11.8.2012 | 22:59
1736 - RAAM (Race Across America)
Á Íslandi koma að meðaltali út einar fjórar til fimm bækur á dag. Vissulega er það mikið en hvað ætli megi þá segja um heiminn allan? Mig sundlar við tilhugsunina. Hef ekki hugmynd um hve margar bækur koma út á ensku á hverjum degi. Kyndillinn minn gæti þó kannski komist að því vegna þess að hann er í beinu sambandi við Amazon sem dreifir ansi miklu af bókum. Svo gæti ég auðvitað spurt Gúgla eða Wikipedíu.
Nýjasta bókin sem ég hef verið að skoða þar (Á kyndlinum, ekki Amazon) er frásögn af árlegri hjólreiðakeppni sem á margar hátt er ekki síður athyglisverð en Tour de France. Bókin heitir Hell on two wheels og er eftir Amy Snyder. Keppnin nefnist RAAM (Race Across America) http://www.raceacrossamerica.org/raam/raam.php?N_webcat_id=1 og þó hún sé yfir þver Bandaríkin vekur hún alls enga athygli fjölmiðla eða áhorfenda. Framkvæmd hennar er líka gjörólík þeirri frönsku einkum vegna þess að hjólreiðakapparnir stoppa ekki á kvöldin heldur halda stöðugt áfram og tíma jafnvel ekki að sofa að neinu ráði.
Þó keppnin sé ekki nema 3000 mílur (Tour de France er lengri) er hún á margan hátt einhver erfiðasta keppni sem um getur og tekur flesta a.m.k. svona 10 til 11 daga. Amy Snyder (höfundur bókarinnar) hefur sjálf t.d. margoft tekið þátt í járnkarlskeppni (Ironman triathlon) http://ironman.com/events/ironman/#axzz23EYefWf1 og þykir ekkert sérstaklega mikið til slíkrar keppni koma hvað þol og erfiði snertir.
Fyrir nokkrum árum gerði sjónvarpsstöð keppninni einhver skil og áhugi vaknaði þá fyrir henni en hann er svotil alveg horfinn núna.
Að lesa í láréttri stöðu. Langmest af mínum lestri þessa dagana fer fram í Kindle Fire tölvunni minni. Mér þykir líka langbest að lesa í láréttri stöðu. Þ.e.a.s. liggjandi í bælinu. Fullklæddur er ég þó oftast við það og ligg ofan á sænginni og rúmteppinu. Að halda á tölvunni þó hún sé ekki nema hálft kíló er það erfiðasta við lesturinn. Auðvitað má sem hægast hafa handaskipti eða breyta takinu á tölvunni en samt má búast við örlitlum þreytuverk nálægt olnboganum. Oftast ligg ég á bakinu við lesturinn og vitanlega mætti lýsa lestraraðferðinni í meiri smáatriðum. Læt þetta þó nægja í bili.
Stjórnarmyndun eftir næstu kosningar kann að snúast einkum um það hvort Sjálfstæðisflokknum tekst að innbyrða framsóknarflokkinn eða ekki. Þegar ég segi innbyrða á ég við það hvort þeim takist að fá framsóknarflokkinn til að mynda ríkisstjórn með sér. Þá geri ég semsagt ráð fyrir að úrslitin verði á þann veg að núverandi stjórnarandstaða (Sjálfstæðisflokkur og framsóknarflokkur) fá meirihluta þingsæta.
Það er þó enganvegin víst. Aftur á móti er nokkuð víst að Sjálfstæðisflokkurinn fær ekki hreinan meirihluta. Þeir flokkar sem nú standa að ríkisstjórninni fá líklega heldur ekki meirihluta. Framsóknarflokkurinn og smáflokkar sem kunna að verða myndaðir áður en kemur að kosningum kunna því að verða í lykilstöðu.
Já, nú er ég greinilega kominn langt framúr sjálfum mér. Kosningabaráttan er öll eftir. Svo er ekki einu sinni vitað hvenær kosningarnar verða. Nýir flokkar kunna að verða stofnaðir og gætu e.t.v. sópað til sín fylgi. Svo eru öll prófkjörin eftir. Já, pólitíkin er leiðinda tík.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.8.2012 | 01:54
1735 - Flippaðar fullyrðingar
Allt orkar tvímælis þá gert er. Þetta er mjög áberandi varðandi byggingar. Nefna má Perluna, Ráðhús Reykjavíkur, Óseyrarbrúna, Þjóðarbókhlöðuna, Hringbrautarvitleysuna o.s.frv. Þegar frá líður þykja þessar byggingar mjög góðar og í mesta lagi er hægt að halda því fram að ráðist hafi verið í þær á röngum tíma. Svipað verður vafalaust með tímanum hægt að segja um Hörpuna, Hátæknisjúkrahúsið og Vaðlaheiðargöngin. Sagt er að allir vildu Lilju kveðið hafa.
Óspart er nú vitnað til Einars Þveræings og Grímseyjar þegar Núpó málið ber á góma, þó ekki sé hægt að segja að málin séu sambærileg. Smám saman snýst þetta svo yfir í venjulega þjóðrembu og verður að lokum að röksemd í ESB-deilunni. Sú deila verður áberandi og kann að skipta verulegu máli í næstu alþingiskosningum. Getur jafnvel haft mikil áhrif innan flokkanna og á prófkjörin sem e.t.v. hefjast strax í haust eða vetur. Ekkert bendir samt til að af inngöngu verði að þessu sinni.
Hættið að blogga og komið á fésbókina, þar er fjörið, sagði rithöfundurinn Sigurður Þór Guðjónsson fyrir nokkru á Moggablogginu, en nú virðist hann vera á fésbókinni öllum stundum og setja þar fram flippaðar eða fréttatengdar fullyrðingar á statusinn sinn. Einhver hirð er þar sem mjög oft svarar honum. Mér finnst líka eins og ég þekki hann, þó ég hafi aldrei hitt hann, en skrifa ekki oft á fésbókina hans. Hann er eiginlega jafnmikill holdgervingur Meistara Þórbergs og Davíð Oddsson er eftirmynd De Gaulles sáluga.
Ofgnótt fjölmiðlunar. Það er engum ætlandi að fylgjast með öllu þvi netblaðri, blöðum, bókum, ljósvakamiðlum o.s.frv. sem á boðstólum er. Það er ekki einu sinni möguleiki að fylgjast sæmilega með því sem áhugi manns beinist að hvað þá öðru. Svo koma Ólympíuleikarnir ofaná allt þetta og vinnan einnig hjá þeim sem á þeim aldri eru. Það er eins gott að ég skuli vera hættur að vinna. Samt næ ég ekki að fylgjast með nærri því öllu sem ég gjarnan vildi.
Jarðbundinn og fúll. Já, það er ég. Hvernig á eiginlega að vera öðruvísi og er það æskilegt? Eiginlega er allt öðruvísi en það ætti að vera. Ekki mundi ég hafa heiminn svona ef ég væri Guð. Samt er flest í einhverju undarlegu samræmi við allt annað.
Verð líklega að fara að lesa dánarfréttir enda ætti ég að vera orðinn nógu gamall til þess. Las um það á bloggi Önnu Kristjánsdóttur að Gaggi Mikk væri dáinn. Um daginn var líka jörðuð hér í Reykjavík dóttir Erlendar Magnússonar frá Eldborg í Hveragerði, en hann kannaðist ég dálítið við frá æskuárum mínum og dóttir mín þekkti vel þessa dóttur hans. Yfirleitt frétti ég seinastur manna um svona lagað og reyni eftir mætti að forðast jarðarfarir. Kemst þó líklega ekki hjá að mæta í mína eigin þegar þar að kemur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)