1489 - Mótmælin á Austurvelli

Takist þeim öflum sem nú reyna og reynt hafa undanfarið að koma núverandi ríkisstjórn frá með stjórnmálalegum aðferðum ekki ætlunarverk sitt næstkomandi laugardag tekst þeim það aldrei. Þá verður hún við völd eins lengi og flokkarnir sem að henni standa ætla sér. Það verður reyndar ekki alveg út kjörtímabilið vegna þess að flokkarnir eru alls ekki sammála um eitt meginstefnumálið, sem er aðildin að ESB. Held að aðdragandi þess að stjórnin fari frá verði ekki mótmæli á Austurvelli heldur eitthvað allt annað.

Það er ekki ónýtt að hafa yfirlesara eins og Ellismell. Það var hann sem tók strax eftir því um daginn að ég nefndi Jón Ósmann Jón Austmann. Nú í gær tók hann líka undireins eftir því að ég minntist ekkert á hver orti vísuna góðkunnu um heimska gikkinn. Gúgli segir að hún sé eftir Benedikt Gröndal eldri en ekki Hallgrím Pétursson. Og eiginlega er hún bara hálf. Framhaldið er svona:

Góðmennskan gildir ekki,
gefðu duglega á kjaft.
Slíkt hefir, það ég þekki,
þann allra besta kraft.

Hlustaði í dag á þá Jón Orm Halldórsson og Ævar Kjartansson ræða við Stefán Jón Hafstein, sem mér fannst komast vel frá öllu sem hann sagði. Ef Guðmundur Steingrímsson, Jón Gnarr, Ómar Ragnarsson og Stefán Jón Hafstein sameinast í einum og sama flokki í næstu alþingiskosningum mun ég áreiðanlega kjósa þann flokk. Hef samt ekkert fyrir mér nema eigin ímyndun um þessháttar flokk. Sagt hefur þó verið í fréttum að Jón Gnarr (eða menn honum tengdir) og Guðmundur Steingrímsson hafi verið að tala saman um pólitískt samstarf í næstu kosningum.

IMG 6689Blóm að deyja.


Bloggfærslur 29. september 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband