1366 - Heimsendir

hveramörk6Gamla myndin.
Þetta er húsið okkar að Hveramörk 6. Ég man að ég var nokkuð ánægður með þessa mynd þó skugginn af mér sæist á henni. 

Búið er víst að spá heimsendi n.k. laugardag. Held að þessi heimsendaspá sé ósköp lík þeim venjulegu sem sífellt eru að koma frá sértrúarsöfnuðum allskonar. Það sem er einkum frábrugðið núna er að í þetta sinn er það auglýst í sjónvarpi. Einhverjir gera ráð fyrir að krakkar og óharðnaðir unglingar kunni að trúa þessu og því sé varasamt að leyfa auglýsingar af þessu tagi. Tek ekki afstöðu í því efni en ósmekklegt er þetta.

Er að hita mér hafragraut. Því miður kemur hann ekki sjálfur. Jafnvel þó ég gæti gripið skeiðina er ég ekki viss um að hann gerði það. Hann er reyndar ágætur þegar búið er að bæta í hann hunangi, kanel, döðlum, mjólk og fleiru. En afleitt er og alltof dýrt að nota Sólgrjón í hann.

Hef svolítið verið að hlusta og horfa á útsendingu frá Alþingi undanfarið og finnst atkvæðagreiðslur þar um afbrigði vegna þess „að svo háttar til" vera með þeim algengustu.

Það er óttalegur ósiður að láta svona og réttast væri auðvitað að neita slíku alltaf. Að þetta skuli yfirleitt þurfa um ný mál bendir til þess að þingsköp séu mjög gölluð. Enginn reki virðist samt vera gerður að því að laga þetta. Þeim sem á forsetastóli sitja hverju sinni finnst greinilega sjálfsagt að þetta sé samþykkt. Mér finnst þetta samt vera eitt af þeim atriðum sem dregur úr virðingu alþingis.

Sumir þingmenn virðast misskilja það sem sagt er um hálftíma hálfvitanna og halda að það eigi að láta eins og hálfvitar þá. Finnst annars ekki rétt að blanda alþingi mjög í hugleiðingar þær sem hér eru fram bornar.

Þó mér leiðist pólitík get ég ekki að því gert að mér finnst sjálfstæðisþingmenn ganga of langt í LÍÚ-þjónkun sinni.

LÍÚ-menn töpuðu einfaldlega í kvótamálinu. Þeir létu Gylfa og hina Alþýðusambandsmennina snúa á sig áróðurslega. Þar að auki snerust síðustu kosningar ekki bara um Hrunið heldur jafnframt um kvótamálin. Þau eru lengi búin að krauma í þjóðfélaginu en með hruninu varð augljóst hver hugur þáverandi ríkisstjórnar var í því efni.

Mín skoðun er sú að þeir sem eiga 10-11 búðirnar séu þjófar og ræningjar. Fyrir nokkrum vikum keypti ég þar einn lítra af mjólk. Hann kostaði 154 krónur. Það finnst mér of mikið. Ef ég mögulega get reyni ég að komast hjá því að versla við slíka okurbúllu. Núna áðan (um kl 11 í kvöld) keypti ég mjólkurfernu í Nóatúni (sem er líka opið alla nóttina) á 112 krónur. Samskonar fernur er hægt að fá hjá bakaríum á landsbyggðinni fyrir 120 krónur. Ég vorkenni þessum þjófum ekki að hafa verðið svipað.

IMG 5498Hellir.


Bloggfærslur 20. maí 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband