1373 - Fólk er ekki fífl

hellirGamla myndin.
Ekki veit ég hvar þessi hellir er. Líklega er það Þórður á Grund sem er á myndinni.

 Á fyrri hluta tuttugustu aldar höfðu Bandaríkjamenn ekki mikil afskipti af löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs eða Austurlöndum nær eins og þau eru líka gjarnan kölluð. Bretar og Frakkar skiptu sér þeim mun meira af málum þar um það leyti. Síðast að verulegu marki í Súez-stríðinu 1956. (Gunnar Benediktsson lét ekki hjá líða að minnast á það þegar Ungverjalandsuppreisnarinnar var minnst með skipulagðri þögn).

Um miðja öldina breyttist þetta. Kannski einkum vegna stofnunar Ísraelsríkis. Bandaríkamenn hafa smám saman orðið afskiptasamir mjög og óvinsælir í þessum heimshluta. Drápin á Saddam Hussein og Osama bin Laden kunna að skipta sköpum fyrir þá þróun sem virðist vera að byrja í Norður Afríku og víðar.

Stjórnmáladeilur á netinu verða oft ærið trúmálakenndar. Hver étur úr sínum poka og hlustar lítið á aðra og tekur ekkert mark á þeim. Mér finnst mega skilgreina stjórnmálaskoðanir á ýmsan hátt.

Hægri - vinstri. Þarna finnst mér oftast vera átt við mikil eða lítil ríkisafskipti.

Einangrunarsinni - Opingáttarmaður. Þarna er venjulega átt við hvort menn aðhyllast náin tengsl við önnur lönd eða ekki. 

Fólk er fífl - eða ekki. Þarna er um það að ræða að aðrir séu svo vitlausir af því þeir viti ekki eitthvað sem ræðumaður (skrifari) veit eða þykist vita. Þetta álit er mjög útbreitt þó margir vilji leyna því.

Innflytjendur eru hættulegir - eða ekki. Þarna skiptir mjög í tvö horn og tengist oft ekki öðrum skoðunum.

Eigum við að ganga í ESB - eða ekki. Þarna skiptir í mínum huga mestu hvernig fólk ímyndar sér að þróunin í ESB verði á komandi áratugum. Einnig hvort til lengri tíma litið sé hagstæðara að vera lítill og áhrifalaus eða eiga samstarf við sér stærri og öflugri aðila.

Heiftin gegn ríkisstjórninni fer vaxandi. Óvinsældir hennar einnig. Stjórnin er greinilega innbyrðis sundurþykk og svo virðist komið að helsta ástæðan fyrir því að halda áfram sé sú að annað stjórnarmynstur sé ekki sjáanlegt eins og er.

Kannski er stjórnarandstaðan hatrammari en oft áður og fjölmiðlunin óvandaðri. Núverandi ríkisstjórn er ekkert verri en aðrar sem hér hafa starfað. Erfiðleikarnir eru miklir og engin von til þess að hægt sé að gera öllum til hæfis. Fjölmiðlar eins og „Útvarp Saga" hika ekki við að skora á fólk að gera byltingu. Þykir að vísu betra að einhverjir innhringjendur í símaþáttum geri það en hafa greinilega velþóknum á þeim sem geta komist sem kröftuglegast að orði.

Það hefur komið fram hér áður að ég er stuðningsmaður þess að við Íslendingar göngum í ESB. Þarna er vissulega um mikið álitamál að ræða og hægt að líta á málin frá mörgum sjónarhornum. Ekki liggur fyrir hver niðurstaða samningaviðræðna verður. Andstæðingar aðildar eru öflugir og eins og sakir standa virðist líklegast að aðildin verði felld ef þjóðaratkvæðagreiðsla um hana fer fram innan skamms. Ekkert bendir til að sú atkvæðagreiðsla verði ekki bindandi og fullyrðingar aðildarandstæðinga um annað eru eingöngu til marks um óheilindi þeirra.

IMG 5537Arnarnes.


Bloggfærslur 27. maí 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband