1688 - Óþarft embætti

x25Gamla myndin.
Frá Reykjavíkurhöfn.

Auðvitað er forsetaembættið óþarft með öllu. Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands hefur, ásamt núverandi stjórnarandstöðu, samt sem áður komið því inn hjá allmörgum að nauðsynlegt sé að hann (ÓRG) sé áfram forseti til að hægt sé að komast hjá aðild að hinu illa Evrópusambandi. Það er alveg sama hve óskynsamleg slík skoðun er, það er hún sem að líkindum mun fleyta honum í forsetaembættið komist hann þangað einu sinni enn.

Það vill svo til að ég er fyrirfram hlynntur því að við göngum í ESB, en vil samt að slíkt verði aðeins gert ef samningar þeir sem að líkindum nást við sambandið verða nægilega hagstæðir Íslendingum í þeim málum þar sem raunverulega er hægt að búast við að samið verði um frávik frá venjulegri stefnu bandalagsins vegna sérstöðu landsins og þjóðarinnar.

Engar áhyggjur hef ég af því að stjórnmálamenn (Samfylking og aðrir) reyni að koma okkur í ESB án þjóðaratkvæðagreiðslu. Líklegast er að inngangan verði felld. Það öryggi gegn aðild sem sumir virðast finna í stuðningi við ÓRG er augljós blekking. Hann kemur ekki til með að hafa nein áhrif á úrslit þess máls. Þjóðaratkvæðagreiðsla sem fram færi samkvæmt núgildandi stjórnarskrá væri þó aðeins ráðgefandi. Þannig er stjórnarskráin bara.

Í beinu framhaldi af þessari skoðun minni finnst mér forsetaembættið vera algjör tímaskekkja ef sæmilega er frá því gengið í stjórnarskrá að þjóðin sjálf geti krafist bindandi atkvæðagreiðslu um þau mál sem miklu skipta.   

Er um þessar mundir að lesa bók um tilurð fyrstu bókar ýmissa amerískra rithöfunda. Einkum er þar rætt um skáldsögur. Flestar eru þær óskaplega langar enda hafa amerískir höfundar mikið dálæti á slíku. Bókin sem ég er að lesa heitir „How I wrote my first book – The Story behind the Story“ Ég fékk hana ókeypis á kyndlinum mínum.

Þar kemur margt fróðlegt fram. Eiginlega dregur sá lestur talsvert úr mínum rithöfundardraumum. Svo virðist sem það sé mjög átakamikið að skrifa bók og bloggið sé miklu þægilegra. Þar er hægt að einbeita sér að því að skrifa ekki meira en hæfilegt er. Engin þörf semsagt að sitja við og ná ákveðnum orðafjölda á hverjum degi eins og margir Bandarískir rithöfundar virðast gera. Einnig er hægt að losna strax við það sem skrifað er og gleyma því síðan. Þannig getur bloggið verið sem einskonar skrifborðsskúffa. Samt geta aðrir lesið það sem skrifað er og stundum fær maður viðbrögð strax.

Hvort sem þau viðbrögð eru jákvæð eða neikvæð geta þau gert mikið gagn. Þau sannfæra mig um að það sem ég skrifa hreyfir við einhverjum. Er það ekki draumur allra sem eru með rithöfundarbakteríuna? Svo er líka hægt að gera þetta að einskonar vísnasafni því ég hef oft gaman af því að setja saman vísur. Líka hef ég stundað það að setja vísur í kommentaplássið hjá öðrum bloggurum. T.d. man ég eftir einni sem ég setti eitt sinn í kommentakerfið hjá Baldri Kristjánssyni. Man að hún byrjaði svona: Séra Baldur segir að..... Þegar ég var á Akranesi um daginn setti ég líka saman eftirfarandi vísu:

Í lazybojnum ligg ég
löðrandi í sól.
Arka þannig einn veg
eins þó komi jól.

Nei, það er ekki til Lazyboy-stóll hér á heimilinu þó latur ég sé. Legg mig í staðinní í hjónarúmið hvenær sem því verður viðkomið. Bý þó um fyrst.

IMG 0262Graffiti, eða hvað?


1687 - Stjórnarskráin gallaða og mótsagnakennda

x21Gamla myndin.
Á flugsýningu. Mér er minnisstætt að Þorsteinn Hannesson (12 eða 13 ára) reiknaði í snatri út í huganum afsmellihraðann á myndavélinni miðað við hreyfinguna á hreyflunum, þegar hann sá þessa mynd.

Það sem mér þótti athyglisverðast við kappræðuþáttinn á Stöð 2 um daginn en ég hef þó ekki skrifað um áður svo ég muni er það sem Ólafur Ragnar og Þóra sögðu um þingrofsréttinn. Ólafur sagði hann vera hjá forsetanum en Þóra að hann væri hjá forsætisráðherranum.

Svo einkennilegt sem það er hafa þau eiginlega bæði rétt fyrir sér. Almennt séð er hann tvímælalaust hjá forsætisráðherra (nema um annað sé samið) Hægt er þó að hugsa sér að forseti geti neitað sitjandi forsætisráðherra um að rjúfa þing (formlega séð þarf nefnilega atbeina hans) við sérstakar aðstæður. T.d. ef öruggt er að meirihluti þings er því andsnúinn.

Sú staða gæti komið upp að á þetta reyndi. Forsetaefnin ættu e.t.v. að ræða um sýn sína á bæði málskotsréttinn og þingrofsréttinn. Minni hætta er á ágreiningi um önnur atriði þó formlega séð sé stjórnarskráin sem nú er farið eftir óttalegur bastarður að þessu leyti.

Þó vissulega séu margar hliðar á stjórnarskránni og forsetaembættinu fell ég ekki frá því að mér finnast forsetakosningarnar litlu máli skipta miðað við margt annað. T.d. er núna óljóst hvernig kvótamálið fer þó trú mín sé sú að um það verði samið og LÍÚ muni gefa talsvert eftir. Stjórnarskrárkosningarnar verða að líkindum í haust og trú mín er sú að þar muni þjóðin samþykkja að nota stjórnarskrárfrumvarpið sem grundvöll að nýrri stjórnarskrá. Hinsvegar er ekki líklegt að í þessari atrennu verði innganga í  ESB samþykkt.

Með upptöku nýrrar stjórnarskrár sem vel gæti orðið á næsta eða þarnæsta ári má segja að embætti forsetans breytist töluvert. Það er þó ekki rétt hjá Ólafi Ragnari að þau auki völd hans og a.m.k. mundi aðkoma hans að stjórnarmyndunum hverfa með öllu.

Embættið ómerkilega
allir nú tala um.
Forsetinn ætti að vera
á skítugum stígvélum.

Þegar deilan um fjölmiðlalögin stóð sem hæst árið 2004 orti einhver eftirfarandi vísu um Ólaf Ragnar Grímsson. (Ég man ekki hver það var en get komist að því)

Vanhæfur kom hann að verkinu.
Vigdís plantaði lerkinu.
Hvert barn má sjá
að Bónus hann á.
Það er mynd af honum í merkinu.

Betur hefur ekki verið ort um þá atburði sem urðu það sumarið.

Þó bókarhöfundar séu miklu fleiri meðal minna nánustu (2) er ekki laust við að ég sé farinn að líta á mig sem rithöfund. Bækurnar eru að vísu núll ennþá og ég hef bara bloggið til að stæra mig af. Það er samt þónokkuð og það góða við það er að hægt er að senda hvaða vitleysu sem manni dettur í hug samstundis út í eterinn. Hann (eterinn) er samt ekki til en áður trúðu menn því að ljósvaki væri efni sem til væri þó engin leið væri að finna það.

Orðið lifir samt góðu lífi og margur maðurinn talar um ljósvakamiðla án þess að skammast sín. Sjálfur skammast ég mín samt dálítið þegar útlendingar halda því fram að Íslendingar trúi allir á álfa og drauga.

Eini maðurinn sem ég veit til að skrifi af skynsemi um næstum yfirskilvitleg efni er Stephen Hawking. Að hugsa sér að hann skuli vera orðinn sjötugur þrátt fyrir alla sína fötlun er líka ástæða til að skammast sín töluvert.

IMG 8356Kanínubúr.


Bloggfærslur 5. júní 2012

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband