1335 - Eitt og annað smálegt

skalinnGamla myndin
er enn og aftur af gamla skátaskálanum innst í Reykjadal. Hér má sjá næsta umhverfi skálans. Það er heiti lækurinn margfrægi sem þarna rennur umhverfis skálann og næstum í kringum hann. Gera má ráð fyrir að mannskapurinn við skálann sé sá sami og var á myndinni sem ég birti á þessu bloggi um daginn og myndin tekin í sömu ferð.

Hér eru fyrst nokkur heimagerð spakmæli. Sum spakleg en önnur ekki:

Þú ert allt sem þú hefur einhverntíma verið. A.m.k. með sjálfum þér og ef til vill í hugum annarra. Frægt fólk er „eitthvað" í hugum fleiri. Það er allur munurinn.

Skák, hnefaleikar, tennis og snóker eru nauðalíkar íþróttagreinar. Þar er maður einsamall á móti öllum heiminum.

Lífið er fyrir alla og allir njóta þess eða kveljast í því.

Dauðinn er æðsti tilgangur lífsins og eina takmark þess.

Brandarar og þessháttar:

Af hverju finnst þér kjötkássa svona góð, Púlli?
- Þá get ég haft aðra hendina í vasanum.

Ég þyrfti að koma mér upp sjálfvirkri fyrirsagnavél. Ég er alltaf í vandræðum með þær.

Villi í Köben segir að ég sé hálffrosinn. Er eitthvað betra að vera þiðnaður og fljóta út um allt?

Man vel eftir Tívolíinu í Vatnsmýrinni og tækjunum þar. T.d. kassanum með myndum af fáklæddum konum sem urðu því fáklæddari sem fastar var tekið í handföngin. Reyndar var búið að gera gat aftan á kassann og hægt að skoða allar myndirnar þar en það er önnur saga.

Í stóru sirkustjaldi við Hringbrautina var sirkus Zoo til húsa (eða tjalda) eitt sumarið. Þar mátti sjá alvöru villidýr fyrir aukagreiðslu. Trúðarnir voru samt innifaldir í miðaverðinu.

Fylgdist óhemju vel með formúlu 1 einu sinni í fyrndinni þegar Schumacher og Häkkinen voru uppá sitt besta. Nenni því ekki núna. Merkilegt að skósmiðurinn skuli enn vera að. Á forsíðu Time var eitt sinn mynd af honum og sagt: „This kid is fast."

Svo var það með að skíra í höfuðið á. Þó Þórey geti sem best verið skírð í höfuðið á Eyþóri hefur mér alltaf þótt best sagan af Áslaugu sem skírð var í höfuðið á Tómasi af því nafnið hans endaði á Á-S.

IMG 5170Þessi er víst í björgunarsveitinni „Grandagarður".


Bloggfærslur 19. apríl 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband