1598 - Kyndilmessa

Untitled Scanned 27Gamla myndin.
Svanur Kristinsson frá Svarfhóli.

Já, skákdagurinn var í gær 26. janúar vegna þess að Friðrik Ólafsson á afmæli þann dag. Fékk boð um að mæta á Toyota-skákmótið en var annað að gera og komst ekki þó stutt væri að fara. Gott ef það var ekki einhver snjór þegar Toyotamótið var haldið í fyrra. Veit ekki hvort ennþá eru einhverjir dagar ófráteknir fyrir eitthvað sérstakt. Bóndadagurinn er víst liðinn en konudagurinn kannski ekki. Man ekki eftir þessu öllu saman. Mæðra- feðra- systkina- frænda- og frænku-dagurinn eru eflaust líka til, fyrir nú utan öll samtökin sem hafa helgað sér einhvern ákveðinn dag. Skákin er að byrja á þessu núna og ekkert nema gott um það að segja. Man þó ekki hvenær fótboltadagurinn er.

Veðurvísur eru til um Pálsmessu og Kyndilmessu og ég held að ég kunni þær báðar. Pálsmessa tel ég að sé liðin og hafi verið 25. janúar en Kyndilmessa er líklega 2. febrúar n.k. Vísurnar eru svona:

Ef heiðskírt er og himinn klár
á helgri Pálus messu.
Mun þá verða mjög gott ár
mark skal taka á þessu.

Og hin:

Ef í heiði sólin sest (eða sést)
á sjálfri Kyndilmessu.
Snjóa vænta máttu mest
maður upp frá þessu.

Ekki held ég að mikið sé að marka þetta og vel getur verið að vísurnar séu vitlausar hjá mér. Hæfileg forneskja ætti ekki að skaða. Vísur þessar þekkja margir.

Búast má við öflugum flokkadráttum um Landsdómsmál Geirs Hilmars Haarde. Afgreiðsla þess máls getur vel orðið ríkisstjórninni skeinuhættara en flest sem hingað til hefur á daga hennar drifið. Ég hef samt alltaf verið þeirrar skoðunar að hún myndi ekki sitja út kjörtímabilið. Hvort alþingiskosningar verða nú í vor (auk forsetakosninganna) veit ég auðvitað ekki frekar en aðrir. Hugsanlegt er það samt.

Sagt er frá því á mbl.is að sannað sé að Eiríkur rauði hafi getað bruggað mjöð á Grænlandi því fundist hafi leifar af korni í fjóshaug frá hans tíð; síðan segir orðrétt á mbl.is:

Ætlunin er að flytja um 300 kíló af fjóshaugnum til Danmerkur til frekari rannsókna.

Þó það nú væri. Sennilega er þetta með merkustu fjóshaugum í heimi.

IMG 7816Trjágróður.


Bloggfærslur 27. janúar 2012

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband