sagt sér það sjálfur. Það þýðir nefnilega ekkert að ákveða fyrirfram hvað maður ætlar að blogga um. Langbest er að blogga bara um það sem manni finnst skemmtilegt að skrifa um. Eftir að búið er að skrifa er ágætt að lesa það yfir sem skrifað hefur verið. Þá má alltaf stroka það út sem heppilegra er að sleppa. Greinilega er ómögulegt að skrifa of mikið. Alltaf er hægt að eyða því sem maður hefur skrifað um of eða fela það ef maður er hræddur um að enginn nenni að lesa það.
Við ellilífeyrisþegarnir erum áreiðanlega talsvert öfundaðir af þeim sem þurfa að vinna uppá næstum hvern einasta dag. Það er samt margt sem kemur á móti þessum ímynduðu gæðum lífsins. Allt gengur miklu hægar og í ofanálag þurfum við svo að horfa framá það að æfin styttist sífellt. Kannski eru líka allskyns sjúkdómar að hrjá okkur og við erum ekki nærri eins fljót og áður að hrista veikindi og þessháttar af okkur. Margt fleira mætti tína til og það er ekkert sérstakt að mega sofa út á hverjum degi. Það hættir undireins að vera eitthvað spennandi. Ef heilsan er góð og ekkert amar að er þó auðvitað hægt að nýta sér þetta seinfengna happ sem fólgið er í því að þurfa ekki að vinna. Eiginlega eigum við það alveg inni að slappa svolítið af .
Já, ég er orðinn gamall og hef mest gaman af því að skrifa um allan fjandann. Réttara sagt samt að blogga því ég get ekki hugsað mér að vera að fást vikum og mánuðum saman við sama textann.
Skilst að Davíð Oddsson hafi haft eitthvað við stjórnarskrárfrumvarpið að athuga. Það er hugsanlega sumt rétt hjá honum. Mér finnst farið með of miklum látum í það mál. Verst að enginn tekur, að ég held, mark á Davíð lengur. Hef ekki trú á að stjórnarskrármálið komist samt í gegn á þessu þingi. Ekki verður heldur neitt ákveðið varðandi ESB fyrir kosningar. Steingrímur virðist svo ætla að sjá til þess að útvegsmenn fái allar sínar kröfur uppfylltar í kvótamálinu. Sorglegt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.1.2013 | 03:40
1853 - Noroveira í dularbúningi
Ef ég fer eftir mínum Moggabloggstölum þá var svolítil lægð í blogglestri um jól og áramót en glæddist svo aftur í byrjun janúar. Ekki veit ég af hverju þetta stafar, en svona virðist þetta vera. Auðvitað eru mínar aðsóknartölur ósköp takmarkaðar, en kannski eru þær samt sem áður vísbending.
Er samfélagið að verða of flókið? Já, á margan hátt, en e.t.v. er hægt að leysa það með réttri notkun tölvtækninnar. Gúgli er einhver sá besti besservisser í heiminum ef rétt er farið að honum. Það má spyrja hann um ótrúlegustu hluti. Samt er það svo að margir treysta allt of mikið á hann. Skilninginn vantar. Án lágmarksskilnings á því sem spurt er um er til einskis spurt.
Afleitt finnst mér að láta hann ráða stafsetningu. Kannski er það bara af því að ég er sæmilegur í stafsetningu sjálfur. Hugsanlega er hann eins afleitur í mörgu öðru. Þekking og vitneskja um ótrúlegustu hluti er styrkur hans. Hvernig fær hann þá vitneskju? Nú, hjá mér og þér. Kóngulóin hans fer um allt á netinu og raðar því efni sem þannig fæst eftir sínu höfði og er öskufljót að finna það aftur ef spurt er. En gerir Gúgli nokkurn greinarmun á vitlausum upplýsingum og réttum? Það held ég nefnilega að hann geri ekki. Þar með er hann orðinn ómarktækur, eða hvað?
Hlutirnir gerðust einkum á Fáfengistöðum, einn og einn þó á Stökustað.
Á kyndlinum mínum var ég áðan að lesa bók sem gefin hafði verið út árið 1896. Hún heitir: History of Astronomy og höfundurinn er George Forbes. Þó höfundurinn finni Astrologíunni felst til foráttu og telji hana vera meiri háttar vitleysu sem engir nema fávitar og rugludallar trúi á get ég ekki séð annað en bókin fjalli aðallega um stjörnuspeki. Auðvitað las ég ekki bókina en reyndi að fletta í gegnum hana og sá ekki neitt sem minnti á stjörnufræði.
Þetta minnir mig á að ég var að lesa baggalút um daginn og verð að viðurkenna að mér líst vel á kenninguna um að Færeyingar séu hrifnir á háskerpukjötinu.
Ég er að hugsa um að hætta í bili, enda er þetta fjandans nóg. Mér líður orðið eins og hverri annarri noroveiru sem kærð hefur verið fyrir kynferðislegt ofbeldi. Svo það er líklega best að fara að sofa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)