19.9.2011 | 21:00
1480 - Um strámenn og besservissera
Ég blogga núna eingöngu þegar mér sýnist og bara um það sem mér sýnist. Mér sýnist ekki að blogga nema takmarkað um hrunið. Það er svo margt annað athyglisvert í veröldinni.
Kannski hefur hrunið í október 2008 bara orðið okkur til góðs. Það er ekkert sjálfsagt mál að lifa hér almennilegu lífi á hjara veraldar. Kannski sjáum við betur núna hin raunverulegu verðmæti. Peningar og græðgi hafa engin áhrif á þau.
Það er náttúran og allt sem henni tengist sem eru hin raunverulegu verðmæti. Auðvitað getum við enn betur notið hinna náttúrulegu verðmæta ef við erum södd og ósjúk og hugsanlegt er að kommúnisminn sé hið eina rétta form mannlegrar tilveru, þó Sovétmönnum hafi mistekist herfilega að koma honum á.
Mikið er fjasað um hrunið og er það eðlilegt. Mín skoðun á því sem gerðist er aðallega sú að þau lífskjör sem ríktu hér á landi árin fyrir hrun hafi verið lygi. Það er ekkert eðlilegt við það að lifskjör hér á landi séu miklu betri en annarsstaðar. Viðleitni margra (jafnvel flestra) hefur beinst að því undanfarið að leiðrétta þessa lygi og koma á eðlilegum lífskjörum á Íslandi. Auðvitað kemur mönnum ekki saman um hvernig það skuli gert. Þar að auki fóru landsmenn mjög misjafnlega illa útúr hruninu. Hrunið er nú að verða eðlilegt stjórnmálafyrirbrigði. Kosningar leita mjög í gamla farið. Þó nýtur fjórflokkurinn svokallaði líklega minna fylgis en áður.
Lára Hanna Einarsdóttir minntist á strámenn og tilurð þeirra á fésbókinni. Vísaði þar í skilgreiningu og umfjöllun Gísla Ásgeirssonar um efnið. Hann hafði skrifað greinina Strámenn Íslands og m.a. vitnað þar í Finn Þór Vilhjálmsson í því sambandi. Finnur sá hafði bloggað á blogspot.com og þar er ýmislegt að finna. M.a. hefur hann skrifað smásögu um Frímann einhvern og kveikjan að þeirri sögu hefur verið grein eftir Hannes Hólmstein Gissurarson um vændi og klám. Sagan um Frímann er langdregin með afbrigðum. Svo langdregin að ég gafst upp við lesturinn og spurði Gúgla frænda um nafnið Finnur Þór Vilhjálmsson og komst þá að því að lögfræðingurinn Finnur Þór Vilhjálmsson (sem hlýtur að vera sami maðurinn) hefur verið einn af aðstoðarmönnum Sannleiksnefndar Alþingis við gerð skýrslunnar frægu sem oft er vitnað til.
Hvers vegna er ég að tíunda þetta? Veit það svosem ekki. Sumir virðast vera jafnvel enn meiri besservisserar en ég. Ættfræðin er mér meira og minna lokuð bók en ég er þó þeirrar skoðunar að orsakir hrunsins fræga séu m.a. þær að yfirstéttin og útrásarvíkingarnir (já, eiginlega stjórnvöld öll) hafi klúðrað málum hrikalega í oflæti sínu, gerræði og einkavinavæðingu og nú eigi að láta almenning (mig og þig) borga brúsann. Það eina sem heldur aftur af aðgerðarsinnum dagsins í dag er sú staðreynd að bylting er hræðilegt fyrirbrigði. Ríkisstjórnin er því miður málþola og skilur ekkert í ástandinu. Vonar bara að enginn verði drepinn.
Þann 3. september 2007 (semsagt fyrir Hrun) bloggaði ég eftirfarandi:
"Í Svíþjóð er maður sem ævinlega brýtur rúðu í banka þegar hann er ekki í fangelsi. Hann hefur gert þetta í mörg ár. Þegar hann er látinn laus er hann vanur að hafa samband við fjölmiðla og tilkynna þeim að nú ætli hann að brjóta rúðu í einhverjum tilteknum banka. Svo mætir hann þar, hendir sínu grjóti, brýtur eina rúðu, fréttamenn taka sínar myndir og lögreglan, sem auðvitað mætir líka á staðinn, tekur hann fastan. Hann segist vera að mótmæla yfirgangi og frekju bankanna. Mótmæli sín séu fyrst og fremst táknræn. Ekkert sé af sér að taka. Hann eigi ekki neitt og eina ráð lögreglunnar sé að læsa sig inni. Þegar hann er svo að lokum látinn laus aftur hringir hann í fjölmiðla og hringrásin hefst á ný."
Þegar ég les þetta sé ég að mér hefur ekkert farið fram síðan þá og bönkunum líklega ekki heldur.
Glaumbær í Skagafirði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)