25.1.2012 | 13:41
1596 - Glærumálið mikla o.fl.
Gamla myndin.
Þetta er líklega Hanna á Eiðhúsum.
Ég verð bara að segja það. Mér finnst stóra glærumálið hálfasnalegt. Að heilt háskólasamfélag skuli geta verið undirlagt svona vitleysu svona lengi er bara einum of mikið. Hugsanlegt er að einhverjir kannist ekki við þetta mál, en það er samt ótrúlegt. Til öryggis vil ég taka fram að í sem allra einfaldastri mynd fjallar það um glærur sem notaðar voru við kennslu í Háskóla Íslands og félagsskapinn Vantrú sem kvartaði undan efni glæranna.
Harpa Hreinsdóttir hefur nú hafið skrif á greinaflokki um málið. Þessar greinar eru í lengra lagi og svarhalarnir ógnarlangir. Vissulega kemur margt athyglisvert þar fram en fyrr má nú rota en dauðrota. Að kynna sér allt sem skrifað hefur verið um þetta merkilega mál er áreiðanlega á einskis manns færi. Þó held ég að Harpa hafi farið langt með það. Greinar hennar þrjár (eða fleiri) um þetta mál sem þegar eru komnar hef ég lesið og er samt ekki sammála sjónarmiðum hennar, en það yrði alltof langt mál að fara nánar út í það hér.
Mér varð það á fyrir nokkru að samþykkja að Óli Gneisti Sóleyjarson notaði bækur sem ég hafði ásamt börnum mínum komið fyrir á vef Netútgáfunnar og kæmi þeim fyrir á rafbókavef sínum. Þetta var áður en ég vissi nokkuð um glærumálið mikla. Já, svona illa upplýstur var ég þá. Harpa Hreinsdóttir, sem stundum eða oftast nær, les bloggið mitt, m.a. vegna þess að hún er gift systursyni mínum, spurði mig með þjósti nokkru, í athugasemd á blogginu mínu, hvað það ætti að þýða að veita manni sem honum slíkt leyfi. Mér fannst hún með þessu sýna nokkra fordóma og fara með þessu frekar í manninn en boltann eins og stundum er sagt. Um þetta hef ég ekki meira að segja og finnst ég nú þegar hafa skrifað alltof mikið um málið.
Um daginn fjallaði ég eitthvað um dægurlagið um Bjössa á mjólkurbílnum sem geysivinsælt var fyrir löngu. Auðvitað kom svo í ljós að lagið er erlent þó textinn sé íslenskur. Öðru lagi man ég líka eftir þó dægurlög séu mér yfirleitt ekki ofarlega í huga. Textinn við það lag byrjar einhvern vegin svona: Ég er glöð og ég er góð, því Jón er kominn heim. Kannski er lagið líka erlent en ég man eftir því að textinn þótti mér nokkuð góður þegar ég heyrði hann fyrst. Nú orðið finnst mér hann samt frámunanlega lélegur og fordómafullur. Ekki einu sinni fyndinn. Kannski hef ég breyst og kannski hafa viðmiðin öll í þjóðfélaginu breyst. Hvað veit ég.
Eva Hauksdóttir skrifar oft ágæta pistla á netið. Hvet menn til að kynna sér það sem hún skrifar. Ekki hef ég þó í hyggju að endursegja efni einhverra þeirra, en þeir eru yfirleitt góðir.
Auðvitað er mikið rætt um Landsdómsmálið manna á meðal. Í grunninn álít ég það mál vera enn eina tilraun stjórnarandstöðunnar til að koma höggi á ríkisstjórnina. Kannski á hún það skilið og kannski er þetta besta ráðið til slíks. Með þessu móti klofnar þingflokkur VG og ríkisstjórnarsamstarfið gæti verið í hættu. Kannski hafa Guðfríður Lilja, Atli Gíslason og Ögmundur Jónasson rétt fyrir sér með það að ákæran hafi í raun verið pólitísk; en af hverju er það fyrst að koma í ljós núna? Hefði ekki verið hægt að útkljá þetta mál fyrir löngu? Ég endurtek bara það sem ég hef áður sagt um þetta mál, að mér finnst málflutningur hins óánægða VG-fólks minna á prinsessustælana í ævintýrunum; frekar engan en þann næstbesta!!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)