1457 - Bloggbreyting (vonandi)

210Gamla myndin.
Þetta er Samvinnuskólinn að Bifröst. Anddyrið og setustofan.

Veit ekki hvernig á því stendur að ég er orðinn svona ákafur bloggari. Ekki get ég séð að þetta sé eitthvað sem beið eftir því að gerast. Stundum finnst manni einmitt fullkomlega eðlilegt að einhver hlutur gerist. Í rauninni er það stórfurðulegt að svo margir sem raun ber vitni skuli lesa þessar hugleiðingar mínar. Afleiðingin er sú að ég er mestallan daginn að hugsa um hvað ég eigi eiginlega að setja á bloggið. Auk þess vanda ég mig yfirleitt talsvert við að hafa orðalagið sæmilegt. Hugsanirnar eru áreiðanlega ekki mjög frumlegar, en ég er orðinn nokkuð leikinn við að koma þeim í orð.

Gömlu myndirnar sem ég set á bloggið eru ákaflega misjafnar. Sumar eru beinlínis lélegar og eiga ekkert erindi þangað. Aðrar eru alveg í lagi og það er hugsanlega vel þess virði fyrir þá sem áhuga hafa á gömlum myndum að skoða myndasöfnin hjá mér hér á blogginu. Ég er að hugsa um að fara að sinna þeim meira og setja skýringar við myndirnar sem þar eru. Oft fylgdu skýringar í bloggunum sem þær fylgdu en þær skýringar hverfa og koma ekki aftur.

Svo eru það nýlegu myndirnar. Eiginlega er ég allsekki viss um gildi þeirra. Sumar þeirra eru eflaust ágætar en þær eru oftast óralangt frá því að vera „arty farty“ eins og Goði Sveinsson orðaði það jafnan. Oft finnst mér ég vera eins og túristi í eigin landi þegar ég er að taka myndir til að setja á bloggið. Tek einkum myndir af því sem mér finnst einkennilegt og einkennandi.

Eftir langa og ítarlega naflaskoðun er ég búinn að ákveða að hætta að blogga daglega. Ég leiddist út í þetta fyrir alllöngu en sé núna að þetta er mesta vitleysa. Mér hefur svosem tekist að klifra svolítið upp eftir vinsældalistanum með þessu, en það er eiginlega það eina sem ég hef haft uppúr því. Aðalmunurinn á mér og öðrum fremur vinsælum bloggurum er að ég er fljótari en þeir að hrapa í heimsóknum þegar ég hætti með öllu að blogga um tíma eins og ég hef gert nokkuð af undanfarin ár. Þetta hlýtur að stafa af því að menn (a.m.k. sumir) kíkja á mitt blogg vegna þess að þeir hafa ekki annað skárra að gera. Ekki vegna þess að þeir hafi sérstakan áhuga á því að lesa það sem ég skrifa.

Þó ég segist ætla að hætta að blogga daglega getur vel verið að það verði erfitt. Þetta bloggstand er eins og hvert annað eiturlyf. Ég ætla a.m.k. að reyna að hætta að blogga um stjórnmál og fréttir. Eiginlega hef ég ósköp lítið að segja um það þó ég hafi auðvitað skoðanir á mörgu. Ég er að hugsa um að halda áfram að blogga um það sem ég lendi sjálfur í og skrá minningar um ýmislegt. (Og jafnvel eitthvað fleira.) En ætla engan vegin að keppast við að blogga á hverjum degi.

Þetta getur hæglega leitt til þess að ég verði aktívari í athugasemdum og jafnvel á fésbókinni líka. Ekkert er athugavert við það.

IMG 6427Af einhverjum ástæðum dettur mér jafnan í hug húsgangurinn kunni:

         Hárin mér á höfði rísa
         hugsi ég um kærleik þinn.
         Þetta er annars ágæt vísa
         einkum seinni parturinn.

Þegar ég sé þessa mynd.


Bloggfærslur 23. ágúst 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband