1278 - Moggabloggið sem geymslustaður

Að mörgu leyti nota ég Moggabloggið sem geymslustað fyrir skrif mín og myndir. Málið er nefnilega þannig vaxið að þó ég hafi gaman af að skrifa (og yrkja vísur jafnvel líka) hef ég ekki nærri eins gaman af að halda þessu til haga. Einn aðalkosturinn við Moggabloggið finnst mér vera að þar get ég væntanlega gengið að þessum skrifum mínum vísum síðar meir (eða þar til Davíð ákveður annað). Og ekki veitir af, því megnið af þeim er hvergi til annars staðar. Ég er samt alltaf að hugsa um að velja það skásta úr þessum skrifum og geyma einhvers staðar annarsstaðar. Auðvitað verður svo aldrei neitt úr því. Líka skrifaði ég heil ósköp á Tenerife og hafði hugsað mér að nota eitthvað af því hér og hef kannski gert. Á þó eftir að yfirfara þau skrif ef ég finn þau.

Mikið er skrifað og skrafað um ákvörðun Ólafs forseta. Það er auðvitað að vonum. Hann hefur pólitískt PR-nef segja margir og sú er trú mín að hann sé núna einkum að velta fyrir sér hvort hann eigi að fara í framboð einu sinni enn. Icesave ákvörðun hans veldur líklega minnkandi líkum á marktæku mótframboði ef hann ákveður að fara fram. Ég er ekki að segja að það hafi ráðið mestu um ákvörðun hans varðandi Icesave en það var áreiðanlega einn af þeim þáttum sem taka þurfti með í reikninginn.

Segja má að kosningabaráttan hafi hafist í gær. Nei-sinnar er að af fullum krafti en já-sinnar eru varla komnir í startholurnar. Útlit er fyrir að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla verði mun tvísýnni en síðast. Þá var ekki hægt að segja að það væri valkostur að velja jáið. Ýmislegt á eftir að ganga á þar til kosið verður að þessu sinni. Ekki er gott að sjá hvernig mál þróast. Margir hafa hátt um að ríkisstjórnin þurfi að segja af sér ef lögin verða felld. Eins og ég skil málið fer það allt eftir því hvað ríkisstjórnin segir og gerir fram að kosningadegi hvort hún þurfi að segja af sér ef málið tapast.

Ég hlusta talsvert oft á innhringiþættina á Útvarpi Sögu og skammast mín ekkert fyrir það. Það er stundum gaman að hlusta á fólk sem hringir inn en mestan part er það svo æst að það sést ekki fyrir. Orðbragðið er oft með ólíkindum. Oft er ég mjög ósammála bæði þeim sem hringja inn og þáttastjórnendunum sem ótrúlega oft eru alveg sammála innhringjendum. (Eða öfugt). Svo er gaman að hlusta á skoðanakannanirnar hjá þeim. Arnþrúður og Pétur tala oft um þessar skoðanakannanir eins og eitthvað sé að marka þær. Ég er alls ekki viss um að fleirum en þeim detti það í hug.

Margir segja að Icesave atkvæðagreiðslan sé undanfari atkvæðagreiðslu um ESB-aðild. Það kann að vera rétt að því leyti að talsverðar líkur eru á að úrslit þeirra atkvæðagreiðslna beggja verði á sama veg. Það er að segja að ef Icesave-lögin verða felld þá verði ESB-aðild einnig hafnað og ef þau verði samþykkt þá aukist líkurnar á því að ESB-aðild verði einnig samþykkt. Áhrifin þarna á milli eru þó mjög óbein þó reynt sé að gera sem mest úr þeim. Þeir sem það gera vita það líka mætavel en hamra samt sem mest á þessum tengslum.

IMG 4482Köttur skoðar veröldina.


Bloggfærslur 22. febrúar 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband